Kjörstöðum hefur verið lokað í Svíþjóð, en þar fara fara fram þingkosningar í dag. Útgönguspá sænska ríkissjónvarpsins SVT var birt um leið og kjörstöðum var lokað og sýnir hún að flokkarnir fjórir sem tilheyra vinstriblokkinni eru með þingmeirihluta, sem er rýmri en síðasta skoðanakönnun á vegum SVT sýndi, eða 176 þingsæti gegn 173.
Sósíaldemókratar eru stærstir samkvæmt útgönguspánni, með 29,3 prósent atkvæða og Svíþjóðardemókratar eru með 20,5 prósent, samkvæmt spánni. Enginn af minni flokkunum á þingi virðist eiga í mikilli hættu á að falla undir fjögurra prósenta þröskuldinn svokallaða, ef það mun gerast myndi það gjörbreyta stöðunni. Frjálslyndi flokkurinn (Liberalarna) er sá flokkur sem er næst því að falla undir þröskuldinn, en flokkurinn mælist með 4,7 prósenta fylgi samkvæmt útgönguspánni.
Afar mjótt er á munum, en samanlagt fylgi rauðgrænu blokkarinnar er 49,8 prósent gegn 49,2 prósent fylgi flokkanna hægra megin við miðju.
Útgönguspá SVT árið þingkosningarnar 2018 var ekkert sérlega langt frá því að spá fyrir um úrslit kosninganna hjá flestum flokkum, þó með þeim undantekningum að Svíþjóðardemókratar mældust um hátt í tveimur prósentustigum undir raunverulegu kjörfylgi í útgönguspánni og Sósíaldemókratar og Hægriflokkurinn (Moderatarna) voru mældir stærri í útgönguspánni en raunin varð, þegar atkvæði höfðu verið talin.
Allt verið innan skekkjumarka samkvæmt könnunum
Undanfarnar vikur hefur verið útlit fyrir að kosningar dagsins yrðu afar spennandi. Síðustu skoðanakannanir í aðdraganda kosninganna sýndu að svo virtist sem meirihluti vinstri blokkarinnar á þingi gæti haldið, en að það yrði þá líklega með miklum naumindum. Sú er staðan samkvæmt útgönguspánni.
Samkvæmt síðustu skoðanakönnun rannsóknafyrirtækisins Novus fyrir SVT, sem birt var á föstudag, mældist rauðgræna blokkin vinstramegin við miðju, Sósíaldemókratar, Vinstriflokkurinn, Græningjar og Miðflokkurinn, með 49,7 prósent fylgi. Borgaralegu öflin á hægri vængnum, auk Svíþjóðardemókrata, mældust á sama tíma með 49,4 prósent fylgi samanlagt.
Þau úrslit hefðu samkvæmt útreikningum SVT skilað vinstriblokkinni 175 þingsætum gegn 174 þingsætum borgaralegu aflanna og Svíþjóðardemókrata, sem eygja eftir þessar kosningar í fyrsta sinn möguleika til áhrifa eftir að hafa áður verið úti í kuldanum í sænskum stjórnmálum, en á undanförnum misserum hafa flokkar á hægri væng sænskra stjórnmála opnað á samstarf við flokkinn.