Heilbrigðismál, umhverfis- og loftslagsmál, efnahagsmál og kjaramál, þar með talinn ójöfnuður, eru þau mál sem flestir kjósendur nefna sem mikilvægustu málin í kosningabaráttunni, samkvæmt niðurstöðum sem Ólafur Þ. Harðarson stjórnmálafræðiprófessor hefur birt úr netkönnun sem verið er að framkvæma á vegum Íslensku kosningarannsóknarinnar.
Niðurstöðurnar sem liggja fyrir og Ólafur gerir að umtalsefni byggja á svörum frá 369 einstaklingum og segir Ólafur fróðlegt að sjá hvort svörin muni breytast á næstu dögum, en hópur kjósenda er spurður á hverjum degi um þessar mundir.
„Ekkert eitt mál sker sig úr, en kjósendur telja fjögur mál klárlega mikilvægust: heilbrigðismál (24%), umhverfis- og loftslagsmál (21%), efnahagsmál (20%) og kjaramál, m.a. ójöfnuð (14%). Öll önnur mál koma þar langt á eftir,“ skrifar Ólafur á Facebook.
Kjarninn tók niðurstöðurnar sem Ólafur birtir saman í myndrit hér að neðan og þar má glöggva sig á þeim áherslumun sem virðist til staðar á milli væntra kjósenda mismunandi flokka, með því að fletta á milli mynda. Vert er að taka fram að svörin frá kjósendum einstakra flokka eru enn fremur fá.
Línurnar eru ansi skýrar. Til dæmis nefna 53 prósent þeirra sem segjast ætla að kjósa Sjálfstæðisflokkinn og 35 prósent þeirra sem hyggjast kjósa Viðreisn efnahagsmál sem mikilvægasta málaflokkinn, en ekki einn einasti þeirra sem hafa svarað könnuninni hingað til og segjast ætla sér að kjósa Samfylkinguna, einungis 2 prósent kjósenda Vinstri grænna og 3 prósent kjósenda Framsóknarflokksins.
Kjósendur Vinstri grænna virðast setja umhverfis- og loftslagsmál á oddinn öðru fremur, en 56 prósent þeirra sem hafa svarað könnuninni hingað til segja þann málaflokk þann mikilvægasta. Hið sama gera 38 prósent kjósenda Pírata og 28 prósent kjósenda Samfylkingar, en einungis 5 prósent kjósenda Sjálfstæðisflokks.
Nánast þvert á flokka eru heilbrigðismálin stórt mál í hugum kjósenda. Hæst hlutfall væntra kjósenda Framsóknar leggur mesta áherslu á heilbrigðismálin eða 43 prósent. Heilbrigðismálin eru líka mikilvægust í hugum 35 prósent kjósenda Samfylkingar, 29 prósent kjósenda Sósíalistaflokksins, 24 prósent kjósenda Pírata og 21 prósent kjósenda Sjálfstæðisflokksins.
Var að hlusta á Guðmund Inga Guðbrandsson, Ingu Sæland og Björn Leví ræða við Kristján Kristjánsson á Sprengisandi, m.a....
Posted by Ólafur Þ Harðarson on Sunday, September 12, 2021