Utanríkisráðuneytið hefur ekki framkvæmt sjálfstæða rannsókn vegna umfjöllunar fjölmiðla um náin tengsl Aleksander Moshensky, kjörræðismanns Íslands í Hvíta-Rússlandi, við Alexander Lukashenko, forseta Hvíta-Rússlands. Ráðuneytið hefur þó ítrekað en án árangurs óskað sérstaklega eftir gögnum og upplýsingum sem Evrópusambandið kynni að búa yfir og rökstyddu hvers vegna kjörræðismaðurinn kynni að falla undir skilyrði þess fyrir beitingu viðskiptaþvingana.
Þetta er meðal þess sem fram kemur í svari Þórdísar Kolbrúnar Reykfjörð Gylfadóttur utanríkisráðherra við fyrirspurn Jóhanns Páls Jóhannssonar, þingmanns Samfylkingarinnar, um tengsl kjörræðismanns Íslands í Hvíta-Rússlandi og forseta Hvíta-Rússlands.
Í ítarlegri umfjöllun Stundarinnar sem birtist í síðasta mánuði undir yfirskriftinni „Ólígarkinn okkar“ eru íslensk stjórnvöld sögð hafa beitt sér gegn því að Evrópusambandið beitti Aleksander Moshensky, kjörræðismanni Íslands í Hvíta-Rússlandi, viðskiptaþvingunum.
Í skriflegu svari utanríkisráðherra í umfjöllun Stunfarinnar segir að „það hefur verið mat ráðuneytisins að það sé orðum aukið að kjörræðismaður Íslands sé mjög náinn bandamaður Lúkasjenkós“. Í fyrirspurn sinni til utanríkisráðherra spyr Jóhann Páll á hverju það mat ráðherra byggist?
Ítrekaðar tilraunir ráðuneytisins til að afla gagna frá ESB
Í svari ráðherra segir að að þrátt fyrir reglulegar viðbætur á lista vegna þvingunaraðgerða á árabilinu 2012 til 2022 er Moshensky ekki í hópi þeirra 183 einstaklinga frá Hvíta-Rússlandi sem sæta viðskiptaþvingunum samkvæmt ákvörðunum og regluverki Evrópusambandsins, þrátt fyrir að upplýsingar hafi borist um að nafn hans hafi komið til skoðunar á þeim vettvangi.
Í svarinu er einnig bent á að önnur ríki sem standa utan sambandsins hafa ekki heldur séð ástæðu til að setja kjörræðismanninn á lista vegna þvingunaraðgerða. „Þá hefur einnig komið fram að ráðuneytið hafi ítrekað en án árangurs óskað sérstaklega eftir gögnum og upplýsingum sem Evrópusambandið kynni að búa yfir og rökstyddu hvers vegna kjörræðismaðurinn kynni að falla undir skilyrði þess fyrir beitingu viðskiptaþvingana,“ segir í svarinu, auk þess sem ráðherra bendir á að Moshensky hafi sjálfur neitað ásökunum um náin tengsl við forsetann og svarað áburði um slíkt.
Jóhann Páll spurði ráðherra uk þess að því hvenær ráðuneytið kannaði tengsl Moshensky og Lukashenko, hvernig sú athugun fór fram og hvaða gagna var aflað. Í svari ráðherra kom fram að utanríkisráðuneytið hefur ekki framkvæmt sjálfstæða rannsókn vegna málsins.
„Eðli málsins samkvæmt fylgist ráðuneytið með slíkri umfjöllun og metur hverju sinni hvort ástæða sé til að gera breytingar á trúnaðarsambandi við þá kjörræðismenn sem starfa í umboði þess,“ segir í svari ráðherra, sem bendir á að ráðuneytið hafi gert ítrekaðar tilraunir til þess að afla upplýsinga um gögn sem hugsanlega lægju til grundvallar skoðunar á kjörræðismanninum. „Var þetta gert um leið og ráðuneytið varð þess áskynja að slík athugun væri í gangi á vegum Evrópusambandsins. Í greinargerð kjörræðismannsins sjálfs, sem hann sendi til Evrópusambandsins undir árslok 2020, leitast hann við að sýna fram á að ásakanir um náin tengsl við Lúkasjenkó eigi ekki við rök að styðjast,“ segir í svarinu.
Ísland kæri sig ekki um kjörræðismann sem á heima á refsilista
Þórdís Kolbrún kom fyrir stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis á föstudag þar sem samskipti íslenskra stjórnvalda við Evrópusambandið í aðdraganda birtingu lista yfir einstaklinga sem beittir voru efnahagsþvingunum vegna framferðis stjórnvalda í Hvíta-Rússlandi var meðal annars til umræðu. Ráðherra fullyrti að íslensk stjórnvöld hefðu ekki beitt sér í þágu Moshensky.
Hún sagði Ísland ekki kæra sig um að vera með kjörræðismann sem ætti heima á refsilista. „Það segir sig sjálft, það sér það hver maður. Það var eðlilegt að vilja vita hvort að hann væri það þótt svo að í þeim samskiptum hafi líka verið lýst áhyggjum af því að ef það væri svo þá hefði það áhrif á viðskiptalega hagsmuni Íslands. Það lá alveg fyrir vegna þess að bæði Ísland eins og önnur ríki líka, eða fyrirtæki innan þeirra, hafa átt í viðskiptum við Moshensky,“ sagði Þórdís Kolbrún á fundinum.