Í júní síðastliðnum höfðu borist 1.566 umsóknir um styrki til að greiða hluta launa á uppsagnarfresti til ríkissjóðs. Allar umsóknirnar hafa þegar verið afgreiddar en frestur til að sækja um styrkina er fyrir nokkru runninn út. Alls greiddi ríkissjóður um 12,2 milljarða króna í uppsagnarstyrki frá því að úrræðið var kynnt til leiks í fyrravor og þar til að það rann sitt skeið.
Úrræðið var kynnt af ríkisstjórninni 28. apríl í fyrra. Tilgangurinn átti að vera að veita ákveðnum fyrirtækjum, sem hefðu orðið fyrir miklu tekjutapi, styrki til að eyða ráðningarsamböndum við starfsfólk sitt. Þegar áformin voru kynnt lá ekkert frumvarp fyrir til að gera þau að lögum, ekkert kostnaðarmat hafði verið gert opinbert og engin kynning á áformunum hafði átt sér stað meðal þingflokka. Fyrirtæki hófu að segja fólki upp strax í kjölfarið, og áður en nýr mánuðum hæfist nokkrum dögum síðar.
Frumvarp var svo lagt fram um miðjan maí mánuð 2020 og kostnaðarmat kynnt samhliða. Það gerði ráð fyrir því að ríkissjóður myndi greiða fyrirtækjum sem uppfylltu sett skilyrði alls 27 milljarða króna í styrki til að hjálpa þeim að segja upp fólki. Yfirlýst markmið var að draga úr fjöldagjaldþrotum og tryggja réttindi launafólks, en styrkirnir stóðu þeim fyrirtækjum sem höfðu orðið fyrir að minnsta kosti 75 prósent tekjutapi til boða.. Hliðaráhrif eru að eign hluthafa er varin.
Félög tengd Icelandair fengu næstum 40 prósent
Lögin skylduðu opinbera aðila til að birta yfirlit yfir þau fyrirtæki sem fengu uppsagnarstyrki. Sá listi var birtur á heimasíðu Skattsins. Hann var síðast uppfærður í febrúar og nær því ekki yfir allar greiðslur sem greiddar voru út. Þorri þeirra var þó greiddur úr í fyrra – heildarumfang útgreiddra styrkja fór yfir tíu milljarða króna í október 2020 og þeir skriðu yfir 12 milljarða í febrúar 2021 – þannig að listi Skattsins veitir ágætt yfirlit yfir stærstu þiggjendur styrkjanna.
Bláa lónið fékk 603 milljón króna
Bláa Lónið fékk þriðju hæstu einstöku uppsagnarstyrkina, alls um 603 milljón króna vegna uppsagna 550 manns. Fjórða fyrirtækið sem fékk uppsagnarstyrki yfir hálfri milljón króna var Íslandshótel hf., sem fékk alls 593 milljónir króna fyrir að segja upp alls 468 starfsmönnum.
Hótel eru raunar fyrirferðamikil á listanum. Centerhotels fékk 266 milljónir króna, Keahótel 203 milljónir króna, Fosshótel 155 milljónir króna og Hótel Saga 114 milljónir króna.
Rútufyrirtækið Allrahanda, sem rekur vörumerkin Grey Line og Airport Express, fékk 191 milljónir króna og tvö félög tengd Kynnisferðum, sem reka vörumerkið Reykjavik Excursions, fengu samtals um 193 milljónir króna.
Önnur fyrirtæki á listanum sem fengu yfir 100 milljónir króna eru öll tengd ferðaþjónustu með einum eða öðrum hætti.