Grísk stjórnvöld hafa sent inn beiðni um að Ísland taki við 15 einstaklingum, barnafjölskyldum frá Sýrlandi sem eru staðsett í Lesbos á Grikklandi, og er Útlendingastofnun nú að vinna í því í samráði við grísk stjórnvöld að staðfesta uppruna einstaklinganna. Þegar sú staðfesting liggur fyrir verður hafist handa við að undirbúa fjölskyldurnar undir flutning til Íslands í samstarfi við Alþjóðlegu fólksflutningastofnunina (IOM).
Þetta kemur fram í svari Ásmundar Einars Daðasonar, félags- og barnamálaráðherra, við fyrirspurn Rósu Bjarkar Brynjólfsdóttur, þingmanns Samfylkingarinnar. Rósa Björk spurði ráðherrann um hvort það lægi fyrir hvenær flóttafólkið sem ríkisstjórnin samþykkti í lok september 2020 að taka á móti frá Lesbos á Grikklandi og bjó áður í flóttamannabúðunum Moria sem eyðilögðust í eldsvoða, væri væntanlegt til landsins.
Samþykkt að taka við fleirum mánuðum eftir að COVID-19 hófst
Ríkisstjórn Íslands samþykkti þann 25. september síðastliðinn að Ísland tæki á móti flóttafólki frá Lesbos á Grikklandi, með áherslu á sýrlenskar fjölskyldur í viðkvæmri stöðu. Fram kom í tilkynningu á vef Stjórnarráðsins að fjölskyldurnar hefðu áður búið í flóttamannabúðunum Moria sem eyðilögðust í eldsvoða fyrr í mánuðinum.
Í tilkynningu stjórnvalda frá því í september sagði að flóttafólkið frá Lesbos, sem yrði allt að 15 manns, myndi bætast í hóp þeirra 85 sem ríkisstjórnin hygðist taka á móti á þessu ári og væri það langfjölmennasta móttaka flóttafólks á einu ári hingað til lands.
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra sagði á sínum tíma að ríkisstjórnin vildi bregðast við ákalli því sem borist hefði um að taka á móti fólki á flótta frá Lesbos. „Hér á landi hefur skapast umfangsmikil og dýrmæt þekking þegar kemur að móttöku sýrlenskra fjölskyldna og sú reynsla okkar kemur að góðum notum. Það er stefna ríkisstjórnarinnar að taka á móti fleira flóttafólki í samstarfi við Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna sem lýst hefur ánægju með móttöku flóttafólks hér á landi.“
Áttu að vera 100 en urðu núll
Þegar Kjarninn spurðist fyrir um það í febrúar síðastliðnum hversu margir þeirra 100 sem stjórnvöld höfðu tilkynnt opinberlega að tekið yrði á móti í fyrra væru komnir hingað til lands var svar félags- og barnamálaráðuneytisins það að ekki hafi verið mögulegt að taka á móti kvótaflóttafólki á síðasta ári vegna COVID-19 faraldursins. Það væri hins vegar unnið „hörðum höndum að því að taka á móti hópnum á fyrri hluta þessa árs“.
Á árinu 2019 var tekið á móti 74 flóttamönnum á Íslandi, en fram kom fréttum í lok ársins að íslensk stjórnvöld myndu bjóðast til að taka á móti 85 manns. Einkum væri um að ræða Sýrlendinga og hópa viðkvæmra flóttamanna vegna kynferðis eða fjölskylduaðstæðna frá Kenía.