Utanríkisráðherrar 28 Evrópusambandsríkja hafa verið boðaðir til fundar í Brussel þar sem umræðuefnið verður hryðjuverkaógn í Evrópu og stefnumörkun Evrópusambandsins til þess að draga úr henni. Aðalritari Arababandalagsins, Nabil al-Arabi, mun einnig mæta á fundinn til þess að taka þátt í umræðum, en Federica Mogherini, utanríkismálastjóri Evrópusambandsins, hefur kallað eftir því að Evrópuþjóðir starfi meira með Araba- og múslimaþjóðum til þess að ná betri árangri í aðgerðum gegn hryðjuverkum, samkvæmt frásögn breska ríkisútvarpsins BBC.
Fundurinn er boðaður á sama tíma og hryðjuverkaógn hefur verið viðverandi í Brussel, eftir að 17 óbreyttir borgarar voru drepnir í París, í árásum á ritstjórnarskrifstofu skopmyndaritsins Charlie Hebdo og verslunarkjarna Gyðinga. Opinberar byggingar í Brussel eru vaktaðar af lögreglu og þungvopnuðum hermönnum.
Eitt af því sem lögregluyfirvöld í Evrópu óttast er að evrópskir borgarar, sem hafa tekið þátt í hernaði í Írak og Sýrlandi, muni snúa aftur til baka og fremja morð og glæpi. Þúsundir Evrópubúa hafa farið til landanna tveggja, samkvæmt upplýsingum sem teknar hafa verið saman af yfirvöldum í Evrópuríkja.
Hér má sjá upplýsingar um fjölda fólks frá Evrópu, eða með ríkisborgararétt Evrópulands, sem tekið hefur þátt í átökum í Írak og Sýrlandi. BBC birti upplýsingarnar.