Í áliti umboðsmanns Alþingis, varðandi frumkvæðisathugun hans á samskiptum Hönnu Birnu Kristjánsdóttur, fyrrverandi innanríkisráðherra, og Stefáns Eiríkssonar, fyrrverandi lögreglustjóri á höfuðborgarsvæðinu, má lesa hvernig afstaða ráðherra til athugunar umboðsmanns breyttist er málið vatt upp á sig.
Þar segir: „Þegar ég hóf frumkvæðisathugun mína hafði ég með tveimur bréfum til innanríkisráðherra freistað þess að fá fram afstöðu ráðherra til þess hvað raunverulega hafði farið fram í samskiptum ráðherra við lögreglustjórann en án árangurs miðað við þær upplýsingar sem ég hafði aflað hjá lögreglustjóranum. Það atriði og sú afstaða ráðherra sem ég taldi mig ráða af svarbréfunum tveimur til þess hversu alvarlegt málið væri með tilliti til þeirra lagareglna sem reyndi á varð mér tilefni til þess að taka fram að það kæmi til greina að fara þá leið sem kveðið er á um í 2. mgr. 12. gr. laga nr. 85/1997.“
Í lagaákvæðinu sem umboðsmaður nefnir, er kveðið á um að embættið geti, verði það áskynja stórvægilegra mistaka eða afbrota stjórnvalds, gefið Alþingi eða hlutaðeigandi ráðherra sérstaka skýrslu um málið.
Umboðsmaður segir að afstaða Hönnu Birnu til athugunar hans hafi breyst eftir að hún sagði af sér sem innanríkisráðherra. „Eftir það hefur hann lýst því í bréfi til mín 8. janúar 2015 að það hafi verið mistök af hans hálfu að eiga samskipti við lögreglustjórann vegna lögreglurannsóknarinnar meðan hún stóð yfir. Í sama bréfi kemur einnig fram breytt afstaða til þess hvert hafi verið efni samskiptanna við lögreglustjórann og til lagareglna sem reynir á í málinu frá því sem komið hafði fram í fyrri svörum ráðherra og skýringum.“