Valkostir varðandi lagabreytingar tengdar sóttvarnareglum á landamærunum voru til umræðu á ríkisstjórnarfundi í morgun. Einnig var þar til umræðu tölfræði varðandi vottorð við landamæri.
Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra sagði í samtali við Vísi eftir ríkisstjórnarfund í morgun að hún hygðist boða til blaðamannafundar í dag. Í frétt RÚV segir að fundurinn muni fjalla um aðgerðir sem tengist faraldrinum.
65 einstaklingar hafa greinst með COVID-19 innanlands frá því á föstudag, þar af 21 í gær. Flestir sem greindust þá líkt og daginn áður voru innan sóttkvíar en Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir sagði á upplýsingafundi almannavarna og landlæknis í gær að sóttkví þeirra hefði varað stutt, aðeins í 1-2 sólarhringa.
Vísir hefur einnig eftir Áslaugu Örnu Sigurbjörnsdóttur dómsmálaráðherra að ekki væri viðbúið að reglur innanlands yrðu hertar.
Auglýsing