Umhverfisstofnun telur að það ætti að skoða hvort leggja megi jarðgöng undir Sæbraut í stað þess að grafa þar fyrir umferðarstokki eins og til stendur að gera. Jarðgöng hafa ekki þótt fýsileg á þessum slóðum, en Umhverfisstofnun telur þrátt fyrir það að skoða málið og bendir á að jarðgöng þurfi „ekki endilega að fylgja núverandi veglínu“ og hafi þann kost að truflanir á umferð, sem leitt geti til aukinna tafa og aukinnar slysahættu, verði lítil.
Þetta kemur fram í umsögn stofnunarinnar um matsáætlun vegna mats á umhverfisáhrifum fyrirhugaðrar gerðar umferðarstokks, sem Kjarninn fjallaði nýlega um. Skipulagsstofnun veitti Kjarnanum í vikunni aðgang að öllum umsögnum og athugasemdum sem bárust um matsáætlunina.
Umhverfisstofnun segir í umsögn sinni að stofnunin telji að „tregða“ hafi verið hjá bæði Reykjavíkurborg og Vegagerðinni við að „ráðast í gröft jarðganga eða skoða slíka kosti af alvöru þegar um sambærilegar framkvæmdir er að ræða“ á höfuðborgarsvæðinu og nefnir stofnunin sem dæmi „jarðgöng sem tengja áttu Sæbrautina og Landspítalann en voru slegin af“.
Benda á að Litlahlíðin hafi reynst snúin
Í umsögn Umhverfisstofnunar er einnig sett fram ábending um að framkvæmd í borginni, sem kalla mætti mjög smáa í samanburði við umfang fyrirhugaðs Sæbrautarstokks, hafi reynst „nokkuð snúnari í framkvæmd en ætlað var“ og sé þegar komin fram yfir áætlaðan verktíma.
Þarna á stofnunin við Litluhlíð á milli Eskitorgs og Bústaðavegar, sem snerust um gerð lítils stokks fyrir umferð gangandi og hjólandi vegfarenda undir Litluhlíðina. Þar hófust framkvæmdir vorið 2021 og lokaðist leið bæði akandi umferðar og leiðir gangandi og hjólandi um svæðið á þeim tíma. Akandi umferð komst aftur á rétt fyrir jól, en endanleg verklok voru ekki áætluð fyrr en í síðasta mánuði.
Í þeirri framkvæmd urðu tafir vegna framkvæmda á vegum Veitna, en breyta þurfti stórum flutningsæðum hitaveitu, sem fara um svæðið. Ekki var hægt að vinna það verk að vetrarlagi og því var allt stopp í þrjá mánuði, samkvæmt tilkynningu borgarinnar.
Veitnamál muni hafa „mikil áhrif“ á íbúa á áhrifasvæði
Flækjustig Sæbrautarstokksins er töluvert meira og umfang framkvæmdarinnar líka, einnig hvað veitnamál varðar, eins og lesa má í umsögn Veitna til Skipulagsstofnunar um matsáætlun framkvæmdarinnar. Fyrirtækið segir ljóst að framkvæmdin komi til með að hafa „mikil áhrif á veitukerfin og þar af leiðandi á íbúa á áhrifasvæði verkefnisins“.
Veitur koma því á framfæri í umsögn sinni að fráveita þveri Sæbrautina á þremur stöðum þar sem fyrirhugað er að grafa fyrir umferðarstokknum. „Á öllum þessum stöðum er hæðarlega fráveitukerfis þannig að virkni kerfisins er í uppnámi vegna framkvæmda við vegstokkinn. Fráveitukerfið í Barðavogi við gatnamótin við Snekkjuvog kemur einnig til með að vera í uppnámi á framkvæmdatíma,“ segir í umsögn fyrirtækisins.
Þar segir einnig að flutningskerfi hitaveitu liggi austan við Sæbraut, stofnlögn vatnsveitu vestan við hana, auk þess sem 11 kílóvolta háspennustrengur liggi í miðeyjunni á umræddu svæði. „Lagnirnar og strengurinn lenda í uppnámi vegna væntanlegs vegstokks á Sæbraut,“ segja Veitur.
Sömuleiðis liggur 132 kílóvolta háspennustrengur og Sogaræsi við suðurenda stokksins og segja Veitur „mikilvægt“ að strengurinn og ræsið „lendi ekki í uppnámi vegna framkvæmdanna“.
Veitur segja annars að vinna við forhönnun og valkosti fyrir nýjar lagnaleiðir standi yfir. Fyrirtækið segir í umsögn sinni að það sé mikilvægt að „tryggja nægt pláss fyrir lagnaleiðir meðfram vegstokknum og þá sérstaklega í ljósi umræðna um frekari þéttingu byggðar meðfram stokknum“.