Hægagangur í evrópska hagkerfinu er farinn að hafa mikil neikvæð áhrif á horfur í alþjóðahagkerfinu, samkvæmt umfjöllunum sem birst hafa í fagtímaritum um efnahagsmál og viðskipti að undanförnu. Tölur sem sýndu 5,8 prósent minnkun útflutningstekna þýska hagkerfisins í ágústmánuði, miðað við árið á undan, þykja til marks um að þörf sé á miklum örvunaraðgerðum til viðbótar við þær sem þegar hefur verið gripið til. Kreppa er jafnvel sögð handan við hornið, það er neikvæður hagvöxtur, ef ekki verður brugðist við.
Seðlabanki Evrópu hefur tilkynnt að bankinn muni hugsanlega liðka fyrir aðgengi fyrirtækja í Evrópu að fjármagni, með örvunaraðgerðum, ef þörf verður á. Þessum fréttum var vel tekið á markaði í gær, bæði í Evrópu og Bandaríkjunum. Vísitala Nasdaq hækkaði um 2,4 prósent, sem er mesta dagshækkun frá því í janúar 2013, eftir þessi annars lágstemmda yfirlýsing kom fram. Tíu dagarnar þar á undan höfðu verið þeir verstu á mörkuðum frá því árið 2009, þegar flestir markaðir voru í frjálsu falli. Þá hefur verðlækkun á olíu í byrjunar mánaðarins verið til marks um dvínandi eftirspurn, en undanfarna daga hefur verið lítið eitt hækkað, eftir ríflega 17 prósent lækkun á þriggja vikna tímabili.
Atvinnuleysi mælist ríflega tíu prósent að meðaltali í Evrópusambandsríkjunum, mest í Suður-Evrópu en minna eftir því sem norðar dregur. Hræðslan hjá fjárfestum snýr öðru fremur að því að ekki sé að takast að skapa hagvöxt, og þar með ný störf í álfunni. Einn þeirra sem hefur miklar áhyggjur af þróun mála er Eric S. Rosengren, einn æðstu stjórnenda bandaríska seðlabankans. Hann viðraði áhyggjur sínar opinberlega á dögunum. Hans áhyggjur felast öðru fremur í því að fyrirtæki í Evrópu séu ekki að vaxa nóg, eftirspurn sé ekki nægilega mikil. Þegar kemur að ríflega 500 milljóna íbúasvæði þá getur þetta verið risavaxið vandamál fyrir heimsbúskapinn.
Verðbólgumælingar fyrir evrusvæðið hafa verið í takt við spár, en þær nýjustu sýna minnstu verðbólgu á evrsvæðinu sem mælst hefur frá því í janúar 2009, 0,3 prósent. Þetta veldur að einhverju leyti áhyggjum, því verðhjöðnun er skammt undan, það er neikvæð verðþróun. Samkvæmt upplýsingum sem hagstofa Evrópu, Eurostat, birti 17. október síðastliðinn, þá minnkaði framleiðsla iðnfyrirtækja um 1,4 prósent milli ára.
Stöðugur lítill hagvöxtur á evrusvæðinu, lítil fjölgun starfa og dvínandi eftirspurn eru helstu áhyggjuefnin.