Reykjavíkurborg hefur skilað inn uppfærðri umsögn um frumvarp um afglæpavæðingu vörslu neysluskammta að frumkvæði Alexöndru Briem, borgarfulltrúa Pírata.
Alexandra segir í samtali við Kjarnann að upphafleg umsögn borgarinnar, sem er undirrituð af borgarritara og unnin í samráði við samráðshóp Reykjavíkurborgar um forvarnir og mannréttinda- og lýðræðisskrifstofu borgarinnar, fari ekki saman við stefnu borgarinnar um skaðaminnkun í velferðarmálum.
„Við hljótum að styðja þetta frumvarp. Það er að minnsta kosti gallhörð afstaða Pírata og ég myndi ekki sætta mig við ef það ætti að breyta því án þess að ræða við mig,“ segir Alexandra.
Í upphaflegri umsögn borgarinnar, sem hefur nú verið fjarlægð af vef Alþingis, eru gerðar nokkrar athugasemdir við frumvarpið. Í umsögninni segir meðal annars að gera megi ráð fyrir að frumvarpið, verði það að lögum, muni bæta stöðu einhverra vímuefnaneytenda en líklegt sé að breytingarnar muni hafa áhrif á allt samfélagið. Borgin lýsir yfir áhyggjum af neikvæðum áhrifum á börn, unglinga og foreldra þeirra.
Þá segir borgin það gagnrýnisvert að ekki sé sett fram heildstæð stefna um forvarnir og aukna heilbrigðisþjónustu heldur eigi að bíða og sjá hver áhrif lagabreytingarinnar verði.
Í umsögninni metur borgin það svo að með afglæpavæðingu neysluskammta megi gera ráð fyrir að aðgengi að vímuefnum verði meira.
„Þó að það sé jákvætt að draga úr fordómum og neikvæðu viðhorfi til hópa sem neyta vímuefna er áhyggjuefni að það hafi einnig jákvæð áhrif til vÍmuefnanna sjálfra í samfélaginu og þá sérstaklega meðal unglinga. Það hefur verið reynslan að jákvæðari viðhorf geri það að verkum að fleiri prufi að nota efnin, þá bæði fullorðnir og unglingar,“ segir í upphaflegu umsögninni, sem Alexandra segir að hafi verið óþarflega neikvæð og líklega gætti misskilnings um tilgang löggjafarinnar.
Snýst um hvernig komið er fram við fólk í neyslu
„Þetta fjallar ekki um lögleiðingu almennt, þetta er ekki forvarnamál og samanburður við áfengiskaupaaldur er svolítið út úr kú líka þar sem þetta fjallar ekki um það heldur. Þetta er ekki lögleiðingarmál heldur snýst þetta um hvernig við höndlum fólk sem er í neyslu og hvort kerfið líti á þau sem glæpamenn eða fólk sem þarnast félagslegrar þjónustu og heilbrigðisþjónustu.“
Alexandra segir að umsagnarferlið hafi ekki verið nógu skýrt. „Það var fenginn hópur til að veita umsögn sem fór svo út en þetta fór aldrei fyrir pólitíkina. Við þurfum aðeins að skoða það í framtíðinni.“
Alexandra kom að uppfærðri umsögn sem send var til velferðarnefndar Alþingis í gær. Þar er tekið fram að Reykjavíkurborg styður frumvarp til afglæpavæðingar vörslu neysluskammta, „enda er það í góðu samræmi við samþykkta stefnumörkun borgarinnar þar sem áhersla er lögð á aðferðafræði skaðaminnkunar“.
Þau sem eru í nánari samskiptum við notendur fái sæti í starfshópi ráðherra
Í umsögninni er gerð athugasemd við samsetningu starfshóps sem lagt er til að heilbrigðisráðherra skipi til að hafa eftirlit með áhrifum og ávinningi af afglæpavæðingu vörslu neysluskammta vímuefna. Borgin leggur til að fulltrúar Rótarinnar - félags um velferð og lífsgæði kvenna, Frú Ragnheiðar sem vinnur í miklu návígi við hóp vímuefnaneytenda og VOR teymis velferðarsviðs Reykjavíkurborgar sem aðstoðar fólk sem er heimilislaust og með vímuefnavanda og geðvanda, eigi sæti í starfshópnum vegna innsýnar þeirra í áhrif frumvarpsins.
Þá bendir borgin á að verði frumvarpið samþykkt er um nokkra stefnubreytingu að ræða og telur borgin eðlilegt að í kjölfarið verði stefna stjórnvalda í málefnum áfengis- og vímuefna endurskoðuð heildrænt til að gæta samræmis. Einnig færi vel á að gera áhættumat með tilliti til barna og unglinga.
Frumvarpið var lagt fram á Alþingi í síðasta mánuði og er þetta í fjórða sinn sem Halldóra Mogensen, þingmaður Pírata, leggur fram frumvarp um afglæpavæðingu neysluskammta.
Svandís Svavarsdóttir, þáverandi heilbrigðisráðherra, lagði fram frumvarp um afglæpavæðingu neysluskammta í apríl 2021 og byggði það að hluta til á vinnu við og umsögnum um frumvarp Halldóru og meðflutningsfólks hennar. Til stóð að endurflytja frumvarpið með breytingum af Willum Þór Þórssyni heilbrigðisráðherra á síðasta þingi. Frumvarpið var hins vegar fellt niður af þingmálaskrá í mars.
Í svari ráðuneytisins til Kjarnans í vor vegna ákvörðunarinnar sagði að ráðherra hefði ákveðið að vinna að frekari útfærslu á frumvarpinu, meðal annars með því að skilgreina hugtakið neysluskammtur. Því hafi verið skipaður starfshópur. Hann hefur verið að störfum frá því í febrúar en ekki enn skilað tillögum.
Kristján Ernir Björgvinsson á sæti í hópnum og sagði hann í samtali við Kjarnann um síðustu helgi að hann væri óviss hvort hópnum takist ætlunarverk sitt, að skilgreina neysluskammta, ekki síst vegna tregðu lögreglunnar.