Í niðurstöðu umboðsmanns Alþingis kemur fram að Hanna Birna Kristjánsdóttir, fyrrverandi innanríkisráðherra, eða lögmaður á hennar vegum hafi krafið Stefán Eiríksson, fyrrverandi lögreglustjóra á höfuðborgarsvæðinu, um skýringar á því sem hann greindi umboðsmanni Alþingis frá við frumkvæðisathugun á samskiptum þeirra.
Í niðurstöðunni segir: „Ég tel að það geti hvorki samrýmst sjónarmiðum um gagnsæja stjórnsýslu né lagareglum sem eftirlit umboðsmanns Alþingis byggist á að ráðherra eða lögmaður á hans vegum hafi beint samband við þann opinbera starfsmann sem veitt hefur umboðsmanni upplýsingar og krefji hann skýringar á því sem hann hefur greint umboðsmanni frá. Eftir að umboðsmaður hefur tekið mál til skoðunar eiga samskiptin að fara fram milli umboðsmanns og stjórnvaldsins. Ég vænti þess að umfjöllun mín verði stjórnvöldum almennt í framtíðinni tilefni til að gæta að þessum atriðum í störfum sínum.“
Í samtali við Kjarnann sagði Stefán Eiríksson, fyrrverandi lögreglustjóri á höfuðborgarsvæðinu að hann muni ekki tjá sig frekar um rannsókn lekamálsins.
Fór á svig við lög um Stjórnarráð Íslands
Þá segir í niðurstöðu umboðsmanns að Hanna Birna hafi ekki sýnt fram á að hún hafi fylgt lögum um Stjórnarráð Íslands, í framgöngu sinni við rannsókn lekamálsins, nánar tiltekið 20. grein laganna þar sem segir að ráðherra skuli leita álits ráðuneytis til að tryggja að ákvarðanir og athafnir hans séu lögum samkvæmt. „Ég beini þeim tilmælum til þess ráðherra sem nú fer með innanríkisráðuneytið að gætt verði að þessu atriði í starfi ráðuneytisins framvegis.“
Umboðsmaður Alþingis hefur komið ábendingum á framfæri við Sigmund Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra, um framkvæmd og grundvöll siðareglna fyrir ráðherra, reglur um skráningu formlegra samskipta og funda og hlutverk og stöðu aðstoðarmanna ráðherra. „Þær lúta einkum að því að þörf sé á að kanna betur almenna framkvæmd þessara reglna og eftir atvikum hvort þær megi gera skýrari.“
Þá segir umboðsmaður: „Með vísan til þess eftirlitshlutverks sem umboðsmanni Alþingis er falið með stjórnsýslunni legg ég ríka áherslu á að afskipti ráðherra sem fór með yfirstjórn lögreglunnar af lögreglurannsókn sakamáls, sem tengdist honum sjálfum á tiltekinn hátt og sú framganga sem lögreglustjórinn lýsir, eru ekki aðeins andstæð þeim reglum sem fjallað er um í álitinu heldur eru þau einnig til þess fallin að gera þeim sem rannsaka sakamál óhægt um vik að rækja það starf sitt í samræmi við gildandi reglur. Þær reglur miða að því að með sakamálarannsókn sé hið sanna og rétta leitt í ljós og m.a. lagður grundvöllur að ákvörðun handhafa ákæruvalds um saksókn, sbr. 53. gr. laga nr. 88/2008, um meðferð sakamála. Þá eru slík afskipti almennt til þess fallin að skapa tortryggni um aðkomu ráðherra að lögreglurannsóknum, óháð því hvort það hafi orðið reyndin í þessu tiltekna máli.“