Um eitt hundrað þúsund Ungverjar söfnuðust saman í höfuðborg landsins, Budapest, í gær til að mótmæla fyrirhuguðum skatti stjórnvalda á gagnamagn á internetinu. Þá vildi mannsöfnuðurinn sömuleiðis láta í ljós óánægju sína með forsætisráðherrann Viktor Orban, einræðistilburði hans og stefnu ríkisstjórnarinnar sem hneigist í þá átt minnka samskipti við aðrar þjóðir Evrópusambandsins. Reuters greinir frá málinu.
Mótmælin í gær voru þau stærstu síðan Viktor Orban komst til valda árið 2010, en þrátt fyrir að hafa verið sökuð um einræðistilburði í valdatíð sinni, var ríkisstjórn hans endurkjörin með miklum yfirburðum á síðasta ári.
Í tíð sinni hefur ríkisstjórnin skattlagt sérstaklega bankakerfið, smásöluna, og orku- og fjarskiptageirann til að halda ríkisfjármálunum á áætlun, en samhliða hefur hún stefnt í hættu hagnaði í ýmsum kimum hagkerfisins og gert alþjóðlega fjárfesta taugaóstyrka.
Áform stjórnvalda um sérstaka skattlagningu á gagnamagn á internetinu komst í hámæli í Ungverjalandi í síðustu viku. Strax í kjölfarið mótmæltu fjarskiptafyrirtækin áformunum, sem og viðskiptavinir þeirra sem sögðu skattlagninguna ólýðræðislega.
Mótmælin í gær voru skipulögð í gegnum Facebook. Mannfjöldinn arkaði í gegnum miðborg Budapest og krafðist þess að horfið yrði frá skattlagningunni og að forsætisráðherra landsins færi frá völdum. Margir mótmælendur héldu á lofti kröfuskiltum með áletruninni "ERROR," og "Hversu oft ætlið þið að féfletta okkur?"
Internet-skattur lækkaður eftir fyrri mótmæli
Stjórnvöld í Ungverjalandi ætluðu í upphafi að skattleggja hvert gígabæt á 150 ungversk forint, eða sem samsvarar 75 íslenskum krónum. Eftir útreikninga greiningaraðila, sem sýndu fram á að skattlagningin myndi skila ríkissjóði Ungverjalands meiru en sem nemur hagnaði fjarskiptageirans, og mótmæli á sunnudaginn sem þúsundir manna tóku þátt í, ákváðu stjórnvöld að setja sérstakt þak á internet-skattinn; 700 forints á einstaklinga (350 ísk. krónur) og 5.000 forints á fyrirtæki (2.500 ísk. krónur).
Þessi ákvörðun gerði engu að síður lítið til að draga úr reiði Ungverja, eins og mótmælin í gær bera með sér.
Ríkisstjórn Orban hefur vísað á bug ásökunum um ólýðræðislegar áherslur, og segir að markmið hennar sé að deila skattbyrði ríkisins jafnt á alla geira efnahagslífsins. Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins hefur sömuleiðis gagnrýnt fyrirhugaðan internet-skatt.