Tæplega tíundi hluti þess rafmagns sem framleitt er í heiminum í dag kemur úr vind- og sólarorku samkvæmt nýrri greiningu bresku hugveitunnar Ember. Í löndum Evrópusambandsins er hlutfallið um 20 prósent. Það þýðir að í fyrsta sinn í sögu sambandsins er meira rafmagn framleitt með þessum orkugjöfum en með jarðefnaeldsneyti, þ.e. kolum og olíu.
Sum lönd innan sambandsins eru stórtækari í þessum efnum en önnur og í Danmörku, svo dæmi sé tekið, koma 63 prósent alls rafmagns frá vind- og sólarorkuverum. Í Þýskalandi er hlutfallið 33 prósent.
Dave Jones, forstöðumaður Ember, segir að meirihluti ríkja heimsins séu að byggja upp sólar- og vindorkuver. Stöðug og hröð þróun í þessa átt mun að hans sögn umbylta raforkuframleiðslu heimsins. Innan ESB hefur notkun á kolum til raforkuframleiðslu dregist saman um tæplega helming á aðeins fimm árum. Sú aðgerð ein og sér hefur dregið úr losun gróðurhúsalofttegunda innan sambandsins um 7 prósent.
Þegar staðan innan tuttugu stærstu iðnríkja heims er skoðuð (G20) þá er Kína eina landið sem jók notkun kola til rafmagnsframleiðslu í fyrra.
Þrátt fyrir þessi tíðindi er staðan, að sögn Jones, enn sú að losun gróðurhúsalofttegunda frá orkuframleiðslu á alþjóðavísu var meiri í fyrra en árið 2015 er skrifað var undir Parísarsamkomulagið. Skýringin felst í aukinni eftirspurn eftir raforku en hún hefur verið 11 prósent á síðustu fimm árum og hefur verið sérstaklega mikil í Evrópu. Þar sem raforkuframleiðsla frá vistvænni orkugjöfum hefur ekki haldið í við eftirspurnina hefur henni verið mætt með jarðgasi og öðru jarðeldsneyti. Sá áfangi Evrópusambandsins að draga verulega úr notkun á kolum byggir ekki síst á aukinni notkun á gasi.
Evrópusambandið hefur verið gagnrýnt fyrir að nota jarðgas í því millibilsástandi orkuskipta sem nú eru að eiga sér stað. Orkumálaráðherra framkvæmdastjórnar þess hefur sagt að framtíðin sé þó vissulega ekki í jarðefnaeldsneyti og að árið 2050 verði raforkukerfið allt annars eðlis en það er í álfunni í dag.