Tekjur í fiskeldi á Íslandi hafa aukist jafnt og þétt á undanförnum árum og námu 48 milljörðum króna á síðasta ári, en heilt yfir varð 700 milljóna króna tap á rekstri fiskeldis, samkvæmt upplýsingum úr fiskeldisgagnagrunni Deloitte, sem kynntar voru á Sjávarútvegsdeginum 2022 sem fram fór í morgun.
Umfang fiskeldis af íslenskum sjávarútvegi, sem hlutfall af heildartekjum, er nú orðið 13 prósent.
Samkvæmt því sem kom fram í máli Jónasar Gests Jónassonar, meðeiganda hjá Deloitte sem kynnti tölurnar á fundinum í morgun, má rekja tapið sem heilt yfir varð í greininni að mestu til tveggja fyrirtækja, vegna tjóns sem rekja má til „samspilandi áhrifa af umhverfisáhrifum, sjúkdóma í lífmassa sem og áhrifa heimsfaraldursins“.
Gagnagrunnurinn er þannig settur upp að horft er á rekstur fiskeldi á Íslandi sem eina samstæðu. Þannig er leiðrétt fyrir áhrifum af eignarhaldi innan greinarinnar – þannig að ef félag A á félag B sem einnig er í fiskeldi eru áhrif félags B á rekstur félags A ekki inni í grunninum, því þá væri um tvítalningu að ræða.
Framleitt magn hefur aukist verulega á síðustu árum, en árið 2018 voru um 19.100 tonn framleidd en á síðasta ári nam framleiðslan 53.100 tonnum.
Launþegar í greininni, samkvæmt upplýsingum úr ársreikningum félaganna, voru 597 talsins í fyrra. Það er aukning um 38 prósent frá árinu 2017.
Bein opinber gjöld um 788 milljónir í fyrra
Samkvæmt útreikningum Deloitte greiddu fiskeldisfélög alls um 788 milljónir króna í bein opinber gjöld á síðasta ári, þar af 414 milljónir í áætlað tryggingagjald, 223 milljónir í tekjuskatt og 151 milljón í auðlindagjöld, gjalda vegna fiskeldis í sjó og framlaga í fiskeldissjóð.
Einungis eitt félag í gagnagrunni Deloitte greiðir tekjuskatt, en önnur félög nýta uppsafnað tap fyrri ára á móti tekjuskatti eða eru enn í taprekstri.
Eigið fé í fiskeldi nemur 56 milljörðum króna og skuldir félaganna eru samanlagt 44 milljarðar króna. Jónas Gestur sagði ljóst að hluthafar hefðu sett töluvert fé inn í greinina á árinu, enda hefði eigið fé verið 36 milljarðar í lok árs 2020.
Jónas Gestur sagði efnahagsreikningur greinarinnar væri sterkur, og að ekki væri vanþörf á því í ungri grein sem væri í uppbyggingarfasa.