Ríkisstjórnin ætlar að setja sér sjálfstætt markmið um að árið 2030 verði búið að draga úr þeirri losun gróðurhúsalofttegunda sem er á ábyrgð Íslands um 55 prósent miðað við þá losun sem var árið 2005. Um þetta er fjallað í stjórnarsáttmálanum sem kynntur var í gær.
Þetta eru nokkur tíðindi, en Ísland hefur verið í samfloti með Noregi og Evrópusambandinu um markmiðasetningu við samdrátt losunar og ekki sett sér sjálfstæð markmið um samdrátt eins og nú er gert. Þrátt fyrir að í ESB-samflotinu sé nú stefnt að 55 prósenta samdrætti losunar árið 2030 m.v. 2005 hefur hlutdeild Íslands í hinu sameiginlega markmiði um samdrátt losunar verið öllu lægra, fram til þessa.
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra sagði í samtali við Kjarnann eftir kynningu stjórnarsáttmálans á Kjarvalsstöðum í gær að hún teldi þetta bæði „metnaðarfullt og raunhæft“ markmið, en flokkur hennar talaði fyrir því í kosningabaráttunni að Ísland ætti að setja sér það markmið að draga úr losun um að minnsta kosti 60 prósent fyrir árið 2030 miðað við 2005.
„Ég veit að það eru önnur lönd með metnaðarfyllri markmið, en þau eru með annan losunarprófíl en Ísland. Ég held að við eigum tækifæri á að ná þessu markmiði og held að þetta skipti verulega máli gagnvart heiminum, að sýna að við séum ekki að hætt að vinna, við höfum verið dugleg að uppfæra okkar markmið, bæta í okkar aðgerðir og þetta er enn eitt dæmið um það,“ sagði Katrín við Kjarnann.
Olíuleitaryfirlýsing ekki bundin í lög
Í stjórnarsáttmálanum er einnig sett fram yfirlýsing um að ríkisstjórnin muni ekki gefa út nein leyfi til olíuleitar í efnahagslögsögu Íslands. Spurð um hvort þetta verði bundið í lög svarar Katrín neitandi.
„Fyrst og fremst er þetta bara okkar yfirlýsing, eins og mjög margar þjóðir hafa verið að gera. Grænlenska ríkisstjórnin gerði slíkt hið sama fyrr á þessu ári. Þetta er skýrt, á meðan að þessi ríkisstjórn er við völd verður þetta ekki gert,“ segir Katrín.
„Augljóslega ekki eins stór þjóðgarður og lagt var upp með“
Athygli vakti við kynningu sáttmálans í gær að fallið er frá áformum um að stofna þjóðgarð á miðhálendinu í þeirri mynd sem lagt var upp með á síðasta kjörtímabili. Þess í stað segir í sáttmálanum að með breytingum á lögum um Vatnajökulsþjóðgarð verði stofnaður „þjóðgarður á þegar friðlýstum svæðum og jöklum í þjóðlendum á hálendinu“.
„Þetta er augljóslega ekki eins stór þjóðgarður og lagt var upp með hér á síðasta kjörtímabili. Sú útfærsla mætti mikilli andstöðu víða um land,“ segir Katrín og bætir við að hún líti á þetta eins og verið sé að „taka fyrsta áfangann“ að miðhálendisþjóðgarði.
„Við gerum okkur grein fyrir því að svona þjóðgarður verður ekki stofnaður í andstöðu við sveitarfélög hringinn í kringum landið,“ segir Katrín. Hún segist hafa farið á fundi á öllu Suðurlandinu og þar hafi miðhálendisþjóðgarðsmálið verið „mjög til umræðu“.
„Þá segi ég, það er betra að gera hlutina í áföngum og þá í eins góðri sátt og hægt er.“
Mesti talsmaður mikilla breytinga á ráðuneytaskipan
Katrín hljómaði ekki mjög skúffuð yfir því í samtali við blaðamanna að flokkur hennar haldi ekki lengur á ráðuneyti umhverfismála. „Umhverfismálin eiga að vera alls staðar,“ sagði forsætisráðherra einfaldlega, innt eftir viðbrögðum við því að nú væri málaflokkurinn kominn í aðrar hendur en yfirlýsta „umhverfisflokksins“ í ríkisstjórninni.
„Ég var sjálf mesti talsmaður þess að við myndum gera miklar breytingar á skipan ráðuneyta og eins þessar stjórnkerfisbreytingar. Við erum með stefnu í öllum málaflokkum og það er ekkert sem segir að maður eigi að sitja alltaf í sömu ráðuneytunum,“ sagði Katrín og bætti við að ýmis stór verkefni bíði í þeim ráðuneytum sem Vinstri græn tóku að sér í stað ráðuneyta umhverfis- og heilbrigðismála.