Einungis 15 prósent landsmanna eru ánægð með störf Agnesar M. Sigurðardóttur, biskups Íslands, samkvæmt nýjum þjóðarpúlsi Gallup. Það er svipað hlutfall og þegar Gallup spurði um ánægju með störf hennar árið 2018, þegar hún mældist 14 prósent, en minna en þegar spurt var síðar árið 2019, og ánægjan mældist 19 prósent.
Til samanburðar mældist ánægja með störf Karl Sigurbjörnssonar, sem var biskup á undan Agnesi 85 prósent árið 1998. Þegar hann lét af embætti árið 2012 var ánægjan þó komin niður í 19 prósent. Vinsældir Agnesar hafa dalað jafn og þétt frá því að hún tók við sem biskup, en þá mældust vinsældir hennar 45 prósent.
Marktækur munur er á ánægju með Agnesi eftir því hvaða flokk svarendur kjósa. Einungis 4 til 8 prósent kjósenda Pírata, Samfylkingar og Sósíalistaflokks eru ánægð með störf hennar en mest ánægja er á meðal kjósenda Vinstri grænna (24 prósent) og Miðflokksins (20 prósent). Kjósendur Flokks fólksins, Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks eru þar skammt undan.
Meirihluti vill aðskilnað
Þriðjungur landsmanna, alls 33 prósent, segjast treysta þjóðkirkjunni en 36 prósent treysta henni ekki. Þetta eru svipuð hlutföll og hafa verið á undanförnum árum þegar spurt hefur verið um traust til kirkjunnar.
Alls 46 til 48 prósent kjósenda Miðflokks, Sjálfstæðisflokks og Flokks fólksins segjast treysta kirkjunni en einungis 10 til 20 prósent kjósenda Pírata, Sósíalistaflokks og Pírata. Á meðal tveggja síðastnefndu flokkanna er vantraust gagnvart kirkjunni sérstaklega mikið, en 63 til 65 prósent kjósenda þeirra segjast ekki treysta þjóðkirkjunni.
Í þjóðarpúlsinum sést að fólk undir fertugu er helst hlynnt aðskilnaði. Hjá yngsta hópnum, 18 til 29 ára, eru rúmlega tveir af hverjum þremur, alls 67 prósent, á þeirri skoðun að skilja eigi á milli ríkis og kirkju. Hjá hópnum sem er þar fyrir ofan, 30 til 39 ára, er stuðningur við aðskilnað enn meiri, eða 71 prósent. Eini aldurshópurinn sem er í meira mæli andvígur aðskilnaði ríkis og kirkju en hlynntur eru landsmenn sem eru 60 ára og eldri. Innan þess hóps eru 31 prósent fylgjandi aðskilnaði en 38 prósent andvíg.
Kjósendur tveggja stjórnmálaflokka, Flokks fólksins og Miðflokksins, eru í meira mæli andvíg en fylgjandi aðskilnaði ríkis og kirkju. Kjósendur allra annarra flokka sem voru í framboði til þings í september eru hins vegar að meirihluta hlynntir aðskilnaði, þar með taldir kjósendur allra stjórnarflokkanna.
Fækkað hratt í þjóðkirkjunni
Alls voru 229.623 einstaklingar skráðir í þjóðkirkjuna þann 1. október, samkvæmt tölum frá Þjóðskrá Íslands. Þar segir að þessi hópur sé 61,3 prósent íbúa landsins og þeir samkvæmt því rúmlega 372 þúsund talsins. Það þýðir að tæplega 143 þúsund íbúar standi utan þjóðkirkjunnar nú um stundir, og eru þá í öðrum trúfélögum eða standa alveg utan trúfélaga. Þeir hafa aldrei verið fleiri.
Um síðustu aldamót stóðu alls tæplega 31 þúsund manns utan þjóðkirkjunnar. Þeim sem kjósa að gera það hefur því fjölgað um 112 þúsund á rúmum tuttugu árum. Til að setja þá tölu í samhengi þá eru það fleiri en búa samanlagt í Kópavogi, Hafnarfirði, Garðabæ, Mosfellsbæ og á Seltjarnarnesi sem stendur, en íbúar þessara fimm sveitarfélaga eru samtals tæplega 104 þúsund talsins.
Þeim landsmönnum sem eru í þjóðkirkjunni hefur fækkað hratt á síðastliðnum árum. Í byrjun árs 2009 náði fjöldi þeirra mettölu, en þá voru 253.069 landsmenn í henni.
Frá þeim tíma hefur þeim fækkað jafnt og þétt og eru nú, líkt og áður sagði, 229.623. Það þýðir að fjöldi þeirra sem skráðir eru í þjóðkirkjuna hefur dregist saman um 23.446 frá ársbyrjun 2009.
Á sama tíma, tæpum 13 árum, hefur íbúum landsins fjölgað um tæplega 53 þúsund. Því hafa 76.340 íbúðar landsins valið að ganga úr, eða skrá sig ekki í, þjóðkirkjuna frá byrjun árs 2009.