Núgildandi aðferðafræði við einkunnagjöf virkjanakosta innan rammaáætlunar er ýmsum annmörkum háð, þar sem einkunnagjöfin nær ekki að endurspegla raunveruleg verðmæti þar sem arðsemismat virkjana tekur ekki tillit til umhverfisáhrifa þeirra. Þetta kemur fram í grein Ágúst Arnórssonar hagfræðings í nýjasta tölublaði Vísbendingar, sem birtist áskrifendum síðasta föstudag.
„Niðurstöður mats á umhverfisáhrifum hafa ekki áhrif á arðsemismat og rask á náttúrunni er því oft afgreitt sem tilfinningarök þegar kemur að ákvörðunum um virkjanaframkvæmdir. En þetta þarf ekki að vera svona. Til eru fjölmargar matsaðferðir þar sem umhverfisáhrif eru metin til fjár – svokallaðar hagrænar matsaðferðir,“ ritar Ágúst.
Í grein sinni fjallar hann um mat Urriðafossvirkjunar sem er neðsti virkjanakosturinn í Þjórsá samkvæmt núgildandi rammaáætlun. Samkvæmt kostnaðarflokkun Orkustofnunar, sem miðað er við í rammaáætlun, er Urriðafossvirkjun hagkvæm miðað við aðra virkjunarkosti en hins vegar sé ekki tekið tilliti til umhverfisáhrifa virkjunarinnar.
Hafa áhyggjur af laxastofninum
Í fyrrnefndu mati á Urriðafossvirkjun voru viðhorf og afstaða þjóðarinnar til framkvæmdarinnar könnuð. Farið var yfir hvernig virkjunarkostum er raðað í ljósi ráðgjafar og rannsókna faghópa í rammaáætlun og virkjuninni lýst ásamt væntum umhverfisáhrifum og mótvægisaðgerðum. Að því loknu voru þátttakendur í könnuninni beðnir um að raða Urriðafossi í orkunýtingar- eða verndarflokk út frá þeim upplýsingum sem lágu fyrir. 41,5% aðspurðra settu Urriðafossvirkjun í orkunýtingarflokk en tæp 36% töldu hana eiga heima í verndarflokki.
Þeir sem völdu orkunýtingarflokk nefndu helst að umhverfisáhrifin væru lítil samkvæmt faghópum eða að þörf væri á meiri orku. Á þriðja tug þeirra sem völdu orkunýtingarflokk tóku sérstaklega fram að þeir hefðu áhyggjur af farsæld laxastofnsins. Af þeim sem töldu rétt að færa Urriðafoss í verndarflokk nefndu tæplega tvö hundruð að staða laxastofnsins skipti mestu þar um.
Breytt kostnaðarmat útiloki ekki frekari virkjanir
Ágúst segir að samhliða sífellt vaxandi áherslu á kostnaðar- og ábatamat verði umfang umhverfisáhrifa að taka alvarlega. „Samkvæmt þeim matsramma þarf að bera öll velferðaráhrif saman við allan kostnað vegna fyrirhugaðra framkvæmda yfir líftíma verkefnisins. Ef ábati er meiri en kostnaðurinn telst verkefnið arðbært og auka velsæld, annars ekki. Við gætum borið kostnaðinn af því að segja upp stóriðjusamningi saman við annan kostnað sem hlýst af nýrri virkjunarframkvæmd, þar með talið umhverfiskostnað.“
Hann bendir á að í tilfelli Urriðafoss myndi heildarkostnaður virkjunarinnar hækka um 60 prósent ef svo væri. „Það hefði sennilega einhver áhrif á arðsemismatið, en útilokar ekki frekari virkjanir,“ ritar Ágúst Arnórsson.
Hægt er að lesa grein Ágústs í heild sinni með því að gerast áskrifandi að Vísbendingu.