Alls voru flutt út 516 tonn af skyri til landa innan Evrópusambandsins í fyrra, samkvæmt tölum frá Hagstofu Íslands. Þetta er mun minna en á árunum 2019 og 2018 og langt frá því að fylla útflutningskvótann, sem hefur tífaldast á síðustu árum.
Betra skilaverð með skyrútflutningi
Samkvæmt Mjólkursamsölunni hefur verið unnið markvisst að því að auka útflutning og sölu á skyri til nágrannalanda Íslands á síðustu árum, þar sem mjólkurframleiðendur fái betra skilaverð á mjólkinni þannig heldur en með öðrum útflutningsleiðum.
Á þetta minntist einnig Einar Sigurðsson, fyrrum forstjóri Auðhumlu og MS, árið 2010, en samkvæmt honum er framlegð af útflutningi skyrs mun betri en í útflutningi undanrennudufts og svipuð framlegðinni af skyri á innanlandsmarkaði.
Meira flutt út og stærri kvóti
Á næstu árum margfaldaðist útflutningur á skyri til ESB-landa, úr 20 tonnum árið 2010 í 1.422 tonn árið 2018. Samhliða þessari aukningu beittu íslensk hagsmunasamtök sér fyrir því að tollfrjáls kvóti til Evrópu, sem var þá í 380 tonnum, yrði rýmkaður.
Samkvæmt skýrslu utanríkisráðuneytisins um milliríkjaviðskipti á búvörum leiddi þessi þrýstingur til þess að Ísland hóf samningaviðræður við ESB um aukið frelsi í viðskiptum með landbúnaðarvörur, árið 2012. Viðræðunum lauk svo með samningi sem var undirritaður árið 2015 og fól í sér stóraukinn útflutningskvóta á skyri.
Ákveðið var að auka kvótann úr 380 tonnum í tæp þúsund tonn árið 2018, rúm 2.000 tonn árið 2019 og svo rúm 3.000 tonn í fyrra. Í ár nemur tollfrjáls útflutningskvóti á skyri til ESB fjögur þúsund tonnum.
Hröð minnkun eftir 2018
Þrátt fyrir stærri kvóta á þessum árum hefur útflutningur á skyri til Evrópusambandsins hins vegar ekki aukist. Þvert á móti hefur hann minnkað hratt samkvæmt tölum Hagstofu um vöruútflutning eftir tollskrárnúmerum. Þannig dróst magn skyrútflutnings til ESB-landa saman um rúman þriðjung árið 2019 og nam þá 922 tonnum. Í fyrra dróst svo magnið aftur saman um tæpan helming og nam þá 516 tonnum. Þróunina má sjá á mynd hér að neðan.
Nýting íslenskra skyrútflytjenda á tollkvótum, sem var vel yfir 100 prósent á árunum 2012-2015 og árin 2017-2018, hefur því minnkað til muna. Árið 2019 nam nýtingin 42 prósentum samkvæmt Hagstofu, og lækkaði hún svo niður í 17 prósent í fyrra.
Þessar tölur gætu hins vegar ofmetið útflutning til Evrópusambandsins, þar sem þær telja með útflutning á skyri til Sviss. Samkvæmt tölum frá Evrópusambandinu fluttu Íslendingar aðeins út 100 tonn af skyri til ESB-landa árið 2019 og nýttu því einungis 4,5 prósent af útflutningskvótanum þá.