Árvakur, útgáfufélag Morgunblaðsins og tengdra miðla, var rekinn með 110 milljón króna hagnaði í fyrra, samkvæmt frétt sem birtist í blaðinu í dag. Þar segir enn fremur að móðurfélag Árvakurs, Þórsmörk, hafi verið rekið með 186 milljón króna hagnaði og að tekjur þess hafi aukist um 300 milljónir króna, upp í 4,9 milljarða króna, á síðasta ári. Ársreikningur félaganna tveggja fyrir árið 2021 hefur ekki verið birtur í ársreikningaskrá Skattsins.
Árvakur fékk rúmlega 81 milljónir króna í rekstrarstyrk úr ríkissjóði í fyrra.
Rekstrartap félagsins árið 2020 var 210,3 milljónir króna þrátt fyrir að það hafi fengið 99,9 milljónir króna í rekstrarstyrk úr ríkissjóði á því ári. Það er aðeins minna rekstrartap en árið áður þegar það var 245,3 milljónir króna.
Í Morgunblaðinu í dag er haft eftir Haraldi Johannessen, framkvæmdastjóra Árvakurs og annars ritstjóra Morgunblaðsins, að reksturinn hafi verið að þróast í rétta átt undanfarin rúmlega tvö ár eftir mjög erfið ár þar á undan og umfangsmiklar hagræðingaraðgerðir sem nú séu að skila sér í jákvæðri afkomu.
Keyptu húsnæðið á 1,6 milljarða króna
Í Morgunblaðinu í dag segir enn fremur frá því að annað dótturfélag Þórsmerkur, Ár og Dagur ehf. hafi keypt húsnæðið sem ritstjórnarskrifstofur Árvakurs eru til húsa í Hádegismóum á tæplega 1,6 milljarð króna af fasteignafélaginu Regin. Dótturfélag Þórsmerkur á einnig prentsmiðju sem er við hlið húsnæðisins.
Samnefnt félag, Ár og Dagur ehf., var eitt sinn útgáfufélag fríblaðs sem bar nafnið Blaðið. Árvakur keypti þá útgáfu í tveimur skrefum fyrir bankahrun og breytti nafni fríblaðsins í 24 Stundir. Það blað hætti að koma út í sömu viku og bankarnir féllu í október 2008. Núverandi Ár og Dagur ehf. var hins vegar stofnað 2008. Samkvæmt ársreikningi átti það félag eignir upp á 262 þúsund krónurum síðustu áramót í formi kröfu á tengdan aðila og skuldaði ekkert. Í ársreikningi Árvakurs 2020 er félagið sagt ekki vera í rekstri.
Hlutafé aukið í upphafi árs
Kjarninn greindi frá því í mars að hlutafé í Þórsmörk hafi verið aukið um 100 milljónir króna þann 31. janúar síðastliðinn. Aðilar tengdir Ísfélagi Vestmannaeyja og félag í eigu Kaupfélags Skagfirðinga greiddu stærstan hluta hennar.
Þetta var í þriðja sinn frá árinu 2019 sem nýtt hlutafé er sett inn í rekstur fjölmiðlasamsteypunnar til að mæta taprekstri hennar. Í byrjun árs 2019 var hlutaféð aukið um 200 milljónir króna. Kaupfélag Skagfirðinga og félög tengd Ísfélagi Vestmannaeyja lögðu til 80 prósent þeirrar aukningar. Sumarið 2020 var hlutaféð aukið um 300 milljónir króna og kom allt féð frá þeim eigendahópi sem var þegar til staðar. Að viðbættri þeirri hlutafjáraukningu sem ráðist var í í upphafi árs hefur móðurfélagi Árvakurs því verið lagt til 600 milljónir króna á þremur árum.
Frá því að nýir eigendur tóku við rekstri Árvakurs í febrúar 2009 undir hatti Þórsmerkur og til loka árs 2020 hefur útgáfufélagið tapað yfir 2,5 milljörðum króna. Eigendahópurinn, sem hefur tekið einhverjum breytingum á tímabilinu, hefur nú lagt Árvakri til samtals tvo milljarða króna í nýtt hlutafé.
Þegar nýju eigendurnir tóku við rekstrinum var Morgunblaðið, flaggskip útgáfunnar, lesið af rúmlega 40 prósent þjóðarinnar. Í síðustu birtu mælingu Gallup á lestri prentmiðla var sá lestur kominn niður í 18,3 prósent og hefur aldrei mælst lægri. Lestur blaðsins hjá 18-49 ára mælist 10,3 prósent.
Vefur útgáfunnar, Mbl.is, var lengi vel mest lesni vefur landsins en síðustu misseri hefur Vísir.is, vefur í eigu Sýnar, stöðugt mælst með fleiri notendur.