Heildarútgjöld hins opinbera, bæði ríkisins og sveitarfélaga, voru 1.461 milljarðar króna í fyrra. Þau hækkuðu um 138 milljarða króna á síðasta ári og má rekja þá hækkun að stórum hluta til kórónuveirufaraldursins, sem hefur útheimt stóraukin kostnað við greiðslu atvinnuleysisbóta og vegna annarra efnahagsaðgerða sem stjórnvöld hafa gripið til vegna hans. Útgjöld hins opinbera hafa þó lengi verið að vaxa ár frá ári, óháð því hvort stórkostleg efnahagsáföll séu að skella á þjóðarbúskapnum. Frá árinu 2014 hafa útgjöldin til að mynda hækkað um 52,5 prósent, farið úr 958 milljörðum króna í 1.461 milljarð króna.
Þegar þessum tölum er deilt niður á íbúa kemur í ljós að þau voru tæplega þrjár milljónir á hvern þeirra ári 2014 en voru yfir fjórar milljónir króna í fyrra, og jukust þar af leiðandi um 36,4 prósent.
Þetta kemur fram á vefnum opinberumsvif.is sem opnaður var í síðustu viku. Þar er hægt að finna lykiltölur um rekstur hins opinbera. Gögn síðunnar eru sótt til Hagstofu Íslands, Skattsins og Fjársýslunnar, sem hefur yfirumsjón með bókhaldi og uppgjöri ríkissjóðs.
Útgjöld ríkissjóðs aukist um 373 milljarða
Útgjaldaaukningin hefur, í krónum talið, verið mest hjá ríkissjóði. Heildarútgjöld hans voru 718 milljarðar króna árið 2014 en í fyrra voru þau orðin 1.091 milljarðar króna og höfðu þar með aukist um 373 milljarða króna, eða 52 prósent. Gjöld ríkissjóðs á hvern íbúa fóru úr um 2,2 milljónum króna árið 2014 í um þrjár milljónir króna á hvern íbúa á ári í fyrra.
Ef tölurnar frá 2014 eru miðaðar við stöðu mála á árinu 2019, áður en kórónuveirufaraldurinn skall á, þá er staðan samt sem áður sú að gjöldin höfðu aukist um 249 milljarða króna á ári.
Gjöld innheimt af ríkissjóði á hvern íbúa voru komin upp í 2,7 milljónir króna á ári 2019, og höfðu þar með hækkað um 23 prósent frá lokum árs 2014.
Gjöld sveitarfélaga landsins hafa hækkað úr 274 milljörðum króna árið 2014 í 422 milljarða króna í fyrra, eða um 148 milljarða króna, sem gera 54 prósent hækkun. Gjöld á hvern íbúa þeirra hafa farið úr 841 þúsund krónum á ári í 1.160 þúsund krónur á ári á tímabilinu.
Ef miðað er við árið 2019, áður en kórónuveirufaraldurinn skall á, á jukust gjöld sem sveitarfélög landsins innheimtu af íbúum sínum úr um 129 milljarða króna, eða um 47 prósent. Hjá sveitarfélögunum fór stærstur hluti útgjalda í fyrra í menntamál, eða 34 prósent, og 15 prósent fer í mennta- íþrótta og trúmál. Þá fara um tíu prósent í vegasamgöngum. Hjá ríkinu fór hins vegar um 26 prósent heilbrigðismál á árinu 2019 en það hlutfall var 22 prósent árið 2014.