Frá því í sumar, er Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, kynnti forsendur og markmið verkefnis við að greina „umbótatækifæri og áskoranir“ sem felast í núverandi stofnanakerfi ráðuneytisins, hefur verið unnið að einföldun skipulags þessara stofnana. Þær eru þrettán talsins og hjá þeim starfa um 600 manns á 40 starfsstöðvum víða um land. Flest störfin eða 61 prósent eru á höfuðborgarsvæðinu.
Markmið að ná fram hagræðingu
Guðlaugur Þór kynnti stöðu þessarar vinnu á ríkisstjórnarfundi í síðustu viku. Í upplýsingum sem hann lagði þar fram og Kjarninn fékk afhentar, kom fram að markmið verkefnisins væri að gera stofnanir betur í stakk búnar til að mæta „umfangsmiklum faglegum og rekstrarlegum áskorunum sem við blasa, efla samstarf stofnana og ráðuneytis, auka skilvirkni, þjónustu og ná fram hagræðingu“.
Í verkefninu telur ráðherrann einnig felast sóknarfæri hvað varðar fjölgun starfa á landsbyggðinni, fjölgun á störfum óháð staðsetningu og uppbyggingu eftirsóknarverðra vinnustaða fyrir öflugt fagfólk, líkt og það er orðað í samantekt um stöðu vinnunnar.
Þingvallafundur með forstöðumönnum
Í lok júní átti Guðlaugur Þór fund á Þingvöllum með forstöðumönnum allra stofnana sem heyra undir ráðuneyti hans. Á þeim fundi voru meðal annars kynntar áherslur um að nýta þekkingu, innviði og gögn sem fyrir eru og að auka samþættingu stefnumótunar og áætlanagerðar.
Greiningarvinna byggir á heildstæðri nálgun málaflokka, líkt og það er orðað, og verkefna sem í sumum tilfellum ná út fyrir skilgreind viðfangsefni stofnana og ráðuneytisins. Með sama hætti er horft til þess hvort núverandi verkefnum væri betur fyrir komið með öðrum hætti, s.s. „þar sem tækifæri gætu legið til samþættingar eða flutnings verkefna á milli ráðuneyta“. Meðal annars vegna þessa er áhersla lögð á mikilvægi náins samstarfs við önnur ráðuneyti, segir í þeim gögnum sem ráðherrann kynnti fyrir ríkisstjórn.
Minnihluti sér mikil tækifæri
Forstöðumenn allra stofnana hafa skilað inn greinargerðum og hefur Guðlaugur Þór fundað með starfsmönnum þeirra allra. Viðhorfskönnun var gerð nú í ágúst á meðal starfsfólksins og var þátttaka um 74 prósent. Í könnuninni kom m.a. fram að innan við helmingur eða 48 prósent telja mikil eða mjög mikil tækifæri felast í sameiningum stofnana. 63 prósent telja hins vegar mikil eða mjög mikil tækifæri liggja í að samþætta verkefni og auka samvinnu.
Einnig var spurt um viðhorf til fjarvinnu og voru 82 prósent starfsfólks jákvæð gagnvart því að sinna starfinu með þeim hætti að hluta eða öllu leyti.
Geta nýrra stofnana
„Í grunninn er horft á getu nýrra stofnana til að mæta allra stærstu áskorunum sem bíða á þessu sviði en auk þess var sérstaklega horft til efnisatriða sem hafa, með einum eða öðrum hætti, verið á borði margra stofnana og verkefna sem hafa verið með mikla skörun eða tengingar á milli stofnana,“ segir í gögnum þeim sem lögð voru fyrir ríkisstjórnina. Er þar örugglega verið að vísa til loftslagsmála. „Með nýrri nálgun er stefnt að því að auka skilvirkni og draga úr sóun sem hlýst af tvítekningu, skorti á samstarfi og samskiptum.“
Niðurstaða í lok árs
Verkefnisáætlun gerir ráð fyrir að á næstu vikum fari fram frekari gagnaöflun og greining samhliða því sem fundað verði með stjórnum, nefndum, öðrum ráðuneytum og hagaðilum. Á þessum fundum verður verkefnið kynnt auk þess sem sérstök áhersla verður á umræður um mögulegan flutning verkefna til og frá ráðuneytinu og stofnunum þess. Gert er ráð fyrir að í lok þessa árs liggi fyrir hver niðurstaðan verður og í framhaldi af því mun hefjast vinna við innleiðingu breytinganna.
Sameining stofnana kom til tals á fundi þingmanna Vinstri grænna í Borgarnesi nýverið. Tilefni fundarins var umræða sem vaknað hefur um vindorkuver en að mati á slíkum framkvæmdum, sem hafa áhrif á umhverfi, samfélög og fleiri þætti, koma einmitt margar stofnanir s.s. Skipulagsstofnun, Náttúrufræðistofnun Íslands, Umhverfisstofnun og Orkustofnun.
„Ruslakistustofnunin“
Einn gestur fundarins sagði að hið nýja innviðaráðuneyti, sem Sigurður Ingi Jóhannsson formaður Framsóknarflokksins fer fyrir, vera að „gleypa alls konar stofnanir sem eru ætlaðar til þess að hindra framgang svona mála“.
Hann nefndi Húsnæðis- og mannvirkjastofnun, sem væri „ruslakistustofnun“ og óttaðist að næsta skref yrði að sameina Skipulagsstofnun þeirri kistu í þeim tilgangi að lama það eftirlit og hlutverk sem hún hefur. Vinstri græn verði að sjá til þess að „freku kallarnir“ komist ekki upp með að losna við þær bremsur sem þó eru í mannvirkjagerð hér á landi og eru m.a. á hendi Skipulags- og Umhverfisstofnunar.
Skipulagsmál voru færð frá umhverfisráðherra til innviðaráðherra er ný ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur var kynnt seint á síðasta ári. Þar með færðist Skipulagsstofnun frá umhverfisráðuneytinu undir nýtt embætti innviðaráðherra.
Orri Páll Jóhannsson, þingflokksformaður VG, minnti á Borgarnesfundinum á að Skipulagsstofnun starfi á grundvelli laga. „Hún verður ekkert lögð niður eða henni breytt nema með lagasetningu“ og sagðist því ekki deila sömu áhyggjum og fundargesturinn. Hann hefði hvergi fengið það staðfest að til standi að sameina Skipulagsstofnun annarri stofnun „en ég hef alveg heyrt þetta, ég viðurkenni það“.
Bjarni Jónsson, þingmaður VG, var einnig á þessum fundi í Borgarnesi. „Ég skal alveg viðurkenna það að ég var ekkert ofboðslega skotinn í þessum breytingum, persónulega,“ sagði Bjarni og vísaði til stofnunar innviðaráðuneytisins.
Þær stofnanir sem heyra undir ráðuneytið eru: Íslenskar orkurannsóknir (ÍSOR), Landmælingar Íslands, Minjastofnun, Náttúrufræðistofnun Íslands, Náttúrurannsóknarstöðin við Mývatn, Orkustofnun, Stofnun Vilhjálms Stefánssonar, Umhverfisstofnun, Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála, Úrvinnslusjóður, Vatnajökulsþjóðgarður, Veðurstofa Íslands, Þjóðgarðurinn á Þingvöllum.