Umboðsmaður Alþingis hefur lokið athugun sinni á ábendingu sem barst í nóvember í tengslum við frumkvæðisathugun embættisins á samskiptum Hönnu Birnu Kristjánsdóttur, fráfarandi innanríkisráðherra, og Stefáns Eiríkssonar, fyrrverandi lögreglustjóra á höfuðborgarsvæðinu. Þetta kemur fram í frétt á heimasíðu Umboðsmanns Alþingis.
Þar segir að athugun umboðsmanns hafi falist í því að afla upplýsinga vegna ábendingarinnar og fá afstöðu Hönnu Birnu til þeirra. Á næstu dögum verði unnið úr þeim og að frágangi á niðurstöðu frumkvæðisathugunarinnar. Ekki liggur enn fyrir hvenær unnt verður að birta niðurstöður Umboðsmanns um samskipti Hönnu Birnu og Stefáns vegna rannsóknar lögreglu á lekamálinu svokallaða. Samkvæmt frétt umboðsmanns er vonast til að það verði sem fyrst.
Ekki hefur komið fram hvað felst í ábendingunni sem Umboðsmanni Alþingis barst á dögunum. Í tilkynningu frá honum í síðustu viku kom hins vegar fram að hún tengist ekki samskiptum Gísla Freys Valdórssonar, þáverandi aðstoðarmanns innanríkisráðherra, og Sigríðar Bjarkar Guðjónsdóttur, þáverandi lögreglustjóra á Suðurnesjum, varðandi perónulegar upplýsingar um hælisleitandann Tony Omos sem Sigríður Björk sendi Gísla Frey í tölvupósti við upphaf lekamálsins. Því er ljóst að um nýjar upplýsingar er að ræða er varða aðkomu Hönnu Birnu að málinu.
Eins og kunnugt er skoðar nú Persónuvernd sérstaklega samskipti Gísla Freys og Sigríðar Bjarkar, en frestur til að skila umbeðnum gögnum til stofnunarinnar rann út í gær.
Upphaflega hugðist Umboðsmaður Alþingis birta niðurstöður sínar í þar síðustu viku, en dráttur varð á birtingu niðurstöðunnar eftir að umrædd ábending barst embættinu.