„Vægi loftslagsmálanna minnkar ekki þessa dagana. Margir töldu að áhrif COVID-19 yrðu þannig að það leiddi til minni losunar, meðal annars út af samgöngum og öðru slíku, en þvert á móti jókst losun á heimsvísu en minnkaði ekki á árunum 2019 og 2020 samkvæmt nýjum tölum. Ástæðan var aukin vinnsla jarðefnaeldsneytis í orkuframleiðslu, að hluta til til að vega upp á móti neikvæðum áhrifum COVID-19.“
Þetta sagði Ari Trausti Guðmundsson, þingmaður Vinstri grænna, undir liðnum störf þingsins á Alþingi í vikunni.
Benti hann enn fremur á að fréttir af jöklum heims væru heldur ekki góðar. „Þeir halda áfram að minnka og nú bætir í hækkun sjávarborðs sem nemur 0,75 millimetrum á ári. Með öðrum orðum bætir verulega í. Íslenskir jöklar halda áfram að minnka. Árið 1890 var flatarmál þeirra 12.600 ferkílómetrar, 2019 eru það 10.400 ferkílómetrar. Þeir hafa því minnkað um 2.200 ferkílómetra eða 18 prósent.“
Þá taldi þingmaðurinn að auðvitað væru einhverjar ljóstírur í þessu öllu saman. „Bandaríkin eru komin aftur að Parísarsamkomulaginu. Önnur stórveldi, mestu mengunarvaldarnir, þ.e. Rússland, Kína og Indland, segjast miða við Parísarsamkomulagið eins og áður en þau þurfa auðvitað að sanna að þær áætlanir standist. Við hér höldum máli. Við getum minnkað samdrátt okkar um 45 til 50 prósent fram til 2030 samkvæmt aðgerðaáætlun þar um.“
Vildi hann minna á að það væri líka til önnur leið sem væri að auka kolefnisbindingu, bæði með skógrækt og endurheimt votlendis. „Ef við stöndum við það sem við höfum samþykkt af áætlunum og gerum aðeins betur höfum við að minnsta kosti staðið við okkar skerf,“ sagði hann að lokum