Það sem af er ári hafa útlán banka til heimila aukist um níu til ellefu prósent, og er vöxturinn nær einvörðungu tilkominn vegna aukinna íbúðalána. Hækkandi stýrivextir, sem hafa farið ur 0,75 prósent í vor í 2,0 prósent nú, hafa gert það að verkum að hlutdeild endurfjármögnunar hefur minnkað.
Útlán til fyrirtækja hafa hins vegar dregist saman frá byrjun árs 2021 og á þriðja ársfjórðungi þess árs var stofn útlána banka til fyrirtækja 2,9 prósent minni en hann var á sama tíma árið áður og um eitt prósent minni að teknu tilliti til áhrifa gengisbreytinga á fyrirtækjalán í erlendum gjaldmiðlum.
Þar segir að útlán til nær allra atvinnugreina hafi dregist saman þrátt fyrir að efnahagsumsvif hafi tekið kröftuglega við sér. Markaðsfjármögnun fyrirtækja ásamt fjármögnun í gegnum sérstaka fagfjárfestasjóði hafi þó að einhverju leyti vegið á móti samdrætti útlána.
Svigrúmið nýtt til íbúðalána
Tölurnar sýna að íslensku bankarnir nýttu það aukna svigrúm sem þeir fengu með lækkun á eiginfjárkvöðum eftir að kórónuveirufaraldurinn skall á í að lána heimilum til húsnæðiskaupa. Hlutdeild banka í útistandandi íbúðalánum er nú um 70 prósent en var 55 prósent í byrjun árs 2020.
Samhliða hefur orðið eðlisbreyting á lántökum landsmanna við það að hlutfall óverðtryggðra lána af öllum íbúðalánum hefur hækkað gríðarlega. Það var 27,5 prósent í byrjun árs 2020 en er nú komið yfir 50 prósent. Hlutfall lána sem er á breytilegum vöxtum, og fylgir því stýrivaxtahækkunum, hefur sömuleiðis aldrei verið hætta. Í Peningamálum segir enda að „áhrif vaxtabreytinga Seðlabankans koma því fyrr fram en áður og ljóst er að nýlegra vaxtahækkana er þegar farið að gæta í greiðslubyrði hluta heimila.“
Hefur stóraukið hagnað bankanna
Þessi þróun hefur vigtað umtalsverð inn í það að kerfislega mikilvægu bankarnir þrír: Landsbankinn, Arion banki og Íslandsbanki, hafa skilað meiri hagnaði á fyrstu níu mánuðum ársins, um 60 milljörðum króna, en þeir hafa gert innan árs frá árinu 2015. Þar skipta vaxtatekjur vegna aukinna íbúðarlána langmestu máli. Vaxtaálag á íbúðalán hefur enda haldist tiltölulega stöðugt.
Arion banki hefur samhliða greint frá því að bankinn stefni að því að losa um 88 milljarða króna til hluthafa sinna í gegnum endurkaup á bréfum og arðgreiðslur frá byrjun árs 2021 og þar til boðuðu útgreiðsluferli bankans verður lokið.