Úkraínumenn ofarlega í hugum þingmanna – „Slava Ukraini“

Fjölmargir þingmenn ræddu innrás Rússa í Úkraínu á Alþingi í dag. „Nú þarf að standa í lapp­irn­ar. Nú þarf að standa við stóru orð­in. Við þurfum að búa okkur undir að þetta stríð standi lengi og við þurfum að standa gegn því mjög leng­i.“

Kharkiv í Úkraínu í dag.
Kharkiv í Úkraínu í dag.
Auglýsing

Stríðið í Úkra­ínu var ofar­lega í huga þing­manna þegar þeir héldu ræður sínar undir liðnum störf þings­ins í dag. Her­lið Rússa rést inn í Úkra­ínu á fimmtu­dag­inn í síð­ustu viku og hafa tæp­lega 900.000 manns nú þegar flúið land­ið. Þór­­dís Kol­brún Reyk­­fjörð Gylfa­dótt­ir ut­an­­rík­­is­ráð­herra sagði á Twitter þegar inn­rásin hófst að hún for­dæmdi þessa „til­efn­is­lausu árás Rúss­lands á Úkra­ín­u“. Hún væri skýrt brot á alþjóða­lög­um. Hún sagði jafn­framt á fundi með Olgu Dibrova, sendi­herra Úkra­ínu gagn­vart Íslandi, í gær að íslensk stjórn­völd gerðu allt sem í þeirra valdi stæði til að styðja úkra­ínsku þjóð­ina á þessum erf­iðum tím­um.

Hvatti sveit­ar­fé­lög til að taka á móti fólki á flótta

Jóhann Frið­rik Frið­riks­son þing­maður Fram­sókn­ar­flokks­ins var einn þeirra þing­manna sem gerði stríðið að umtals­efni og sagði að hann hefði ekki nokkra trú á því að rúss­neskur almenn­ingur væri sam­mála stríðs­rekstri stjórn­valda í Úkra­ínu.

Auglýsing

„Hér á landi búa íbúar sem koma frá Rúss­landi og Úkra­ínu, suma þekki ég per­sónu­lega og staðan er þannig að ástandið er mjög íþyngj­andi. Það er eðli­legt að þetta fólk finni fyrir kvíða. For­dæm­ing mín á inn­rás stjórn­valda í Rúss­landi bein­ist fyrst og fremst að stjórn­völdum þar í landi, enda skil ég ekki með nokkru móti hvernig hags­munir almenn­ings í Rúss­landi geta farið saman með þeim hörm­ungum sem nú dynja á úkra­ínskum sak­lausum borg­ur­um. Við Íslend­ingar höfum átt sam­starf við Rúss­land á ýmsum sviðum í gegnum tíð­ina. Sú breytta mynd sem nú blasir við er lík­leg til að hafa nei­kvæð áhrif á slíkt sam­starf, jafn­vel um árarað­ir. Ekk­ert kall­aði á inn­rás í Úkra­ínu nema þrá þeirrar þjóðar eftir lýð­ræði, frelsi og mann­rétt­ind­um. Fjöldi þeirra íbúa í Úkra­ínu sem velja nú að flýja land eykst með hverjum deg­inum sem líð­ur. Við­kvæm staða þeirra blasir við,“ sagði hann.

Jóhann Friðrik Friðriksson Mynd: Bára Huld Beck

Nefndi hann heimabæ sinn, Reykja­nes­bær, og sagði að hann hefði unnið lengi með stjórn­völdum að mál­efnum fólks á flótta og vildi Jóhann Frið­rik ein­dregið hvetja önnur sveit­ar­fé­lög á land­inu til að lýsa yfir vilja sínum til að taka við fólki í neyð. Sveit­ar­fé­lögin í land­inu væru sterk og héldu þétt utan um íbúa sína og veittu öfl­uga þjón­ustu í nærum­hverf­inu.

„Ég skora á alla kjörna full­trúa í sveit­ar­stjórnum um land allt: Opnum faðminn, veitum skjól, því nú er kom­inn tími til þess að öll sveit­ar­fé­lög á land­inu stígi upp og komi til vernd­ar.“

Ógn við heims­mynd­ina

Bryn­dís Har­alds­dóttir þing­maður Sjálf­stæð­is­flokks­ins sagði að alls­herj­ar­hern­að­ar­árás Pútíns og hans fylgj­enda í Úkra­ínu væri ógn við frið og stöð­ug­leika í Evr­ópu allri.

Bryndís Haraldsdóttir Mynd: Bára Huld Beck

„Að ráð­ast inn í frjálst og full­valda ríki er ógn við heims­mynd okkar og skýrt brot á alþjóða­lög­um. Hugur okkar er hjá úkra­ínsku þjóð­inni sem má þola hrylli­legar og grimmi­legar sprengju­árásir frá her­sveitum Rússa. Þessar til­hæfu­lausu árásir Pútíns, sem hafa í för með sér mann­fall og tjón meðal almennra borg­ara og reka gríð­ar­legan fjölda fólks á flótta, sýna að stjórn­völd í Rúss­landi bera enga virð­ingu fyrir manns­lífum og rétti fólks til frelsis og lýð­ræð­is.

Rúss­neski her­inn er við það að yfir­taka Kiev, höf­uð­borg Úkra­ínu. Trú­festa og seigla úkra­ínsku þjóð­ar­innar er aðdá­un­ar­verð, en því miður eru allar líkur á því að innan fárra daga eða klukku­stunda verði borgin blóð­bað eitt. Eina raun­hæfa leiðin til að verja Úkra­ínu er að Pútín ein­angr­ist og að stuðn­ings­menn hans snúi við honum baki. Að her­menn rúss­neska hers­ins átti sig á því að þeir eru að berj­ast við bræður sína og syst­ur, sak­laust fólk sem hefur ekk­ert til þess unnið að þurfa að standa vörð um sjálf­stæði þjóð­ar­innar sinn­ar, og þess vegna leggi her­menn­irnir niður vopn sín. Rödd allra sem aðhyll­ast mann­rétt­indi, frið og að alþjóða­lög séu virt og sam­staða okkar er eina leiðin til að ná því fram. Ég styð Úkra­ín­u,“ sagði hún.

Hvetur alla til að sýna mannúð ekki bara í orði heldur líka á borði

Gísli Rafn Ólafs­son þing­maður Pírata gerði stríðið einnig að umræðu­efni í ræðu sinni.

„Rétt eins og hjá öðrum er hugur minn hjá Úkra­ínu, bæði þeim millj­ónum sem búa við erf­iðar aðstæður innan Úkra­ínu, mörg hver að fela sig í kjöll­ur­um, verj­ast sprengjuregni og jafn­vel að eign­ast börn í neð­an­jarð­ar­lest­ar­göng­um, og einnig þeirri bráðum milljón manns sem þegar hafa flúið land­ið, þeim millj­ónum sem eru að reyna að flýja land­ið. Það að flýja er eitt­hvað sem fá okkar vita hvernig er. Það að geta ekk­ert tekið með sér nema kannski barnið þitt og lyf. Við sem höfum starfað með fólki á flótta erum að upp­lifa for­dæma­lausa neyð. 220 millj­arðar er það sem Sam­ein­uðu þjóð­irnar hafa óskað eftir til stuðn­ings bara til að byrja neyð­ar­starf­ið, 220 millj­arðar íslenskra króna. Það er mik­il­vægt að við Íslend­ingar sem virkir þátt­tak­endur í alþjóða­sam­fé­lag­inu bregð­umst fljótt og mark­visst við,“ sagði hann.

Gísli Rafn Ólafsson Mynd: Bára Huld

Hann þakk­aði jafn­framt Þór­dísi Kol­brúnu R. Gylfa­dóttur utan­rík­is­ráð­herra fyrir að veita strax 1 milljón evra til þess­ara mála. „Það er góð byrjun en nú er komið að því að við öll, stjórn­völd, almenn­ing­ur, fyr­ir­tæki og félaga­sam­tök, sýnum mannúð í verki, sýnum hana ekki bara í orði heldur líka á borði og sýnum að við styðjum fólkið í Úkra­ínu, eða eins og þau segja sjálf, með leyfi for­seta: Slava Ukra­in­i.“

Stríðið komið á þroskuld okkar

Þór­unn Svein­bjarn­ar­dóttir þing­maður Sam­fylk­ing­ar­innar sagði að stríð væri hryll­ingur sem kippti grund­vell­inum undan til­veru fólks.

„Það deyð­ir, það eyðir og það lim­lest­ir, það hrekur óbreytta borg­ara á flótta, rústar barn­æsk­unni og öllum draumum um frið og vel­sæld. Það á við um stríð, hvort sem það er í Afganistan, Jem­en, Sýr­landi eða Úkra­ínu. En nú er stríðið komið heim. Það er á þrös­k­uldi okkar af því að við búum í Evr­ópu og við skynjum og upp­lifum það svo miklu sterkar en við gerum með stríðin sem eru í öðrum heims­álf­um. Fyrir því er mjög mann­leg og skilj­an­leg ástæða en við skulum samt reyna að skilja að stríð er hrylli­legt hvar sem það fer fram.

Inn­rás Rúss­lands í Úkra­ínu markar þátta­skil í sögu Evr­ópu frá seinni heims­styrj­öld. Það liggur fyr­ir. Sem betur fer hefur nú náðst sam­staða um for­dæma­lausar við­skipta­þving­anir gegn Rúss­landi, gegn ein­stak­lingum í æðstu stöðum og ólígörk­um, því að þeim þarf vissu­lega ná. Við verðum að spyrja okkur hvort þær dugi af því að Pútín er ekki vina­laus. Heims­veldið Kína er á gula takk­an­um, eins og þar stend­ur, þegar kemur að Pútín og þaðan mun hann fá sínar bjargir þegar á reyn­ir,“ sagði hún.

Þórunn Sveinbjarnardóttir Mynd: Bára Huld Beck

Þór­unn telur að efna­hags­legar þving­anir verði að bíta og „við sem hér búum í frjálsum ríkjum Vest­ur­-­Evr­ópu þurfum líka að gera okkur grein fyrir því að við þurfum að greiða fórn­ar­kostnað af efna­hags­að­gerð­unum af því að þær munu hafa bein áhrif á kjör okk­ar; við­skipta­kjör, verð­bólgu og efna­hags­um­hverfi. Það er eins gott að við byrjum strax að huga að því og stöndum í lapp­irnar og verðum ekki stödd þar eftir hálft ár eða svo – von­andi verður stríð­inu löngu lokið þá – að við verðum farin að barma okkur yfir því að þurfa að grípa til þess­ara aðgerða.

Nú þarf að standa í lapp­irn­ar. Nú þarf að standa við stóru orð­in. Við þurfum að búa okkur undir að þetta stríð standi lengi og við þurfum að standa gegn því mjög leng­i,“ sagði þing­mað­ur­inn.

Ofbeldi birt­ist í ýmsum myndum

Guð­mundur Ingi Krist­ins­son þing­maður Flokks fólks­ins fjall­aði um stríðið í Úkra­ínu í sinni ræðu og setti það í sam­hengi við íslenskan veru­leika.

Guðmundur Ingi Mynd: Bára Huld Beck

„Eld­flauga­árás rúss­neska hers­ins á minn­is­varða um fjöldamorðin í hel­för­inni er stórfurðu­leg árás því að rúss­neska þjóðin ætti svo sann­ar­lega að halda í og muna hel­för­ina og það sem gerð­ist þar. Við megum ekki láta sög­una end­ur­taka sig og verðum að muna að stríð með til­heyr­andi ofbeldi leysir ekk­ert. Stríð og ofbeldi því tengt bitnar verst á þeim sem síst skyldi, börn­um, fötl­uðum og veiku fólki, og skilur bara eftir sig eymd og eyði­legg­ingu.

En ofbeldi birt­ist í ýmsum mynd­um. Afleið­ingar þess eru oft­ast lík­am­legt og and­legt tjón þeirra sem síst skyldi. Fjár­hags­legt ofbeldi veldur and­legu og lík­am­legu tjóni og þeir sem verða fyrir því geta orðið fyrir óbæt­an­legu tjóni. Hvaða afleið­ingar hefur það fyrir fjöl­skyldu þar sem margir þurfa lífs­nauð­syn­lega á lyfjum að halda ef hún hefur ekki efni á að leysa þau út?“ spurði hann.

„Jú, það getur valdið ein­stak­lingum í fjöl­skyld­unni óbæt­an­legu and­legu og lík­am­legu tjóni og þeir eru jafn­vel settir í þá aðstöðu að verða að velja á milli sín hver er í for­gangi og hver ekki. Hvaða afleið­ingar hefur það ofbeldi að fólk eigi ekki fyrir mat dögum saman í hverri viku eða í hverjum mán­uði eða svo árum skipt­ir? Jú, and­legri og lík­am­legri heilsu þeirra mun hraka og valda þeim og sam­fé­lag­inu óbæt­an­legum skaða. Þetta er svo fámennur hópur sem er í þess­ari aðstöðu, segja stjórn­völd ítrek­að. En hvers vegna gera þau ekk­ert í þessu máli? Ekki á kostn­að­ur­inn að stöðva stjórn­völd í að koma þessu í lag því að þetta eru svo fáir. Eða er það þess vegna sem þau vilja ekk­ert gera? Eða er ástæðan ein­hver önn­ur? Svari því stjórn­ar­lið­ar. Verður and­legt og lík­am­legt tjón þeirra verst settu í þess­ari ömur­legu stöðu áfram óbreytt út kjör­tíma­bil­ið?“ spurði hann að lok­um.

Ræddi við úkra­ínskar konur búsettar hér á landi

Sig­mundur Davíð Gunn­laugs­son for­maður Mið­flokks­ins sagð­ist hafa komið á þingið af fundi sem flokk­ur­inn hefði haldið með tveimur úkra­ínsku konum sem hefðu búið hér um nokk­urt skeið. Önnur þeirra hafði búið hér á landi í 20 ár og verið kenn­ari í Hafn­ar­firði.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson Mynd: Bára Huld Beck

„Þetta voru þær Tanya og Valeria sem lýstu ástand­inu í Úkra­ínu og stöðu frænd­fólks síns og vina þar í landi. Auð­vitað er það alltaf sér­stak­lega til­finn­inga­ríkt þegar maður heyrir sög­urnar beint frá fólki sem upp­lifir hlut­ina sjálft eða í gegnum nákomna. Þær upp­lýstu okkur um að Úkra­ínu­menn hér á landi og fólk af úkra­ínskum ættum haldi vel saman og muni núna opna hóp­inn fyrir Íslend­ingum sem hafa áhuga á að taka þátt og aðstoða Úkra­ínu. Það er einnig til hópur sem heitir Ísland fyrir Úkra­ínu og heldur meðal ann­ars úti Face­book-­síðu.

Ég hvet fólk til þess að kynna sér þetta starf og setja sig í sam­band við þetta fólk því að það munar ótrú­lega mikið um að kom­ast í bein sam­skipti við fólk sem er að ganga í gegnum slíka erf­ið­leika, bæði fyrir okkur að kynn­ast því nánar hvað þarna er um að vera, en einnig fyrir fólk til að skynja, maður á mann, per­sónu­legan stuðn­ing. Það eru ýmsar leiðir sem Íslend­ingar geta far­ið, bæði í gegnum hjálp­ar­sam­tök og beint í gegnum þessa hópa til að styðja ein­stak­linga í Úkra­ínu. Ég vildi hvetja hátt­virta þing­menn og aðra sem á hlýða að kynna sér þessa hópa, Ísland fyrir Úkra­ínu og Úkra­ínu­menn á Íslandi, sem hyggj­ast nú opna hóp­inn fyrir Íslend­ingum sem hafa áhuga á að kynna sér málið nánar og veita aðstoð,“ sagði Sig­mund­ur.

Mik­il­væg­asti vett­vangur þjóðar sem telur sig vilja við­halda friði er Evr­ópu­sam­bandið

Dag­björt Hákon­ar­dóttir vara­þing­maður Sam­fylk­ing­ar­innar sagði að í umræðum í þing­inu hefði hún skynjað mik­il­væga og breiða sam­stöðu á meðal kjör­inna full­trúa um ótví­ræðan stuðn­ing við stjórn­völd í Úkra­ínu og algjöra höfnun á þeirri óöld sem rúss­nesk stjórn­völd hafa boðið okkur upp á.

Dagbjört Hákonardóttir Mynd: Aðsend

„Á und­an­förnum dögum hefur svið alþjóða­stjórn­mála tekið for­dæma­lausum breyt­ingum á ógn­ar­hraða. Stríðið í Úkra­ínu er ekki borg­ara­styrj­öld. Það er utan­að­kom­andi árás ann­arrar þjóð­ar, þjóðar sem svífst einskis, þjóðar sem á landa­mæri á norð­ur­slóðum sem og að loft- og land­helgi Íslands og hefur gengið svo langt að reyna að gera til­kall til norð­ur­póls­ins. Skýr afstaða Íslands í sam­fé­lagi frjálsra lýð­ræð­is­þjóða hefur aldrei verið mik­il­væg­ari en við hljótum að draga þann lær­dóm að vera Íslands í NATO er og verður lyk­il­þáttur íslenskrar varn­ar­stefnu sem þarf að við­hafa, hvað sem öðru líð­ur, hjá eyríki á norð­ur­slóð­um. Rétt er þó að benda á að mik­il­væg­asti vett­vangur þjóðar sem telur sig vilja við­halda friði umfram allt er Evr­ópu­sam­band­ið. Aldrei hefur sam­starf Evr­ópu­þjóða sannað gildi sitt gagn­vart nágranna sem er ógnað líkt og nú.“

Sagði hún að mál­tækið „megir þú lifa á áhuga­verðum tím­um“ hefði því miður raun­gerst fyrir mann­eskju sem hefur aðeins lifað frið­ar­tíma. „Það er þó ekki nóg fyrir rík­is­stjórn og þing að sam­mæl­ast um mik­il­vægi friðar heldur líka þær leiðir sem við viljum fara til að ná honum og við­halda hon­um. Sem frjáls­lyndur jafn­að­ar­maður tel ég óraun­hæft og óæski­legt að reyna að ná honum með öðrum hætti en innan vébanda evr­ópskra lýð­ræð­is­þjóða innan Evr­ópu­sam­bands­ins en því skal haldið til haga að sitj­andi rík­is­stjórn er að mér vit­andi ekki á sama máli.“

Efna­hags­þving­anir munu hafa afleið­ingar fyrir almenna borg­ara

Hanna Katrín Frið­riks­son þing­flokks­for­maður Við­reisnar hóf ræðu sína á því að segja að valda­sjúkir og veru­leikafirrtir stjórn­mála­leið­togar væru hættu­legir sak­lausu fólki, þeir væru hættu­legir heim­in­um.

„Okkur ber skylda til að bregð­ast við af fullum þunga til að verja borg­ara Úkra­ínu og til að verja vest­ræn gildi um lýð­ræði, mann­rétt­indi og frelsi. Þving­un­ar­að­gerðum er ætlað að snúa við hags­muna­mati þeirra sem telja stríðs­á­tök einu leið­ina til að ná mark­miðum sínum og til þess þurfa þær ein­fald­lega að skila umtals­verðu tjóni á við­skipta­hags­mun­um. Þving­un­ar­að­gerðir af þess­ari stærð­argráðu hafa ekki verið virkj­aðar til þessa vegna skorts á vilja og vegna hræðslu við afleið­ingar heima fyr­ir.

Það er ekki hjá því kom­ist, eigi efna­hags­þving­anir líkt og nú er talað um að gera gagn, eigi þær að stöðva Pútín Rúss­lands­for­seta, að þá muni það hafa afleið­ingar fyrir almenna borg­ara. Og ekki bara í Rúss­landi. Í alþjóða­væddum heimi eru hags­munir þjóða sam­ofn­ir. Frjáls sam­skipti á milli þjóða hafa verið grunnur vel­meg­unar og hag­sæld­ar­þró­unar síð­ustu ára­tugi. Ef við leyfum Pútín að rústa þeirri þróun mun það verða okkur veru­lega dýr­keypt til lengri tíma lit­ið,“ sagði hún.

Hanna Katrín Friðriksson Mynd: Bára Huld Beck

Spurði hún hver ásætt­an­legur kostn­aður til að við­halda þessu alþjóða­kerfi frjálsra sam­skipta sem hefur verið byggt upp eftir síð­ari heims­styrj­öld væri. „Hvað má það kosta fyr­ir­tæki og heim­ili í hinum vest­ræna heimi og hvað vegur sá skamm­tíma­kostn­aður á móti þeirri áhættu að leyfa Pútín að grafa undan vest­rænum gildum um mann­rétt­indi, frelsi og lýð­ræði? Þetta er lyk­il­at­riði fyrir þjóðir heims­ins en þetta er ekki síst lyk­il­at­riði fyrir Ísland sem á allt sitt undir því að alþjóða­lög séu virt og landa­mæri þjóða séu örugg.“

Pútín má aldrei takast að sundra sam­stöðu Vest­ur­landa

Birgir Þór­ar­ins­son þing­maður Sjálf­stæð­is­flokks­ins var síð­asti ræðu­mað­ur­inn undir liðnum störf þings­ins og sagði hann að stríð vald­hafa í Rúss­landi gegn Úkra­ínu væri stríð gegn Evr­ópu.

„Vald­haf­inn og ein­ræð­is­herr­ann Pútín lýgur að eigin þjóð og alþjóða­sam­fé­lag­inu. Honum má aldrei takast að sundra sam­stöðu Vest­ur­landa. Alþjóð­legar efna­hags­refs­ingar gegn Rússum verða að vera mjög harka­leg­ar. Það duga engin vett­linga­tök. Her­veldi sem ræðst inn í sjálf­stætt og full­valda ríki Evr­ópu og ógnar þar með friði í allri álf­unni, er her­veldi sem eng­inn getur treyst. Næst gæti það verið Pól­land eða Finn­land.

Stríðið í Úkra­ínu sýnir fram á mik­il­vægi NATO og sannar til­gang þess sem varn­ar­banda­lags. Nú sem aldrei fyrr þarf Ísland að standa við skuld­bind­ingar sínar gagn­vart NATO og tryggja að hér sé ávallt til staðar sú aðstaða fyrir varn­ar­við­búnað sem gæti skipt okkur sköpum á örlaga­stundu. Gleymum því ekki að Rússar voru fyrir skömmu með her­æf­ingar undan ströndum Írlands í óþökk Íra.“

Birgir Þórarinsson Mynd: Bára Huld Beck

Benti hann á að engin leið væri að sjá hvernig atburða­rásin verður næstu daga í Úkra­ínu. „Miklar líkur eru þó á því að örlaga­stund muni brátt renna upp. Upp­hafið að enda­lokum Úkra­ínu sem frjáls og full­valda ríkis gæti verið á næsta leiti. Það má hinn frjálsi vest­ræni heimur aldrei sætta sig við. Atburða­rásin í Úkra­ínu verður ekki stöðvuð með orð­um. Orðum verða að fylgja efnd­ir, að veita Úkra­ínu hrað­ferð inn í Evr­ópu­sam­band­ið. Umsókn­ina á ekki að setja niður í skúffu. Á örlaga­stundu þegar fram­tíð Evr­ópu er í húfi má aldrei hika. Almenn­ingur í Rúss­landi vill ekki stríð. Ég vona svo sann­ar­lega að rúss­neskur almenn­ingur rísi upp gegn stjórn­völdum í Kreml og dagar Pútín-­stjórn­ar­innar heyri brátt sög­unni til.“

Við þurfum á þínu framlagi að halda

Þú getur tekið beinan þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við sem vinnum á ritstjórn Kjarnans viljum hvetja þig til að vera með okkur í liði og leggja okkar góða fjölmiðli til mánaðarlegt framlag svo við getum haldið áfram að vinna fyrir lesendur, fyrir fólkið í landinu.

Kjarninn varð níu ára í sumar. Þegar hann hóf að taka við frjálsum framlögum þá varð slagorðið „Frjáls fjölmiðill fyrir andvirði kaffibolla“ til og lesendur voru hvattir til að leggja fram í það minnsta upphæð eins kaffibolla á mánuði.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar á þeim níu árum sem Kjarninn hefur lifað. Í huga okkar á Kjarnanum hefur þörfin fyrir fjölmiðla sem veita raunverulegt aðhald og taka hlutverk sitt alvarlega aukist til muna.

Við trúum því að Kjarninn skipti máli fyrir samfélagið.

Við trúum því að sjálfstæð og vönduð blaðamennska skipti máli.

Ef þú trúir því sama þá endilega hugsaðu hvort Kjarninn er ekki allavega nokkurra kaffibolla virði á mánuði.

Vertu með okkur í liði. Þitt framlag skiptir máli.

Ritstjórn Kjarnans: Sunna Ósk Logadóttir, Þórður Snær Júlíusson, Erla María Markúsdóttir, Arnar Þór Ingólfsson, Eyrún Magnúsdóttir og Grétar Þór Sigurðsson.


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Þorbjörn Guðmundsson
Er íslenska velferðarkerfið ekki lengur griðarstaður þeirra sem minnst hafa?
Kjarninn 11. janúar 2023
Takk fyrir og sjáumst á nýjum miðli á föstudag
Bréf frá ritstjóra Kjarnans vegna sameiningar við Stundina og þess að nýr framsækinn fréttamiðill verður til í lok viku.
Kjarninn 11. janúar 2023
Sverrir Albertsson
Vatn á myllu kölska
Kjarninn 11. janúar 2023
Lögreglumenn standa vörð um gröfurnar í námunni.
Berjast fyrir þorpi á barmi hengiflugs
Lítið þorp í Rínarlöndum Þýskalands er allt komið í eigu kolarisa. Fyrirtækið ætlar sér að mylja niður húsin og stækka kolanámu sína sem þegar þekur um 80 ferkílómetra. Þetta þykir mörgum skjóta skökku við í heimi sem berst við loftslagsbreytingar.
Kjarninn 10. janúar 2023
Arnþrúður Karlsdóttir, útvarpsstjóri Útvarps Sögu.
Útvarp Saga telur fjölmiðlastyrki skapa tortryggni og bjóða upp á frændhygli
Fjögur fjölmiðlafyrirtæki hafa til þessa skilað inn umsögnum um frumvarp Lilju Alfreðsdóttur menningar- og viðskiptaráðherra, sem mun að óbreyttu framlengja núverandi styrkjakerfi til fjölmiðla.
Kjarninn 10. janúar 2023
Sólveig Anna Jónsdóttir formaður Eflingar.
Viðræðum slitið og Efling undirbýr verkfallsaðgerðir
Samtök atvinnulífsins hafa hafnað gagntilboði Eflingar um skammtímakjarasamning, sem kvað á um meiri launahækkanir en SA hefur samið um við aðra hópa á almennum vinnumarkaði til þessa. Efling undirbýr nú verkfallsaðgerðir.
Kjarninn 10. janúar 2023
Palestínski fáninn á lofti í mótmælum í Reykjavík. Ísraelskri lögreglu hefur nú verið fyrirskipað að rífa fánann niður á almannafæri.
Fánabann og refsiaðgerðir í Palestínu í kjölfar niðurstöðu Sameinuðu þjóðanna
Degi eftir að ný ríkisstjórn tók við völdum í Ísrael samþykkti allsherjarþing Sþ að fela Alþjóðadómstólnum í Haag að meta lögmæti hernáms Ísraelsríkis á Vesturbakkanum. Síðan þá hefur stjórnin gripið til refsiaðgerða og nú síðast fánabanns.
Kjarninn 10. janúar 2023
Gríðarlega mikil dæling á sandi á sér stað í Landeyjahöfn á hverju ári. Markarfljótið ber hundruð þúsunda tonna af jarðefnum út í sjó og það á til að safnast upp í mynni hafnarinnar.
Vilja sjúga sand af hafsbotni í stórum stíl og flytja út
Eftirspurn eftir íslenskum jarðefnum er gríðarleg ef marka má framkomin áform erlendra stórfyrirtækja um nýtingu þeirra. Vinsældir hafnarinnar í Þorlákshöfn eru samhliða mjög miklar.
Kjarninn 10. janúar 2023
Meira úr sama flokkiInnlent