Stofnun ríkustu hjóna heimsins, Bill and Melinda Gates Foundation, hefur á undanförnum árum stutt við rannsóknir og þróunarstarf sem snýr að ræktun á svæðum í Afríku, þar sem erfiðlega hefur gengið að koma upp búskap, meðal annars ávaxta- og grænmetisframleiðslu. Útlit er að fyrir að vinna stofnunarinnar hafi nú þegar umbylt möguleikum í álfunni, meðal annars þegar kemur að bananarækt. Rannsóknir á genatískri ávaxtaræktun hafa skotið stoðum undir að hugsanlega séu þær lykillinn að því að eyða hungursneyð í heiminum, eða í það minnsta minnka hana stórkostlega, fyrir árið 2030.
Bill Gates, stofnandi Microsoft, gerir þetta að umtalsefni í ítarlegri grein sem birt er á vefnum The Verge, þar sem hann hefur verið gestaritstjóri í febrúarmánuði. Í greininni bendir hann á að Sameinuðu þjóðirnar áætli að 800 milljónir manna í heiminum hafi ekki nægilega góðan aðgang að mat, og þjáist því vegna hungurs. Gates segir að framþróun í landbúnaði, þar sem ræktun verður áreiðanlegri og geti farið fram við erfiðari aðstæður en nú þekkist, sé lykillinn að því að eyða hungursneyð. Miklar framfarir hafi átt sér stað að undanförnu, sem sýni að mögulegt sé að rækta upp ávexti og grænmeti á svæðum sem hafi átt erfitt uppdráttar. Nefnir Gates dæmi um eitt mesta bananaland í heimi, Úganda, sem hafi upplifað miklar sveiflur í bananarækt, meðal annars vegna þess að ræktun hefur reglulega hrunið. Með því styðja rannsóknir og þróunarstarf í landbúnaði, sem miði að því að gera ræktun við erfiðar aðstæður mögulegri en nú er, geti gríðarleg tækifæri skapast.
https://www.youtube.com/watch?v=tdu7d74WbBo
Bill Gates lýkur grein sinni á að benda á að með því að ná árangri í landbúnaði þar sem matvælaframleiðsla er annars vegar, eigi að vera hægt að stækka til muna svæðin í Afríku þar sem ræktun fer fram. Með tilheyrandi aukningu á framleiðslu matvæla, sem vinni gegn hungursneyð í heiminum. Ekki síst af þessum ástæðum sé aukin framþróun landbúnaðar eitt mesta framfaramál samtímans.