Stríðið í Úkraínu var ofarlega í huga þingmanna þegar þeir héldu ræður sínar undir liðnum störf þingsins í dag. Herlið Rússa rést inn í Úkraínu á fimmtudaginn í síðustu viku og hafa tæplega 900.000 manns nú þegar flúið landið. Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra sagði á Twitter þegar innrásin hófst að hún fordæmdi þessa „tilefnislausu árás Rússlands á Úkraínu“. Hún væri skýrt brot á alþjóðalögum. Hún sagði jafnframt á fundi með Olgu Dibrova, sendiherra Úkraínu gagnvart Íslandi, í gær að íslensk stjórnvöld gerðu allt sem í þeirra valdi stæði til að styðja úkraínsku þjóðina á þessum erfiðum tímum.
Hvatti sveitarfélög til að taka á móti fólki á flótta
Jóhann Friðrik Friðriksson þingmaður Framsóknarflokksins var einn þeirra þingmanna sem gerði stríðið að umtalsefni og sagði að hann hefði ekki nokkra trú á því að rússneskur almenningur væri sammála stríðsrekstri stjórnvalda í Úkraínu.
„Hér á landi búa íbúar sem koma frá Rússlandi og Úkraínu, suma þekki ég persónulega og staðan er þannig að ástandið er mjög íþyngjandi. Það er eðlilegt að þetta fólk finni fyrir kvíða. Fordæming mín á innrás stjórnvalda í Rússlandi beinist fyrst og fremst að stjórnvöldum þar í landi, enda skil ég ekki með nokkru móti hvernig hagsmunir almennings í Rússlandi geta farið saman með þeim hörmungum sem nú dynja á úkraínskum saklausum borgurum. Við Íslendingar höfum átt samstarf við Rússland á ýmsum sviðum í gegnum tíðina. Sú breytta mynd sem nú blasir við er líkleg til að hafa neikvæð áhrif á slíkt samstarf, jafnvel um áraraðir. Ekkert kallaði á innrás í Úkraínu nema þrá þeirrar þjóðar eftir lýðræði, frelsi og mannréttindum. Fjöldi þeirra íbúa í Úkraínu sem velja nú að flýja land eykst með hverjum deginum sem líður. Viðkvæm staða þeirra blasir við,“ sagði hann.
Nefndi hann heimabæ sinn, Reykjanesbær, og sagði að hann hefði unnið lengi með stjórnvöldum að málefnum fólks á flótta og vildi Jóhann Friðrik eindregið hvetja önnur sveitarfélög á landinu til að lýsa yfir vilja sínum til að taka við fólki í neyð. Sveitarfélögin í landinu væru sterk og héldu þétt utan um íbúa sína og veittu öfluga þjónustu í nærumhverfinu.
„Ég skora á alla kjörna fulltrúa í sveitarstjórnum um land allt: Opnum faðminn, veitum skjól, því nú er kominn tími til þess að öll sveitarfélög á landinu stígi upp og komi til verndar.“
Ógn við heimsmyndina
Bryndís Haraldsdóttir þingmaður Sjálfstæðisflokksins sagði að allsherjarhernaðarárás Pútíns og hans fylgjenda í Úkraínu væri ógn við frið og stöðugleika í Evrópu allri.
„Að ráðast inn í frjálst og fullvalda ríki er ógn við heimsmynd okkar og skýrt brot á alþjóðalögum. Hugur okkar er hjá úkraínsku þjóðinni sem má þola hryllilegar og grimmilegar sprengjuárásir frá hersveitum Rússa. Þessar tilhæfulausu árásir Pútíns, sem hafa í för með sér mannfall og tjón meðal almennra borgara og reka gríðarlegan fjölda fólks á flótta, sýna að stjórnvöld í Rússlandi bera enga virðingu fyrir mannslífum og rétti fólks til frelsis og lýðræðis.
Rússneski herinn er við það að yfirtaka Kiev, höfuðborg Úkraínu. Trúfesta og seigla úkraínsku þjóðarinnar er aðdáunarverð, en því miður eru allar líkur á því að innan fárra daga eða klukkustunda verði borgin blóðbað eitt. Eina raunhæfa leiðin til að verja Úkraínu er að Pútín einangrist og að stuðningsmenn hans snúi við honum baki. Að hermenn rússneska hersins átti sig á því að þeir eru að berjast við bræður sína og systur, saklaust fólk sem hefur ekkert til þess unnið að þurfa að standa vörð um sjálfstæði þjóðarinnar sinnar, og þess vegna leggi hermennirnir niður vopn sín. Rödd allra sem aðhyllast mannréttindi, frið og að alþjóðalög séu virt og samstaða okkar er eina leiðin til að ná því fram. Ég styð Úkraínu,“ sagði hún.
Hvetur alla til að sýna mannúð ekki bara í orði heldur líka á borði
Gísli Rafn Ólafsson þingmaður Pírata gerði stríðið einnig að umræðuefni í ræðu sinni.
„Rétt eins og hjá öðrum er hugur minn hjá Úkraínu, bæði þeim milljónum sem búa við erfiðar aðstæður innan Úkraínu, mörg hver að fela sig í kjöllurum, verjast sprengjuregni og jafnvel að eignast börn í neðanjarðarlestargöngum, og einnig þeirri bráðum milljón manns sem þegar hafa flúið landið, þeim milljónum sem eru að reyna að flýja landið. Það að flýja er eitthvað sem fá okkar vita hvernig er. Það að geta ekkert tekið með sér nema kannski barnið þitt og lyf. Við sem höfum starfað með fólki á flótta erum að upplifa fordæmalausa neyð. 220 milljarðar er það sem Sameinuðu þjóðirnar hafa óskað eftir til stuðnings bara til að byrja neyðarstarfið, 220 milljarðar íslenskra króna. Það er mikilvægt að við Íslendingar sem virkir þátttakendur í alþjóðasamfélaginu bregðumst fljótt og markvisst við,“ sagði hann.
Hann þakkaði jafnframt Þórdísi Kolbrúnu R. Gylfadóttur utanríkisráðherra fyrir að veita strax 1 milljón evra til þessara mála. „Það er góð byrjun en nú er komið að því að við öll, stjórnvöld, almenningur, fyrirtæki og félagasamtök, sýnum mannúð í verki, sýnum hana ekki bara í orði heldur líka á borði og sýnum að við styðjum fólkið í Úkraínu, eða eins og þau segja sjálf, með leyfi forseta: Slava Ukraini.“
Stríðið komið á þroskuld okkar
Þórunn Sveinbjarnardóttir þingmaður Samfylkingarinnar sagði að stríð væri hryllingur sem kippti grundvellinum undan tilveru fólks.
„Það deyðir, það eyðir og það limlestir, það hrekur óbreytta borgara á flótta, rústar barnæskunni og öllum draumum um frið og velsæld. Það á við um stríð, hvort sem það er í Afganistan, Jemen, Sýrlandi eða Úkraínu. En nú er stríðið komið heim. Það er á þröskuldi okkar af því að við búum í Evrópu og við skynjum og upplifum það svo miklu sterkar en við gerum með stríðin sem eru í öðrum heimsálfum. Fyrir því er mjög mannleg og skiljanleg ástæða en við skulum samt reyna að skilja að stríð er hryllilegt hvar sem það fer fram.
Innrás Rússlands í Úkraínu markar þáttaskil í sögu Evrópu frá seinni heimsstyrjöld. Það liggur fyrir. Sem betur fer hefur nú náðst samstaða um fordæmalausar viðskiptaþvinganir gegn Rússlandi, gegn einstaklingum í æðstu stöðum og ólígörkum, því að þeim þarf vissulega ná. Við verðum að spyrja okkur hvort þær dugi af því að Pútín er ekki vinalaus. Heimsveldið Kína er á gula takkanum, eins og þar stendur, þegar kemur að Pútín og þaðan mun hann fá sínar bjargir þegar á reynir,“ sagði hún.
Þórunn telur að efnahagslegar þvinganir verði að bíta og „við sem hér búum í frjálsum ríkjum Vestur-Evrópu þurfum líka að gera okkur grein fyrir því að við þurfum að greiða fórnarkostnað af efnahagsaðgerðunum af því að þær munu hafa bein áhrif á kjör okkar; viðskiptakjör, verðbólgu og efnahagsumhverfi. Það er eins gott að við byrjum strax að huga að því og stöndum í lappirnar og verðum ekki stödd þar eftir hálft ár eða svo – vonandi verður stríðinu löngu lokið þá – að við verðum farin að barma okkur yfir því að þurfa að grípa til þessara aðgerða.
Nú þarf að standa í lappirnar. Nú þarf að standa við stóru orðin. Við þurfum að búa okkur undir að þetta stríð standi lengi og við þurfum að standa gegn því mjög lengi,“ sagði þingmaðurinn.
Ofbeldi birtist í ýmsum myndum
Guðmundur Ingi Kristinsson þingmaður Flokks fólksins fjallaði um stríðið í Úkraínu í sinni ræðu og setti það í samhengi við íslenskan veruleika.
„Eldflaugaárás rússneska hersins á minnisvarða um fjöldamorðin í helförinni er stórfurðuleg árás því að rússneska þjóðin ætti svo sannarlega að halda í og muna helförina og það sem gerðist þar. Við megum ekki láta söguna endurtaka sig og verðum að muna að stríð með tilheyrandi ofbeldi leysir ekkert. Stríð og ofbeldi því tengt bitnar verst á þeim sem síst skyldi, börnum, fötluðum og veiku fólki, og skilur bara eftir sig eymd og eyðileggingu.
En ofbeldi birtist í ýmsum myndum. Afleiðingar þess eru oftast líkamlegt og andlegt tjón þeirra sem síst skyldi. Fjárhagslegt ofbeldi veldur andlegu og líkamlegu tjóni og þeir sem verða fyrir því geta orðið fyrir óbætanlegu tjóni. Hvaða afleiðingar hefur það fyrir fjölskyldu þar sem margir þurfa lífsnauðsynlega á lyfjum að halda ef hún hefur ekki efni á að leysa þau út?“ spurði hann.
„Jú, það getur valdið einstaklingum í fjölskyldunni óbætanlegu andlegu og líkamlegu tjóni og þeir eru jafnvel settir í þá aðstöðu að verða að velja á milli sín hver er í forgangi og hver ekki. Hvaða afleiðingar hefur það ofbeldi að fólk eigi ekki fyrir mat dögum saman í hverri viku eða í hverjum mánuði eða svo árum skiptir? Jú, andlegri og líkamlegri heilsu þeirra mun hraka og valda þeim og samfélaginu óbætanlegum skaða. Þetta er svo fámennur hópur sem er í þessari aðstöðu, segja stjórnvöld ítrekað. En hvers vegna gera þau ekkert í þessu máli? Ekki á kostnaðurinn að stöðva stjórnvöld í að koma þessu í lag því að þetta eru svo fáir. Eða er það þess vegna sem þau vilja ekkert gera? Eða er ástæðan einhver önnur? Svari því stjórnarliðar. Verður andlegt og líkamlegt tjón þeirra verst settu í þessari ömurlegu stöðu áfram óbreytt út kjörtímabilið?“ spurði hann að lokum.
Ræddi við úkraínskar konur búsettar hér á landi
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson formaður Miðflokksins sagðist hafa komið á þingið af fundi sem flokkurinn hefði haldið með tveimur úkraínsku konum sem hefðu búið hér um nokkurt skeið. Önnur þeirra hafði búið hér á landi í 20 ár og verið kennari í Hafnarfirði.
„Þetta voru þær Tanya og Valeria sem lýstu ástandinu í Úkraínu og stöðu frændfólks síns og vina þar í landi. Auðvitað er það alltaf sérstaklega tilfinningaríkt þegar maður heyrir sögurnar beint frá fólki sem upplifir hlutina sjálft eða í gegnum nákomna. Þær upplýstu okkur um að Úkraínumenn hér á landi og fólk af úkraínskum ættum haldi vel saman og muni núna opna hópinn fyrir Íslendingum sem hafa áhuga á að taka þátt og aðstoða Úkraínu. Það er einnig til hópur sem heitir Ísland fyrir Úkraínu og heldur meðal annars úti Facebook-síðu.
Ég hvet fólk til þess að kynna sér þetta starf og setja sig í samband við þetta fólk því að það munar ótrúlega mikið um að komast í bein samskipti við fólk sem er að ganga í gegnum slíka erfiðleika, bæði fyrir okkur að kynnast því nánar hvað þarna er um að vera, en einnig fyrir fólk til að skynja, maður á mann, persónulegan stuðning. Það eru ýmsar leiðir sem Íslendingar geta farið, bæði í gegnum hjálparsamtök og beint í gegnum þessa hópa til að styðja einstaklinga í Úkraínu. Ég vildi hvetja háttvirta þingmenn og aðra sem á hlýða að kynna sér þessa hópa, Ísland fyrir Úkraínu og Úkraínumenn á Íslandi, sem hyggjast nú opna hópinn fyrir Íslendingum sem hafa áhuga á að kynna sér málið nánar og veita aðstoð,“ sagði Sigmundur.
Mikilvægasti vettvangur þjóðar sem telur sig vilja viðhalda friði er Evrópusambandið
Dagbjört Hákonardóttir varaþingmaður Samfylkingarinnar sagði að í umræðum í þinginu hefði hún skynjað mikilvæga og breiða samstöðu á meðal kjörinna fulltrúa um ótvíræðan stuðning við stjórnvöld í Úkraínu og algjöra höfnun á þeirri óöld sem rússnesk stjórnvöld hafa boðið okkur upp á.
„Á undanförnum dögum hefur svið alþjóðastjórnmála tekið fordæmalausum breytingum á ógnarhraða. Stríðið í Úkraínu er ekki borgarastyrjöld. Það er utanaðkomandi árás annarrar þjóðar, þjóðar sem svífst einskis, þjóðar sem á landamæri á norðurslóðum sem og að loft- og landhelgi Íslands og hefur gengið svo langt að reyna að gera tilkall til norðurpólsins. Skýr afstaða Íslands í samfélagi frjálsra lýðræðisþjóða hefur aldrei verið mikilvægari en við hljótum að draga þann lærdóm að vera Íslands í NATO er og verður lykilþáttur íslenskrar varnarstefnu sem þarf að viðhafa, hvað sem öðru líður, hjá eyríki á norðurslóðum. Rétt er þó að benda á að mikilvægasti vettvangur þjóðar sem telur sig vilja viðhalda friði umfram allt er Evrópusambandið. Aldrei hefur samstarf Evrópuþjóða sannað gildi sitt gagnvart nágranna sem er ógnað líkt og nú.“
Sagði hún að máltækið „megir þú lifa á áhugaverðum tímum“ hefði því miður raungerst fyrir manneskju sem hefur aðeins lifað friðartíma. „Það er þó ekki nóg fyrir ríkisstjórn og þing að sammælast um mikilvægi friðar heldur líka þær leiðir sem við viljum fara til að ná honum og viðhalda honum. Sem frjálslyndur jafnaðarmaður tel ég óraunhæft og óæskilegt að reyna að ná honum með öðrum hætti en innan vébanda evrópskra lýðræðisþjóða innan Evrópusambandsins en því skal haldið til haga að sitjandi ríkisstjórn er að mér vitandi ekki á sama máli.“
Efnahagsþvinganir munu hafa afleiðingar fyrir almenna borgara
Hanna Katrín Friðriksson þingflokksformaður Viðreisnar hóf ræðu sína á því að segja að valdasjúkir og veruleikafirrtir stjórnmálaleiðtogar væru hættulegir saklausu fólki, þeir væru hættulegir heiminum.
„Okkur ber skylda til að bregðast við af fullum þunga til að verja borgara Úkraínu og til að verja vestræn gildi um lýðræði, mannréttindi og frelsi. Þvingunaraðgerðum er ætlað að snúa við hagsmunamati þeirra sem telja stríðsátök einu leiðina til að ná markmiðum sínum og til þess þurfa þær einfaldlega að skila umtalsverðu tjóni á viðskiptahagsmunum. Þvingunaraðgerðir af þessari stærðargráðu hafa ekki verið virkjaðar til þessa vegna skorts á vilja og vegna hræðslu við afleiðingar heima fyrir.
Það er ekki hjá því komist, eigi efnahagsþvinganir líkt og nú er talað um að gera gagn, eigi þær að stöðva Pútín Rússlandsforseta, að þá muni það hafa afleiðingar fyrir almenna borgara. Og ekki bara í Rússlandi. Í alþjóðavæddum heimi eru hagsmunir þjóða samofnir. Frjáls samskipti á milli þjóða hafa verið grunnur velmegunar og hagsældarþróunar síðustu áratugi. Ef við leyfum Pútín að rústa þeirri þróun mun það verða okkur verulega dýrkeypt til lengri tíma litið,“ sagði hún.
Spurði hún hver ásættanlegur kostnaður til að viðhalda þessu alþjóðakerfi frjálsra samskipta sem hefur verið byggt upp eftir síðari heimsstyrjöld væri. „Hvað má það kosta fyrirtæki og heimili í hinum vestræna heimi og hvað vegur sá skammtímakostnaður á móti þeirri áhættu að leyfa Pútín að grafa undan vestrænum gildum um mannréttindi, frelsi og lýðræði? Þetta er lykilatriði fyrir þjóðir heimsins en þetta er ekki síst lykilatriði fyrir Ísland sem á allt sitt undir því að alþjóðalög séu virt og landamæri þjóða séu örugg.“
Pútín má aldrei takast að sundra samstöðu Vesturlanda
Birgir Þórarinsson þingmaður Sjálfstæðisflokksins var síðasti ræðumaðurinn undir liðnum störf þingsins og sagði hann að stríð valdhafa í Rússlandi gegn Úkraínu væri stríð gegn Evrópu.
„Valdhafinn og einræðisherrann Pútín lýgur að eigin þjóð og alþjóðasamfélaginu. Honum má aldrei takast að sundra samstöðu Vesturlanda. Alþjóðlegar efnahagsrefsingar gegn Rússum verða að vera mjög harkalegar. Það duga engin vettlingatök. Herveldi sem ræðst inn í sjálfstætt og fullvalda ríki Evrópu og ógnar þar með friði í allri álfunni, er herveldi sem enginn getur treyst. Næst gæti það verið Pólland eða Finnland.
Stríðið í Úkraínu sýnir fram á mikilvægi NATO og sannar tilgang þess sem varnarbandalags. Nú sem aldrei fyrr þarf Ísland að standa við skuldbindingar sínar gagnvart NATO og tryggja að hér sé ávallt til staðar sú aðstaða fyrir varnarviðbúnað sem gæti skipt okkur sköpum á örlagastundu. Gleymum því ekki að Rússar voru fyrir skömmu með heræfingar undan ströndum Írlands í óþökk Íra.“
Benti hann á að engin leið væri að sjá hvernig atburðarásin verður næstu daga í Úkraínu. „Miklar líkur eru þó á því að örlagastund muni brátt renna upp. Upphafið að endalokum Úkraínu sem frjáls og fullvalda ríkis gæti verið á næsta leiti. Það má hinn frjálsi vestræni heimur aldrei sætta sig við. Atburðarásin í Úkraínu verður ekki stöðvuð með orðum. Orðum verða að fylgja efndir, að veita Úkraínu hraðferð inn í Evrópusambandið. Umsóknina á ekki að setja niður í skúffu. Á örlagastundu þegar framtíð Evrópu er í húfi má aldrei hika. Almenningur í Rússlandi vill ekki stríð. Ég vona svo sannarlega að rússneskur almenningur rísi upp gegn stjórnvöldum í Kreml og dagar Pútín-stjórnarinnar heyri brátt sögunni til.“