Nú er loftslagsráðstefnu nýlokið í Lima. Í desember 2015 hittast fulltrúar þjóða heims í París til að komast að samkomulagi um losun gróðurhúsalofttegunda.Takmarka
„Umræða um loftslagsbreytingar þarf að byrja og enda á Kína,“ segir Ola Wong sænskur rithöfundur og blaðamaður. Hann hefur búið og unnið í Kína undanfarin tíu ár. Wong hefur skrifað bækur, hlotið verðlaun fyrir rannsóknarblaðamennsku og kosinn umhverfisblaðamaður Svíþjóðar.
Af hverju heim núna?
„Loftið í Peking varð bókstaflega orðið of þungt til að anda. Ég fékk lungnasjúkdóm og konan mín varð veik. Þetta er ekki nýtt vandamál en þó eru ekki nema þrjú ár síðan kínversk stjórnvöld og fjölmiðlar fóru að minnast opinberlega á mengun. Áður var talað um þoku. Mælingatæki á erlendum sendiráðum birta upplýsingar um magn eiturefna í loftinu. Kínversk yfirvöld segja nú frá mengun en tölur þeirra eru alltaf mun lægri.“
Nýlega sendi Ola Wong frá sér bókina Pekingsyndromet, Pekingheilkennið.Titillinn vísar til ráðamanna Kína í dag sem upplifðu áföll á tímum Maos. Ola Wong segir þá hafa stöðugleikaþráhyggju, þörf til að endurrita söguna og fela hörmungaverk forvera sinna á toppnum. Í bókinni rekur hann arfleifð Maos í kapitalistíska kommúnistiska Kína í dag þar sem peningar, spilling og völd ráða ríkjum.”
„Kína er stórkostlegt land, skemmtilegt, forvitið og gestrisið. Maturinn oft frábær og maður heillast stöðugt af ríkum menningararfi og orku. Ég á eftir að halda áfram að ferðast þar og skrifa um landið. En bókin mín fjallar um pólitíkina og það er allt annar handleggur.“
Skiptir þetta okkur í alvöru máli?
„Ef héruð Kína væru lönd, þá væru 15 af þeim meðal 50 stærstu hagkerfa heims. Umhverfismál í Kína snerta okkur öll og því mikilvægt að við vitum meira um landið og stjórnvöld þar. Kína mengar meira en öll önnur lönd samanlagt. 85% af orkunotkun Kína kemur frá jarðefnaeldsneyti, meirihlutinn kolabruni. Í hverri viku opnar ný kolahitunarstöð.”
„Jafnvel þó losun Bandaríkjanna og Evrópu færi niður í núll þá myndi lækkunin verða étin upp af hækkuninni í Kína. Opinber kínverskur áróður segir stöðugt að öll lönd hafi mengað fyrst og síðan lagað það. En að ætla sér að auka mengun til ársins 2030 og síðan fara að huga að minnkun mun hafa hræðileg áhrif á líf okkar allra hér á jörðinni. Sænskir umhverfisflokkar tala ekkert um umfang kolanotkunar í Kína og alvarlegar afleiðingar hennar. Og við erum að flytja inn umhverfisstefnu Kína með því að kaupa ódýrar kínverskar vörur. Því þarf öll umræða um loftslagsbreytingar að byrja og enda á Kína.
Landið sem hefur orðið ríkt með því að setja hagvöxt framar siðferði, náttúru eða lögum.”
Við lestur bókarinnar fær maður á tilfinninguna að Kína sé blindur risi að leika sér, byggja brjálæðislegar borgir og færa ár og fjöll.
„Fyrir nokkrum árum skissaði verkfræðingur á veitingastað í Shanghai fyrir mig á servíettu nýja borg í Shandong. Landshluti með 96 milljónir íbúa. Hann útskýrði hvernig gamli bærinn lægi við fjöll og ekkert pláss til að vaxa.“
„Svo við sögum bara af fjöllunum og skellum í hafið og málið er leyst!“
Nú er búið að teikna allt verkefnið. Níu hagsvæði verða byggð með efnaverksmiðjum og golfvöllum í Shandong. 420 Ferkílómetrar af hafi eiga að verða land fyrir árið 2020 samkvæmt áætlun stjórnarinnar í Peking. Tvisvar sinnum Stokkhólmur. Þetta er aðeins eitt af ótalmörgum mega-verkefnum sem eru í gangi.”
„Já gífurlegir fólksflutingar eiga sér stað í Kína. Á milli 2007 og 2012 voru 737 000 hirðingjar í Tíbet fluttir í nýbyggð blokka- og múrsteinahverfi. Opinber ástæða sögð vera að vernda náttúruna frá ofbeit. En samkvæmt útlegðarstjórninni í Dharamsala fjalla fólksflutningarnir í raun um flutning á tæplega tveimur milljón hirðingjum til að hleypa kínverskum námufyrirtækjum að ósnertri náttúru sem þeir eru nú að rústa. Auk þess er auðveldara fyrir kínversk stjórnvöld að fylgjast með tíbetum ef þeir lifa á sama stað. Þannig tapast bæði menning og tungumál þeirra.“
Hvernig er að starfa sem erlendur blaðamaður í Kína?
„Af því ég tala kínversku á ég auðvelt með að nálgast fólk. Áður var auðvelt fyrir mig að ferðast til vestur Kína og hitta Uguira en nú er það ómögulegt vegna opinbers eftirlits. Sumir sem ég tala vilja ekki geta nafns síns . Eins og til dæmis faðir í hinni afar menguðu Shingfeng. Hann segir frá veikindum sonar síns og eitruðu vatni en vill ekki að ég skrifi nafnið hans. Kommúnistaflokkurinn gerir allt til að koma í veg fyrir óróleika og áhyggjur almennings og stöðvar því umhverfisverndarsinna og aðra sem reyna að vara við. Vandamálin eru eins og í Shinfeng bókstaflega grafin í jörðu og koma svo upp sem krabbamein í gegnum kranavatnið.
Hvað með fólk sem mótmælir?
„Það er þaggað niður í þeim sem mótmæla jarðamissi vegna byggingaráætlana.“
Til dæmis ungi aktivistinn Wang Bingru sem ég segi frá í bókinni. Hún tapaði húsi sínu vegna þess að spilltir embættismenn seldu landið hennar. Vinur hennar lögfræðingur sagði við mig: Þegar yfirvöld sjá höfuð bregðast þau við á tvennan hátt: Annað hvort höggva þau það af eða loka munninum með peningum. Þess vegna gáfu þeir henni milljón. En hún heldur samt áfram að mótmæla. Ég heyrði nýlega frá Wang Bingru og þó hún sé undir eftirliti er hún frjáls og heldur áfram baráttu sinni fyrir réttlæti fyrir aðra í sömu stöðu og hún.”
En er vilji til umbóta?
„Já og það hefur líka sumt lagast í Kína. Til dæmis hefur nokkrum mengandi verksmiðjum verið lokað. Vandinn er að nýjar eru opnaðar. Og þó opinberlega sé yfirlýstur vilji til að byggja á umhverfisvænari hátt. Þá eru þannig lausnum fyrst er hent út þegar spara á peninga eða auka flæðið í vasa spilltra embættismanna.“
Í bókinni segir þú að Kína hafi aldrei gert upp sögu sína og kommúnistaflokksins.
„Menningarbyltingin hefur verið rædd og fordæmd á ákveðinn hátt af kommúnistaflokknum.En hungursneyðina miklu árið 1958-1962 er bannað að tala um.
Ég segi frá rithöfundinum Yang Jisheng í bókinni.
Hann starfaði við áróðursdeild Kommúnstaflokksins en eftir mótmælin í Peking árið 1989 fór hann með leynd að safna efni í lífsverkið sitt Legsteininn. Bók um hungursneyðina sem kostaði líf 36 milljón manns, þar á meðal föður hans.Anne Appelbaum höfundur bókarinnar Gulag a History, ber verk Jishengs saman við bók Solsjenitsyns Dagur í lífi Ivan Denisovitsj, um grimmd Stalíntímans. Munurinn er að bók Solsjenitzins mátti koma út eftir dauða Stalíns því hún nýttist í áróðri flokksins í endurbótastarfi. Bókin Legsteinninn er bönnuð í Kína. Kommúnistaflokkurinn hefur ekkert á þessum sagnfræðilegu upplýsingum að græða. Að 36 milljónir kínverja misstu lífið í hungursneið sem Mao og flokkurinn skipulögðu. Ungt fólk hefur ekki hugmynd um þetta. Höfundurinn Yang Jisheng telur sig þó hafa mikil áhrif, hann sagði: Bókin hefur verði prentuð níu sinnum í Hong Kong. 200 000 þúsund eintök og er 80% af þeim er smyglað yfir landamærin. Hún er einnig seld í sjóræningjaútgáfum í Kína. Vinir mínir hringja þegar þeir rekast á eintak á mörkuðum úti á landsbyggðinni.“ Jisheng segist vera stoltur og að fyrrverandi kollegar hans hjá flokknum öfundi hann. „Því hver vill ekki skrifa eitthvað sem er satt og skiptir máli?“
Er ekki sagt frá hungursneyðinni á stóra safninu í Peking ?
„Nei og aðeins á einum stað er minnst á menningarbyltinguna, í texta undir ljósmynd frá flokksfundi. Ég segi frá því í bókinni þegar núverandi forseti Kína Xi Jinping tók við forystu kommúnistaflokksins þá skoðaði hann hið nýuppgerða stærsta safn heims við Torg hins Himneska Friðar í Peking.“
En það hafa orðið miklar framfarir í Kína
„Kommúnistaflokkurinn hefur margt til að vera stoltur yfir. Til dæmis það að nær allar konur eru læsar og það að síðan 2009 hefur verið komið á sjúkratryggingakerfi. Sem er afrek þegar litið er til misheppnaðra tilrauna í Bandaríkjunum. En í þessu er skautað framhjá á sýningunni í Peking. Þar er áhersla lögð á Kína sem stórveldi í geimnum og á heimshöfunum. Bara ef allir sitja kjurrir í bátnum þá mun draumurinn rætast.”
Hver er hinn opinberi draumur?
„Nú er talað um að örlög kínverja séu að leggja undir sig heimshöfin. Það er því stöðugur áróður um það að Kína ætli út á höfin, byggja flugmóðurskip og nýta auðlindir hafsins. Risabyggingar og skýjakljúfar í Kína eru núna furðulega oft skreytt með hafs- og öldumyndum. Í sjónvarpsþættinum Vorhátíðin sem hundruðir milljóna fylgjast með koma hersöngvarar fram og syngja ...Ég er stoltur sjóliði sem siglir yfir bláann akur á meðan balletflokkur sjóhersins skoppar fram og aftur skipssviðið á þröngum hvítum sjóliðabúningum.“
Hvernig er drykkjarvatnið í Peking?
„Rannsókn á drykkjarvatni í 118 borgum Kína í fyrra leiddi í ljós að 97% vatnsins var mengað og ódrykkjarhæft. Það ótrúlega er í raun að Peking virki eins vel og hún gerir: Það kemur vatn úr krönum og það er hægt að aka (hægt) í vinnuna. Stundum er meira að segja blár himinn. Peking stendur á svæði þar sem í raun er ekki hægt að vera með risaborg. Með fjöll í bakið. Ef vindurinn blæs ekki úr réttri átt eða það rignir þá þykknar mengunin. Það er stöðugur þurrkur.
Allt norðurkína á við vatnsskort að etja. En í stað þess að flytja höfuðborgina til suður Kína þar sem nóg er af vatni er gert ráð fyrir vexti Peking og íbúar verði 60 milljónir árið 2050. Stærsta vatnsverkefni heims: Suður- Norður vatnsleiðslan er byggð til að leiða vatn í höfuðborgina. Sem er ein af ástæðum þess að bændur í suður Shaanxi neyddust til að flytja búferlum. Kostnaðurinn er stjarnfræðilega hár. En þessi manngerðu fljót munu ekki duga til. Því eru afsöltunarstöðvar byggðar meðfram austurströndinni. Sjór mun renna úr krönum Pekingbúa eftir fimm ár. Þetta er dýrt ferli og krefst mikillrar orku frá kolaverum. Sem á móti valda enn meiri þurrki. En það er síðan leyst með efnablöndum og gerviregni. Gagnrýnendur í Kína segja einnig að verkefnið muni breyta Bohaiflóa í dautt haf. “
Þú segir frá lista- og andófsmanninum Ai Weiwei
„Ég er ekki virkur í lýðræðishreyfingunni. Ég tek ekki þátt í stjórnmálum,“ segir listamaðurinn Ai Weiwei.
En bætti síðan við: „Vandamálið er að í þessu landi er svo margt pólitík. Eftir nokkur ár mun kommúnistaflokkurinn líða undir lok, hann hlýtur að gera það. Hann er gegn grundvallar mannréttindum. “
Svona orð nægja til ákæru fyrir glæpi gegn ríkinu. Sem oftast leiðir til margra ára fangelsi.
Hjá Ai Weiwei er andóf í fjölskyldunni. Faðir hans Ai Qing, þekkt nútímaskáld, var bannfærður árið 1959 og sendur í útlegð til afskekkta Xinjiang. Þar var hann látinn vinna í 21 ár við að þrífa kamra. Ai Weiwei bjó þar í fimm ár.
Hann sagði mér að það verk sem hann er stoltastur yfir er vinnan eftir Sichuan jarðskjálftann 2008. Áður hafði hann byggt feril sinn á pop-háðsku viðhorfi í jafnvægi milli þess sem flokkurinn vildi og það sem vesturlönd bjuggust við af kínverkum uppreisnarsegg. Á sama tíma safnaði hann talsverðum auð. Það var andi þess tíma.
Mörg fórnarlamba jarðskjálftans í Sichuan voru börn sem létust í byggingum þar sem fé sem átti að nota í járnbenta steinsteypu endaði í vösum spilltra embættismanna.
Yfirvöld þögguðu niður ásakanir og bönnuðu birtingar á nöfnum fórnarlambanna.
Foreldrum og öðrum sem sem kröfðust réttlætis var hótað, þeir lamdir og sumir settir í fangelsi. Ai Weiwei hóf að safna saman nöfnum barnanna og leggja þau út á Twitter.
Nöfn 5.200 barna alls. Þannig hófst ferðalag Ai Weiwei frá hirðfífli til andófsmanns.”
Ai Weiwei var barinn þegar lögreglan braust inn á hótel hans í Sichuan árið 2009. Hann fékk stöðugan höfuðverk. Mánuði seinna fékk hann heilablóðfall og var skorinn upp.
“Nokkrum tímum seinna hefði ég dáið” Segir Ai Weiwei. Hann var einnig handtekinn árið 2011. Árið sem hann var kosinn áhrifamesti listamaður í heimi. Eftir 81 dag í gluggalausum klefa var honum sleppt.
Hvernig hefur Ai Weiwei það í dag?
„Í dag býr hann við hálf-frelsi er bannað að yfirgefa landið, ritskoðaður og bannað að halda sýningar í Kína. Þetta er sá sami og hannaði ólympíuleikvanginn í Peking 2008. Þess ber að geta að flestir kínverjar vita ekki hver hann er. En hann er fyrirmynd andófsmanna.“
Í bókinni talar Ola Wong um listamenn eins og Damien Hirst og firringu og háð sem fylgdi þeim tíma fyrir efnahagshrunið.
„Það sem gerðist eftir Olympíuleikana í Peking og fjármálahrunið var að Pussy Riot og Ai Weiwei bundu enda á háðið. Það er engin tilviljun að einn listamannanna sé í Kína en hinar í gamla KGB njósnarans Rússlandi. Þau snúast gegn háði og lygi sem stefnu.“
Það sem nærist í samfélögum þar sem ýtt er undir tortryggni með opinberum áróðri og lygum.Fjöldi kínverja hefur unnið til nóbelsverðlauna en aðeins tveir þeirra búa í Kína. Annar þeirra Mo Yan er rithöfundur í þágu ríkisins og býr handan múrs í einu af fínni hverfum hersins. Hinn situr í fangelsi. Allir aðrir hafa flutt úr landi.
Kommúnistaflokkurinn hefur á 90 ára sögu sinni aftur og aftur drepið hænurnar sem leggja gulleggin. Ai Weiwei aðeins eitt af nýjustu dæmunum.”
Ola Wong og Ai Weiwei.
Þegar Ai Weiwei var yfirheyrður spurði einn af lögreglumönnunum hvers vegna hann einbeitti sér ekki bara að því að græða peninga eins og allir aðrir.
„Já hann sagði lögreglumanninn hafa verið virkilega undrandi. Sama viðhorfið veldur því að margir sem kvarta eða mótmæla eiga á hættu að vera stimplaðir geðveikir og lokaðir inni á stofnunum. Það er ekki aðeins þægileg leið til að þagga niður mótmæli. Í augum yfirvalda eru aðgerðir andófsmanna sjúkar.
Í ræðu sinni við réttarhöld í Moskvu vitnaði meðlimur Pussy Riot í sovéska andófsmanninn Vladimir Bukovsky: Hversu óhamingjusamt er ekki land þar sem litið er á sannleikann í besta lagi sem hugrekki og í versta falli sem geðveiki.
Bukovsky hefði getað bætt því við; að í landi þar sem þeir sem segja sannleikann eiga á hættu að vera stimplaðir geðveikir er raunveruleikinn oft sjúkur.“