Alls höfðu 62.952 einstaklingar nýtt sér séreignasparnað sinn til að greiða inn á lán eða í útborgun fyrir íbúð í lok janúar síðastliðins. Í þeirri tölu er samskattaðir taldir sem tveir aðilar jafnvel þótt að einungis annar þeirra hafi greitt inn á höfuðstól húsnæðisláns þeirra.
Um er að ræða bæði þá sem nýttu séreignasparnað sinn til húsnæðiskaupa og -lánaniðurgreiðslu samkvæmt úrræði þess efnis sem kynnt var undir hatti Leiðréttingarinnar vorið 2014 og þá sem nýttu sér „Fyrstu fasteignar“ úrræðið, sem var kynnt í ágúst 2016 og kom til framkvæmda um mitt ár 2017.
Þetta þýðir að um 17 prósent allra landsmanna og um 30 prósent allra sem eru á vinnumarkaði, hafa nýtt sér hið skattfrjálsa úrræði.
Samkvæmt tölum sem fjármála- og efnahagsráðuneytið hefur tekið saman fyrir Kjarnann nemur umfang nýtingar Íslendinga á úrræðunum tveimur frá miðju árið 2014 og fram til loka janúar 2021 alls 92 milljörðum króna. Í þeim tölum kemur einnig fram að áætluð lækkun tekjuskatts og útsvars frá því að úrræðin buðust fyrst og fram til síðustu áramóta sé 21,1 milljarður króna.
Því hefur þessi hópur fengið 21,1 milljarða króna í meðgjöf úr ríkissjóði sem öðrum hefur ekki boðist á umræddu tímabili. Um er að ræða tekjutap sem ríki og sveitarfélög þurfa ekki að takast á við nú, þar sem skattur af séreignarsparnaði er vanalega borgaður þegar fólk fer á eftirlaun.
Matið „nokkurri óvissu háð“
Þegar úrræðið um að nota séreignarsparnað sinn skattfrjálst til að greiða niður húsnæðislán var kynnt árið 2014, sem hluti af Leiðréttingunni svokölluðu, var það gert þannig að sá hópur sem áætlað var að nýtti sér það myndi geta notað alls 70 milljarða króna til þeirra verka á tímabilinu. Það byggði á skýrslu sérfræðingahóps sem skilaði af sér skýrslu til forsætisráðuneytisins í nóvember 2013. Á meðal þeirra sem sátu í sérfræðihópnum voru Sigurður Hannesson, nú framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins, sem var formaður hans og Lilja D. Alfreðsdóttir, nú mennta- og menningarmálaráðherra.
Því skipaði Bjarni Benediktsson, þáverandi og núverandi fjármála- og efnahagshagsráðherra, nýjan starfshóp til að reikna áhrif úrræðisins.
Undir því sem sviðsmyndir áætluðu
Sá hópur skilaði af sér þremur sviðsmyndum sem sýndu að fram á mitt ár 2017 myndu 56.066 til 81.597 einstaklingar nýta sér séreignasparnað til að greiða niður húsnæðislán eða til í útgreiðslu útborgunar. Heildarupphæðin sem þessi hópur átti að geta greitt inn á húsnæðisskuldir sínar átti að vera 60 til 82 milljarðar króna.
Í lok janúar 2021, þremur og hálfu ári eftir að upprunalegur gildistími úrræðisins rann út (það hefur síðan tvívegis verið framlengt og er nú í boði fram til loka júní 2021) var fjöldi þeirra sem nýttu sér bæði upprunalega séreignarsparnaðarúrræðið og „Fyrstu fasteign“ kominn upp í 62.952. Út frá tölunum sem ráðuneytið tók saman fyrir Kjarnann má áætla að um ellefu prósent þess hóps, alls um sjö þúsund manns, séu að nýta „Fyrstu fasteign“. Það þýðir að upprunalega úrræðið er fyrst að ná neðri mörkum þeirra sviðsmynda sem starfshópurinn teiknaði upp um þessar mundir.
Heildarupphæðin sem hópurinn átti að ná að greiða inn á húsnæðisskuldir sínar fyrir mitt ár 2017 náð efri mörkunum í sviðsmyndum hópsins fyrst undir lok árs 2020. Í janúarlok 2021 nam heildarnotkun á séreignarsparnaði undir hatti úrræðisins um 81,5 milljarði króna.