Bjarnheiður Hallsdóttir, formaður Samtaka ferðaþjónustunnar, segir að nýleg umfjöllun um blóðmerahald á Íslandi á mörgum helstu markaðssvæðum íslenskrar ferðaþjónustu hafi leitt til þess að símtölum og fyrirspurnum hafi „rignt yfir ferðaþjónustufyrirtæki bæði hér heima og erlendis“ og valdið „truflunum í eftirspurn“ eftir íslenskri ferðaþjónustu.
Þetta kemur fram í aðsendri grein sem Bjarnheiður birtir á Vísi í dag, en þar veltir hún því upp hvort verið sé að fórna meiri hagsmunum fyrir minni með því að leyfa blóðtöku úr fylfullum merum á Íslandi með tilheyrandi hættu á skaðlegri umfjöllun erlendis.
„Útflutningsverðmæti á blóði úr fylfullum hryssum eru áætluð um tveir milljarðar króna á ári. Til samanburðar eru útflutningstekjur af 7700 ferðamönnum sem sækja Ísland heim um tveir milljarðar króna. Þó að umfjöllun um blóðmerahald fæli aðeins um 7700 ferðamenn frá því að koma til landsins þá eru þessir tveir milljarðar úflutningstekna tapaðir,“ segir í grein Bjarnheiðar.
Hún bætir því við að reynslan af áhrifum hvalveiða á ímynd Íslands og ferðaþjónustu sýni að það sé „fyllilega raunhæfur fjöldi“ og ef áhrifin verði enn meiri en það, sem sé „mjög líklegt“, verði blóðmerahald „farið að valda beinum efnahagslegum skaða“.
Bjarnheiður spyr hvort blóðmerahald og útflutningur á blóði úr fylfullum merum, sem að endingu nýtist við framleiðslu hormóna til svínaeldis, sé „góður „bisness“ fyrir Ísland í heildarsamhenginu“.
Megi reikna með neikvæðum áhrifum á hestahagkerfið
Í grein sinni nefnir hún einnig að reikna megi með því að umfjöllun um blóðmerahald á Íslandi í erlendum fjölmiðlum í kjölfar þess að evrópsk dýraverndunarsamtök komu til landsins og tóku í laumi upp myndskeið af blóðtöku fylfullra mera hafi skaðleg áhrif á „hestahagkerfið“ á Íslandi.
Bjarnheiður bendir á að á síðasta ári hafi um 3.300 íslensk hross verið seld úr landi fyrir andvirði um 2,2 milljarða króna og að í því samhengi skipti ímynd íslenska hestsins miklu.
Umdeilt mál
Blóðmerahald sem búgrein hefur verið töluvert í umræðunni á undanförnum mánuðum, en í nóvember birtu dýraverndunarsamtökin Animal Welfare Foundation í Þýskalandi og Tierschutzbund Zürich í Sviss tuttugu mínútna mynd á YouTube sem sýnir sláandi meðferð íslenskra hryssa við blóðtöku.
Þetta hefur vakið upp miklar umræður og kalla sumir eftir því að búgreinin verði alfarið bönnuð hið snarasta og frumvarp þess efnis er til meðferðar á þingi. Aðrir segja hins vegar að myndskeiðið frá evrópsku dýraverndarsamtökunum hafi verið áróðursmyndband sett fram af öfgahópum og myndefnið endurspegli alls ekki hvernig er almennt staðið að blóðtöku úr merum hérlendis.
Matvælastofnun rannsakaði meint alvarleg brot og vísaði þeim svo áfram til lögreglu, sem fer nú með málin. Í upphafi árs skipaði Svandís Svavarsdóttir matvælaráðherra svo þriggja manna hóp sem á að skoða starfsemina og regluverk og eftirlit í kringum búgreinina.
„Ráðherra hefur falið hópnum að funda með hagaðilum auk þess sem almenningi mun gefast kostur á að tjá sig um störf og tillögur hópsins á Samráðsgátt stjórnvalda þegar þær liggja fyrir. Starfshópurinn mun hefja störf á næstu dögum og er ætlað að skila ráðherra tillögum sínum fyrir 1. júní,“ sagði í tilkynningu atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins frá 3. janúar.