Auglýsingastofan Jónsson & Le’macks hefur hlotið tilnefningu til alþjóðlegu hönnunarverðlaunanna Epica vegna umbúðahönnunar fyrir íslenska sjávarsaltið Norður Salt. Með tilnefningunni hafa umbúðirnar nú verið tilnefndar til þriggja eftirsóttustu hönnunarverðlauna heims, segir í tilkynningu frá Jónsson & Le’macks.
„Epica verðlaunin hafa verið veitt í tæpa þrjá áratugi. Þau eru einu alþjóðlegu hönnunarverðlaunin sem veitt eru af fjölmiðlum og eiga rúmlega fjörutíu tímarit, blöð og veffjölmiðlar um heim allan sæti í dómnefnd. Norður Salt var í sumar tilnefnt til Cannes Lions hönnunarverðlaunanna sem eru þau virtustu sem veitt eru fyrir hönnun í heiminum. Umbúðirnar fengu einnig Red Dot verðlaun fyrr á þessu ári sem þykja þau eftirsóttustu sem veitt eru á sviði vöruhönnunar. Með Epica tilnefningunni hefur Norður Salt því verið tilnefnt til þriggja eftirsóttustu hönnunarverðlauna heims á árinu. Umbúðirnar hafa auk þess unnið til fjölda verðlauna og viðurkenninga á Íslandi, bæði í FÍT keppninni og Lúðrinum,“ segir í tilkynningunni.
Hönnuðir umbúðanna eru Albert Muñoz, Sigurður Oddsson og Þorleifur Gunnar Gíslason hjá Jónsson & Le’macks, í samstarfi við Jón Helga Hólmgeirsson vöruhönnuð og teiknarann Mark Summers.
Norðursalt kom á markað í október 2013 og hefur unnið sér fastan sess á borðum íslenskra kokka. Utan Íslands er Norðursalt nú fáanlegt í gæðaverslunum í Berlín og er frekari sókn hafin á markaði í Þýskalandi, á Norðurlöndum, Ítalíu, í Japan og Bandaríkjunum.