Fjöldi farartækja sem fóru um Víkurskarð í júní jókst um 6,6 prósent síðan í júní í fyrra. Þetta segir Friðleifur Ingi Brynjarsson, verkefnisstjóri hjá Vegagerðinni, í samtali við 641.is. Aldrei hafa jafn margir farið um Víkurskarð í júnímánuði. Jafnframt hefur umferð um vegkaflann aukist um 13,9 prósent á fyrri helmingi ársins miðað við árið 2014.
Í úttekt sem IFS Greining vann fyrir fjármálaráðuneytið um Vaðlaheiðargöng og skilaði af sér í janúar 2012 var gert ráð fyrir árlegri aukningu umferðar til ársins 2025. Þar er undirstrikað að umferðarþungi um svæðið til framtíðar sé aðallega háður iðnaðaruppbyggingu í nágrenninu, eins og kísilmálmsverksmiðju á Bakka sem nú hefur verið ákveðið að byggja.
Ein meginröksemdin fyrir framkvæmdum í Vaðlaheiði var að umferð um Víkurskarð myndi aukast til framtíðar. Sú umferðarspá sem Vegagerðin telur líklegasta til að rætast er að umferð um Víkurskarð muni aukast jafn hratt og undanfarin 26 ár, eða um tæplega 3 prósent á ári.
Umferðarþungi um Víkurskarð minnkaði nokkuð á árunum eftir efnahagshrunið en hefur verið að aukast hratt aftur síðan 2013. Stjórn Vaðlaheiðarganga, fyrirtækisins sem annast framkvæmdir í Vaðlaheiði, segist ætla að biðja Vegagerðina að uppfæra spár sínar og miða við árið 2015 en nýjasta spá er síðan 2012.
Umferðarmet var sett á Þjóðvegi 1 í júní. Aukningin milli júnímánaða var um 4,6 prósent, samkvæmt frétt á vef Vegagerðarinnar. Þá hefur umferð um Þjóðveg 1 aukist um 2,2 prósent séu fyrstu sex mánuðir ársins bornir saman við sama tímabil í fyrra. Aukningin er mest austanlands en minnst á Suðurlandi.
Stefnir allt í að umferðarmet verði sett á Hringveginum í lok árs en gamla metið var sett árið 2007. Þá þarf að geta þess að júní er jafnan þriðji umferðarþyngsti mánuður ársins á eftir júlí og ágúst.
Kostnaðurinn fer 18 prósent fram úr áætlunum og verklok tefjast
Kostnaður við gangnagerð í Vaðlaheiði verður 18 prósent meiri en gert var ráð fyrir þegar verkið hófst. Í svari Vaðlaheiðarganga hf. við fyrirspurn fjárlaganefndar Alþingis segir að samanlagður kostnaður vegna gangagerðarinnar stefni í að fara 2,2 milljarða króna fram úr áætlun sem gerir ráð fyrir kostnaði upp á 12,2 milljarða króna. Þá er tekið tillit til sex prósent ófyrirséðs kostnaðar sem gert er ráð fyrir í áætluninni, eða 706 milljónum króna. Í svarinu segir að kostnaðarliðir framkvæmdarinnar hafi þegar farið 900 milljón króna fram úr áætlunum og að fyrirsjáanlegt sé að þeir „fari kannski 1.300 milljón krónur þar til viðtóbar fram úr áætlunum“.
Þessum aukna kostnaði verður mætt með því að spara til við frágang gangnanna og til tals hefur komið að Vegagerðin leysi til sín vegakafla beggja vegna ganganna. Annars verði leitað til ríkisins sem lánveitanda með beiðni um frestun endurfjármögnunar og til hluthafa um aukningu hlutafjár.
Fjárlaganefnd sendi fyrirtækinu fyrirspurn í síðasta mánuði þar sem leitað var svara við því hversu mikið verkið muni fara fram úr áætlunum og hvers vegna forrannsóknir höfðu ekki greint vatnsæðarnar sem tafið hafa verkið.
Verklok Vaðlaheiðarganga munu frestast um 7 til 15 mánuði vegna óviðráðanlegra aðstæðna.
Verklok frestast um 7 til 15 mánuði
Gert hafði verið ráð fyrir einhverjum vatnsflaumi í Vaðlaheiði en aldrei í því magni sem varð raunin. Þá gerir jarðhitinn málin flóknari en ekki var vitað um jarðhita í Vaðlaheiði áður en rannsóknir hófust fyrir framkvæmdina. „… þó er búið að leita að heitu vatni fyrir Akureyri í áratugi,“ segir í svari Vaðlaheiðarganga hf.
Nú eru tvær sviðsmyndir til skoðunar og þá helst út frá jarðfræðilegum aðstæðum í fjallinu. Önnur sviðsmyndin miðar að verklokum í júlí 2017 en hin í mars 2018. Upphaflega var áætlað að verkinu lyki 15. desember 2016.
Niðurstöður rannsóknar sem framkvæmd var við háskólann í Álaborg árið 2003 voru að meðaltal vanáætlaðs kostnaðar við jarðgangnagerð væri 48 prósent og að 86 prósent vegaframkvæmda fari fram úr kostnaðaráætlunum.
Má hér rifja upp að framkvæmdir við Héðinsfjarðargöng, sem opnuð voru haustið 2010, fóru 17 prósent fram úr kostnaðaráætlunum. Þar gætti jafnframt nokkurs ófyrirséðs vatnsaga sem tafði verkið, sem lauk svo tveimur árum á eftir áætlun.
Í lok síðustu viku var búið að grafa samtals 4,3 kílómetra í Vaðlaheiði eða 59,9 prósent af heildarlengd ganganna. Búið er að skerða vatnsflauminn úr berginu innan í göngnunum töluvert. Heita vatnið sem fellur út um göngin vestamegin er nú 113 lítrar á sekúndu en vatnsflaumurinn Fnjóskadalsmegin er nú minni en 280 lítrar á sekúndu. Mest var hann 520 lítrar á sekúndu.