Chris Matthews átti góðan leik fyrir Seattle Seahawks í gær í leiknum um Ofurskálina, Super Bowl, en New England Patriots stóð engu að síður uppi sem sigurvegari, 28-24, eftir jafnan og spennandi leik, einkum framan af.
Matthews greip sendingar í fjögur skipti í erfiðri aðstöðu og var einn þeirra sem kom til greina sem maður leiksins áður en leikstjórnandinn frábæri, Tom Brady, tók til sinna ráða og stýrði sínu liði til sigurs, með vel útfærðum sóknum gegn bestu vörn í sögu NFL, múrnum hjá Seattle Seahawks.
Saga Matthews er með nokkrum ólíkindum, en hún var rakin í umfjöllun Sports Illustrated í fyrra. Hann hætti í NFL árið 2011 eftir að Cleveland Browns skar hann niður úr leikmannahópi sínum. Hann freistaði gæfunnar í mun lélegri deild í Kanada, áður en hann hætti alveg að æfa íþróttina.
Hann ákvað að byrja nýtt líf og réð sig sem öryggisvörð í skóverslun Foot Locker-keðjunnar. Dag einn í fyrra hringdi starfsmaður Seattle Seahawks í hann og bað hann um að koma á æfingu hjá liðinu, þar sem þjálfarinn teldi að eiginleikar hans geti fallið vel að leik liðsins. Hann geti komið með næsta flugi. Matthews hikaði þá, og sagðist ekki vita hvort hann gæti komið, þar sem hann þyrfti að mæta til vinnu. Umboðsmaður hans fékk síðan fregnir af málinu, og brást við, alveg óður. „Ertu gjörsamlega galinn? Taktu til dótið þitt og farðu!“ sagði hann ákveðinn.
Hann náði fluginu og komst að lokum í æfingahópinn hjá liðinu. Hann toppaði síðan ótrúlega endurkomu sína í NFL með frábærum leik í gær - þó það hafi ekki dugað til sigurs.
https://www.youtube.com/watch?v=971F4OqnZuw