Drög að auglýsingu vegna stöðu þjóðminjavarðar höfðu verið skrifuð af tveimur embættismönnum í yfirstjórn menningar- og viðskiptaráðuneytinu, en við umræður innan ráðuneytisins um framhald málsins kom svo til tals hvort einhverjir af safnstjórum höfuðsafna, eða annarra stærri safna, myndu vilja taka að sér embættið og væru hæfir til þess.
Í framhaldinu var svo „horft til nokkurra safna og hvernig starfsemi þeirra hefði verið og lagaskilyrði fyrir flutningi embættismanns á milli safna könnuð“ og niðurstaðan úr þeirri athugun var að Listasafn Íslands þætti „standa framarlega með framsækna og fjölbreytta starfsemi á undanförnum árum“ og að ljóst væri að „frammistaða safnstjóra Listasafns Íslands, hæfni viðkomandi, reynsla og þekking var eftirtektarverð og að starfið í safninu bæri með sér að þar færi kröftugur safnstjóri og leiðtogi“.
„Aðrir eiginleikar viðkomandi, svo sem hæfni í mannlegum samskiptum, stjórnunarreynsla og lausnamiðuð nálgun, gerðu það enn fremur að verkum að safnstjórinn þótti vel hæfur til þess að taka við embætti þjóðminjavarðar,“ segir í skriflegu svari Lilju Alfreðsdóttur menningar- og viðskiptaráðherra, við fyrirspurn Jóhann Páls Jóhannssonar þingmanns Samfylkingar um skipan þjóðminjavarðar án auglýsingar.
Lilja tilkynnti undir lok ágúst að hún hefði skipað Hörpu Þórsdóttur í embætti þjóðminjavarðar, með því að flytja hana úr stöðu safnstjóra Listasafns Íslands. Óhætt er að segja að ráðherra hafi fengið bágt fyrir frá ýmsum fag- og stéttarfélögum, auk starfsmanna Þjóðminjasafnsins, sem töldu að ráðherra hefði átt að auglýsa embættið.
Stjórnendaþátturinn væri farinn að skipta miklu
Jóhann Páll kallaði í fyrirspurn sinni eftir skýringum á því, hvers vegna ráðherra hefði ákveðið að auglýsa ekki embætti þjóðminjavarðar eins og í lögum segir að almennt skuli gera og fór einnig fram á að fá upplýsingar um það hvers konar rannsókn ráðherra hefði framkvæmt við undirbúning ákvörðunar sinnar.
Í svarinu kemur fram að við þá vinnu sem ráðist var í við að undirbúa auglýsingu um starfið hafi orðið ljóst að „horfa þyrfti til þess hversu safnstjórnin er orðin viðamikil í störfum safnsins“ og er þá átt við „hve stjórnendaþátturinn er farinn að skipta miklu í daglegum störfum þjóðminjavarðar og allar líkur eru á að fari vaxandi á næstu árum“.
Einnig var horft til þess að heimsóknir safngesta skiptu meira máli en áður, í ljósi aukins fjölda þeirra og til annarra þátta, eins og viðtöku safnmuna, og þeirra breytinga sem hefðu orðið á Þjóðminjasafninu með stofnun Fornleifaverndar ríkisins og breytinga á þjóðminjalögum árið 2001 og svo lögum um menningarminjar árið 2012.
Með ofangreint í huga var niðurstaðan að „safnstjórn Þjóðminjasafnsins skipti meira máli í ljósi þess að stjórnsýsla fornleifa hafði færst til Minjastofnunar og að einkafyrirtæki önnuðust fornminjarannsóknir að stærstum hluta“.
Í svari Lilju segir að við ákvörðun um flutning Hörpu frá Listasafni Íslands til Þjóðminjasafnsins hafi verið gætt að grundvallarreglum um lögmæti, réttmæti og málefnalegar ástæður flutningsins.
„Þar ber helst að nefna að farið var vandlega yfir alla þætti sem mestu skipta þegar kemur að starfslýsingu og hlutverki þjóðminjavarðar. Má þar einkum nefna stjórnunarreynslu, menntun sem nýtist í starfi, þekkingu á málefnum Þjóðminjasafnsins, þekkingu á safnastarfi í landinu, persónulega eiginleika, samstarfshæfni, mannkosti og aðra persónubundna þætti. Niðurstaðan af öllu framangreindu var að Harpa Þórsdóttir uppfyllti öll þau skilyrði sem ráðuneytið taldi að þjóðminjavörður þyrfti að hafa til að bera,“ segir í svari ráðherra.
Einungis byggt á málefnalegum forsendum
Jóhann Páll spurði Lilju einnig um það hvernig ákvörðun um flutninginn samrýmdist réttmætisreglu stjórnsýslureglu, sem felur það í sér að allar ákvarðanir og athafnir stjórnvalda skuli byggjast á málefnalegum sjónarmiðum.
Í svari Lilju segir að ákvarðanir sem teldust ómálefnalegar væru til dæmis reistar á óvild eða persónulegum ástæðum, eða þá að þær bæru það með sér að vera af pólitískum, persónulegum eða fjárhagslegum toga. Ekkert af þessu hafi átt við þegar kæmi að ákvörðun um skipan þjóðminjavarðar.
„Flutningur safnstjórans er reistur á málefnalegum forsendum og grundvallast á því að hæfur forstöðumaður í einu af þremur höfuðsöfnum þjóðarinnar er fluttur í annað höfuðsafn, Þjóðminjasafnið, eftir vandlega athugun og rannsókn á því hvort öll skilyrði væru uppfyllt sem réttlæta viðkomandi flutning,“ segir í svari Lilju, sem segir eingöngu málefnaleg sjónarmið hafa legið til grundvallar ákvörðuninni.
„Umræddur embættismaður hefur með störfum sínum og reynslu sýnt fram á framúrskarandi hæfni til að gegna embætti þjóðminjavarðar. Fjölþætt reynsla viðkomandi við safnstjórn, lögáskilin þekking á málefnum Þjóðminjasafnsins, starfsumhverfi opinberra stofnana og lögum um opinber fjármál auk margra ára stjórnunarreynslu undirstrika að eingöngu málefnaleg sjónarmið lágu að baki ákvörðun um flutning, til samræmis við réttmætisreglur stjórnsýsluréttar. Vegna tilvísunar til réttmætisreglunnar skal tekið fram að ákvörðunin var ekki á nokkurn hátt byggð á persónulegum tengslum né heldur var hún af pólitískum toga og hafði engan fjárhagslegan eða annars konar ávinning í för með sér fyrir nokkurn hlutaðeigandi. Við skipunarferlið var gætt að öllum grundvallarreglum stjórnsýsluréttarins sem við áttu, auk annarra laga og reglna,“ segir í svari ráðherra.