Útlendingastofnun hefur tilkynnt um breytta stjórnsýsluframkvæmd við mat á þörf ríkisborgara Venesúela fyrir viðbótarvernd. Breytingin felst í því að lagt verður einstaklingsbundið mat á umsóknir ríkisborgara Venesúela um vernd hér á landi og hefur það í för með sér að þeir fá ekki lengur skilyrðislaust viðbótarvernd á grundvelli almennra aðstæðna í heimalandi.
Stofnunin greindi frá þessu á vefsíðu sinni í dag.
Þar kemur fram að frá og með 1. janúar 2022 muni Útlendingastofnun taka upp breytt verklag en breytingin felst í því að lagt verður einstaklingsbundið mat á hverja umsókn sem kemur frá einstaklingum með venesúelskt ríkisfang með vísan til sjónarmiða um viðbótarvernd.
Breytingarnar samrýmist réttarheimildum „að mörgu leyti betur en fyrri framkvæmd“
Jafnframt segir í tilkynningu stofnunarinnar að á undanförnum misserum hafi umsækjendum um alþjóðlega vernd frá Venesúela verið veitt viðbótarvernd með vísan til almennra aðstæðna í heimalandi óháð einstaklingsbundnum aðstæðum hvers umsækjanda.
Samkvæmt Útlendingastofnun er heimilt að breyta stjórnsýsluframkvæmd á tilteknu sviði að ákveðnum skilyrðum uppfylltum. „Ræðst það af þeim réttarheimildum sem ákvarðanir grundvallast á auk þess sem jafnræðisreglan leiðir til þess að slík breyting verði að fara fram með tilteknum hætti. Með vísan til þeirra réttarheimilda sem gilda er litið svo á að breytingarnar sem gerðar verða á verklagi stofnunarinnar samrýmist þeim vel og að mörgu leyti betur en fyrri framkvæmd.“
Af jafnræðisreglunni leiði að breytingar verði að grundvallast á málefnalegum sjónarmiðum, þær verði að vera almennar, taka verði tillit til réttmætra væntinga almennings og kynna þær breytingar sem fyrirhugaðar eru auk þess sem gæta verði að sjónarmiðum um bann við afturvirkni réttarreglna.
Stofnunin segir að flóttafólk frá Venesúela hafi farið aftur til heimalandsins
Í rökstuðningi fyrir breyttri framkvæmd kemur fram að fyrir liggi að yfirgnæfandi meirihluti umsækjenda um alþjóðlega vernd frá Venesúela beri fyrir sig efnahagslegar aðstæður og óöryggi í heimalandi. Þá hafi stofnunin fengið upplýsingar um ríkisborgara Venesúela sem hafa fengið vernd hér á landi en hafa kosið að fara aftur til heimalands í lengri eða skemmri tíma og með því nýtt sér vernd heimaríkis á ný.
„Slíkt getur verið grundvöllur afturköllunar á vernd þar sem verndin er veitt á þeirri forsendu að öryggi flóttamanns sé í hættu í heimalandi. Snúi hann þangað aftur gefur það í skyn að flóttamaðurinn þurfi ekki á alþjóðlegri vernd að halda,“ segir á vef stofnunarinnar.
Nýtt verklag innleitt í skrefum
Útlendingastofnun telur því ekki forsvaranlegt að beita ákvæði útlendingalaga með þeim hætti að umsóknir allra umsækjenda sem koma frá Venesúela falli skilyrðislaust innan ramma viðbótarverndar, án þess að skoðað sé sérstaklega hvernig almennar aðstæður horfi við þeim umsækjanda sem um ræðir í hverju tilviki fyrir sig.
„Verður þetta verklag innleitt í skrefum til samræmis við þær leiðbeiningar sem umsækjendur hafa fengið á fyrri stigum máls og þannig komið í veg fyrir að breyttri stjórnsýsluframkvæmd verði beitt afturvirkt. Breytingarnar eru einnig til samræmis við framkvæmd í nágrannaríkjum Íslands.“