Lifnað hefur yfir ferðaþjónustunni það sem af er ári og ljóst er að hún er vöknuð af kórónuveirudvalanum. Til að mynda var heildarfjöldi farþega um Keflavíkurflugvöll í maí og júni samtals 120 þúsundum meiri en gert hafði verið ráð fyrir í síðustu farþegaspá Isavia sem birt var í fyrri hluta maí.
Þá hefur fjöldi brottfara erlendra ferðamanna sem hlutfall af fjölda ársins 2019 leitað hratt upp á við frá áramótum. Í janúar var þetta hlutfall 49 prósent en hlutfallið var komið upp í 90 prósent í júní. Sumarið 2019 var síðasta alvöru ferðaþjónustusumarið áður en kórónuveirufaraldurinn skall á á fyrri hluta ársins 2020.
Í júní var fjöldi brottfara erlendra ferðamanna frá Keflavíkurflugvelli rúmlega 176 þúsund samanborið við tæplega 195 þúsund í sama mánuði árið 2019. Fjöldi brottfara erlendra farþega frá Keflavíkurflugvelli er „enn frekari staðfesting á því að uppsveiflan í íslenskri ferðaþjónustu er hafin á ný,“ segir á vef Landsbankans.
12 prósent fleiri farþegar í júní en spáð hafði verið
Heildarfjöldi þeirra sem lögðu leið sína um Keflavíkurflugvöll var tæplega 694 þúsund í júní samkvæmt tölum sem Isavia birti í liðinni viku. Inni í þeirri tölu eru einnig íbúar landsins jafnt sem ferðamenn, auk skiptifarþega. Það eru rúmlega 12 prósent fleiri farþegar en Isavia hafði reiknað með í nýjustu farþegaspá sinni sem birt var þann 11. maí.
Fjöldi farþega í maí var einnig meiri en gert hafði verið ráð fyrir. Heildarfjöldi farþega um Flugstöð Leifs Eiríkssonar í þeim mánuði nam rétt rúmum 489 þúsundum en það eru níu prósent fleiri farþegar en spáð hafði verið fyrir um. Gert var ráð fyrir tæplega 448 þúsund farþegum í heild í maí.
Met í erlendri kortaveltu
Nýjasta farþegaspá Isavia er sú fyrsta sem gerð er eftir að kórónuveirufaraldurinn skall á. Í henni er gert ráð fyrir að heildarfjöldi farþega verði 5.7 milljónir á þessu ári. Enn sem komið er hefur fjöldi farþega í einstökum mánuðum verið umfram það sem spáð var, líkt og áður segir, svo líklegt má teljast að endanlegur fjöldi farþega verði meiri. Alls fóru rúmlega 7.2 milljónir farþega um Keflavíkurflugvöll árið 2019.
Til viðbótar við þetta má nefna tölur yfir erlenda greiðslukortaveltu sem birtar voru fyrr í þessum mánuði. Veltan hefur aldrei mælst eins mikil í júnímánuði líkt og í júní síðastliðnum þegar hún nam 28,3 milljörðum króna. Á vef Rannsóknarseturs verslunarinnar segir að hlutfall erlendrar kortaveltu í heildarkortaveltu hér á landi hafi verið 24,3 prósent í júní síðastliðnum. Þrátt fyrir metveltu er hlutfallið er lægra en það var í sama mánuði árið 2019, þá var hlutfallið 26,8 prósent.