„Það er of mikið vatn. Við munum drukkna.“
Neyðarkall þorpsbúa í Sehta Sehanj, þar sem flóðvatn úr stærsta jökullóni Pakistans hefur kaffært akra og eyðilagt hús, er átakanlegt. Þeir eru innlyksa og óttast um líf sitt. Manchar-vatn, jökullón í fjöllunum ofan þorpsins, hefur margfaldast að stærð síðustu vikur vegna gríðarlegra rigninga og mikillar jökulbráðar. Vatnið ruddist yfir sínar náttúrulegu stíflur í gær, í að minnsta kosti þriðja sinn á stuttum tíma.
Yfirvöld reyna hvað þau geta til að koma í veg fyrir að vatn úr Manchar-vatni ofan Sindh-héraðs brjótist ekki í gegnum stíflur og flæði yfir annað fjölmennasta hérað landsins, þar sem yfir 48 milljónir manna búa. Um síðustu helgi voru gerðar tilraunir með að „tappa af vatninu“ með því víkka skarð sem frárennsli þess fer um og beina því frá þéttbýlustu svæðunum. Reyna að forða milljónum frá stórflóði sem annars er líklegt. Þetta var ekki hættulaust; flóðvatn fór um þorp og olli eyðileggingu og hafði áhrif á um 135 þúsund íbúa þeirra. Reynt hafði verið að vara þá við en margir hafa á enga aðra staði að venda. Fólk neyddist hreinlega til að horfa á hús sín og eigur fara á kaf.
En Manchar-vatn heldur áfram að belgjast út. Og síðast í gær flæddi það yfir bakka sína, yfir skarðið, og niður á láglendið. Landbúnaðarráðherra Sindh-héraðs segir að áfram verði reynt að stýra flóðvatninu frá þéttbýlustu svæðunum en aðgerðirnar lofa ekki endilega góðu. Það er enn mikil hætta á því að náttúrulegar stíflur þess bresti algjörlega og að milljónir verði í hættu.
Sameinuðu þjóðirnar vara við því að neyðarástandið sem ríkt hefur í Pakistan síðustu vikur, þar sem um þriðjungur landsins hefur farið á kaf í vatn, eigi eftir að versna.
Hinar árstíðarbundnu monsún-rigningar hafa verið sögulega miklar. Úrkoman hefur mælst 190 prósent meiri en í meðalári síðustu þriggja áratuga. Og úrkomunni er misskipt eftir landshlutum. Í Sindh-héraði hefur úrkoman verið 466 prósent meiri en í meðalári.
Í ofanálag hafa sumarhitar verið óvenju miklir og jöklar landsins, sem skipta þúsundum í Himalaya-fjöllunum, bráðnað hratt.
Sum þorpin eru orðin að eyjum – flóðvatn umkringir þau algjörlega. Íbúar reyna að grafa skurði við hús sín í þeirri von að þeir geti hafst við í þeim. Aðrir eru orðnir húsnæðislausir. Hafa þurft að dvelja á víðavangi, uppi á klettum.
Yfir 1.300 manns hafa týnt lífi í flóðunum. Það er mjög varlega áætlað. 33 milljónir manna hafa orðið fyrir áhrifum af hamförunum sem hafa skolað burt húsum, brúm, vegum, fjarskiptainnviðum og flestu því sem á vegi vatnsins hefur orðið.
Og enn er von á rigningu. „Við óttumst að ástandið eigi enn eftir að versna,“ segir Inrika Ratwatte, yfirmaður Flóttamannahjálpar Sameinuðu þjóðanna í Afríku. Um hálf milljón Pakistana hefur misst heimili sín og tugir þúsunda til viðbótar orðið að leggja á flótta í algjörri óvissu um hvað taki við. Með þessu áframhaldi mun fólki í slíkum aðstæðum fjölga til muna.