Greint er frá sýknunum í tveimur aðskildum úrskurðum Blaðamannafélagsins í málum sem voru til meðferðar hjá nefndinni eftir kvartanir. Úrskurðirnir voru kveðnir upp um miðjan desember en birtir á heimasíðu Blaðamannafélagsins fyrir helgi.
Í þeim fyrri kærði útgefandinn Huginn Þór Grétarsson vefmiðilinn 24.is vegna umfjöllunar um Facebook-hópinn „Karlmennskuspjallið“, hóp þar sem „karlmenn ræða á niðrandi hátt um konur, karlfemínista og þolendur kynferisbrota“, líkt og sagði í frétt 24.is. Samsett mynd af nokkrum meðlimum hópsins, þar á meðal Hugin, birtist með fréttinni og taldi hann myndbirtinguna vera tilefnislausa og særandi.
Ekki var vísað í Hugin í umræddri frétt en eftir að kæra hans barst til siðanefndar BÍ birti miðillinn frétt þess efnis þar sem segir jafnframt að alltaf hafi staðið til að birta hin ýmsu ummæli eftir Hugin þar sem sé af nægu að taka.
Í úrskurði nefndarinnar kemur fram að 24.is hafi ekki brugðist við kærunni þrátt fyrir ítrekun. Í fréttinni sem 24.is birti eftir að kæran kom fram er hins vegar fjallað um málið auk þess sem birt eru ummæli eftir Hugin auk þess sem miðillinn biðst afsökunar á að ummælin skuli ekki hafa birst í „afhjúpum um Karlmennskuspjallið og harmar um leið ef það hefur valdið honum skaða.“
Siðanefndin segir í úrskurði sínum að ljóst að Huginn hafi tilheyrt umræddum hópi um karlmennskuspjall og geti því ekki vikist undan því að vera tengdur hópnum í umfjöllun 24.is, jafnvel þótt ekki séu þar tilfærð ummæli hans.
Átti erindi við almenning
Aðkoma Jakobs Frímanns Magnússonar, þingmanns Flokks fólksins, að svokölluðu liprunarbréfi er til umfjöllunar í seinni úrskurðinum. Jón Ósmann Arason kærir, fyrir hönd ólögráða sonar síns, umfjöllun DV um aðkomu Jakobs Frímanns að liprunarbréfi til utanríkisráðuneytisins vegna ferðalags sonarins. Björn Þorláksson, ritstjóri DV og Heimir Hannesson blaðamaður, eru kærðir en Erla Hlynsdóttir, fréttastjóri DV, sem skrifaði yfirlýsingu DV ásamt ritstjóra vegna umfjöllunarinnar, er ekki kærð.
Í úrskurði nefndarinnar segir að fréttin hafi snúist um aðkomu Jakobs Frímanns að málinu en ekki kærendur sem hvergi voru nafngreindir. Leiddi það meðal annars til þess að utanríkisráðuneytið afturkallaði bréfið og baðst afsökunar á vinnubrögðum sínum. Siðanefndin metur, að í ljósi þeirrar stjórnsýslumeðferðar sem málið hlaut, hafi það átt erindi til almennings og verið nægilega vandað til verka í framsetningu og úrvinnslu.