Teitur Björn Einarsson, varaþingmaður Sjálfstæðisflokks og aðstoðarmaður ríkisstjórnarinnar, tók upp hanskann fyrir fiskeldi í opnum sjókvíum á Alþingi í dag, undir liðnum störf þingsins og sagði að sú atvinnugrein væri „vandfundin á Íslandi“ sem sætti meira eftirliti hins opinbera.
Í ræðu sinni vék Teitur að því að ýmis fyrirtæki og óskráð hagsmunasamtök hefðu nýlega skorað á matvælaráðherra um að stöðva fiskeldi í opnum sjókvíum, og taldi ástæðu til að áretta í ræðustól Alþingis að það væri „Alþingi, ekki ráðherra, sem hefur sett greininni lagaumgjörð sem hún starfar eftir og auðvitað er það Alþingi en ekki ráðherra sem getur breytt því“.
„Hún er vandfundin sú atvinnugrein á Íslandi sem starfar við meira eftirlit, takmarkanir, kvaðir og gjaldtöku en fiskeldisgreinin. Markmið laganna er að stuðla að uppbyggingu fiskeldis af ábyrgð þar sem sjálfbær þróun og vernd lífríkis er höfð að leiðarljósi á grundvelli vísinda og rannsókna. Þetta er sú stefna sem mín góða ríkisstjórn er að starfa eftir,“ sagði Teitur Björn um atvinnugreinina í ræðu sinni.
Hann bætti því við að þau „hagsmunaöfl“ sem sent hefðu ákallið til ráðherra fyrir skemmstu héldu því fram að „umhverfi og þeirra hagsmunum stafi veruleg ógn af fiskeldi“.
„Þetta er einfaldlega rangt, herra forseti,“ sagði Teitur Björn, sem í ræðu sinni minntist ekkert á eina helstu ástæðu þess að fyrirtæki og hagsmunaaðilar sendu ákallið til ráðherra, nýlegar fréttir af 120 milljóna króna stjórnvaldssekt sem lögð var á fyrirtækið Arnarlax í kjölfar þess að það gat ekki gert grein fyrir örlögum ríflega 80 þúsund laxfiska sem sluppu úr sjókví fyrirtækisins í Arnarfirði.
Meint „bakteríumotta“ í Dýrafirðinum
Hann tók hins vegar annað dæmi af rannsóknum, úttektum, mælingum og vöktunum fiskeldisgreinarinnar og sagði að fulltrúi einna samtakanna sem nú beittu sér gegn sjókvíaeldinu hefði fullyrt að hafsbotninn í Dýrafirði undir eldiskvíum væri „ein stór bakteríumotta þar sem ekkert annað þrífst“.
Vísaði Teitur Björn þarna til ummæla sem Elvar Örn Friðriksson framkvæmdastjóri Verndarsjóðs villtra laxa lét eftir sér hafa í nýlegu viðtali á Hringbraut, en í ritstjórnargrein í vestfirska vefmiðlinum Bæjarins besta sem birtist í morgun voru fullyrðingar Elvars Arnar bornar til baka með vísan í eftirlitsskýrslur Umhverfisstofnunar.
„En hvað segja rannsóknir og athuganir óháðra eftirlitsaðila? Jú, fjörðurinn fær fyrstu einkunn, ástand fjarðarins er gott. Hverju ætlar fólk að trúa hér, upphrópunum og áróðri eða óháðu eftirliti og úttektum sem eru birtar opinberlega?“ sagði Teitur Björn.
„Það er mjög miður að þessi hagsmunaöfl virðast engu skeyta um afkomu og velferð fjölda fólks í byggðum landsins og tefla því til að mynda fram að hagsmunir eigenda eyðibýla á Hornströndum eigi frekar að ráða för, svæði sem fór einmitt í eyði af því að efnahagslegur grundvöllur þess brast. Það skal ekki henda aftur á Vestfjörðum,“ sagði Teitur Björn í ræðu sinni.