Efri deild franska þjóðþingsins hefur samþykkt að afnema útvarpsgjaldið sem notað er til að fjármagna rekstur franskra ríkisfjölmiðla, en afnám útvarpsgjaldsins var eitt af kosningaloforðum Emmanuels Macron Frakklandsforseta í nýlega afstöðnum forsetakosningum í landinu.
Þingið tók þessa ákvörðun í nótt, með 196 atkvæðum gegn 147, en umræður um málið stóðu yfir fram yfir miðnætti og voru nokkuð heitar, samkvæmt endursögn breska blaðsins Guardian og umfjöllun vefmiðilsins Deadline. Áður hafði neðri deild þingsins samþykkt málið fyrir rúmri viku síðan.
Stjórnarandstæðingar úr röðum vinstrimanna í efri deildinni settu fram áhyggjur af framtíðarfjármögnun og sjálfstæði almannasjónvarps- og útvarps í landinu.
Sumir þingmenn á hægri kantinum voru jafnframt gagnrýnir á umræðuna í þinginu, sögðu hana hafa verið laka að gæðum og að rétt væri að eiga almennilegt samtal um frekari yfirhalningu á fyrirkomulagi ríkisfjölmiðlunar í Frakklandi.
Marine Le Pen, sem bauð sig fram gegn Macron í forsetakosningunum, var með það á stefnuskrá sinni ganga enn lengra og einkavæða ríkisfjölmiðlana í Frakklandi, sem eru sjónvarpssamsteypan France Télévisions og útvarpsstöðvar sem reknar eru undir hatti Radio France.
Flatt 19 þúsund króna gjald á alla sem eiga sjónvarp
Franska útvarpsgjaldið hefur verið 138 evrur, jafnvirði rúmlega 19 þúsund íslenskra króna, og hefur verið greitt af öllum þeim heimilum sem skráð eru fyrir sjónvarpstæki í Frakklandi. Það eru um 23 milljónir heimila um þessar mundir. Gjaldið var fyrst sett á árið 1933 til þess að fjármagna almannaútvarp og var svo útvíkkað til þess að fjármagna sjónvarpsútsendingar árið 1946.
Það verður ekki innheimt í október næstkomandi eins og stóð til, og þeir sem höfðu ákveðið að greiða það snemma munu fá endurgreitt.
Í frétt Guardian kemur fram að menningarmálaráðherrann Rima Abdul Malak hafi komið því á framfæri í umræðunum að ríkisstjórnin myndi standa vörð um fjármögnun ríkisfjölmiðlanna á meðan að áætlanir lengra inn í framtíðina yrðu teiknaðar upp.
Hún sagði að ákveðið hefði verið að láta ákveðið brot af innheimtum virðisaukaskatti renna til reksturs ríkisfjölmiðlanna til skamms tíma, alls um 3,7 milljarða evra, sem er svipað mikið og útvarpsgjaldið hefur skilað í ríkiskassann árlega.
Gagnrýnendur benda á að þetta sé einungis tímabundin fjármögnun fram til ársloka árið 2024. Alls óvíst sé hvernig til standi að fjármagna ríkisfjölmiðla Frakklands að því loknu og mögulega verði slagkrafturinn í starfsemi þeirra háður duttlungum stjórnmálamanna hverju sinni.
Framkvæmdastjóri EBU segist hafa áhyggjur
Noel Curran, framkvæmdastjóri Samtaka evrópska sjónvarpsstöðva (EBU), hefur áhyggjur af stöðunni, þar sem óljóst sé hvernig sjálfstæði frönsku ríkisfjölmiðlanna verði tryggt.
Hann segir í samtali við fjölmiðilinn Deadline að þessar breytingar í Frakklandi, og sömuleiðis endurskoðun á fjármögnun BBC sem nú stendur yfir í Bretlandi, geti haft áhrif í öðrum ríkjum, þar sem Frakkland og Bretland státi af stærstu almannaþjónustufjölmiðlum álfunnar.
Samkvæmt EBU voru heildartekjur evrópska ríkisfjölmiðla 35,5 milljarðar evra árið 2020 og höfðu tekjurnar dregist saman um 7 prósent að raunvirði á fimm ára tímabili.