Seðlabankinn hefur hleypt af stokkunum nýrri vefútgáfu sem ber heitið Kalkofninn. Í tilkynningu á vef bankans, nokkurs konar kynningargrein ritstjóra, segir að Kalkofninum sé ætlað að vera vettvangur fyrir stuttar og aðgengilegar greinar um verkefni og verksvið Seðlabankans. „Hér mun sérfræðingum og stjórnendum bankans gefast tækifæri til að fjalla um það sem efst er á baugi í starfsemi bankans og vekja athygli á, draga saman og skýra greiningar bankans, breytingar á löggjöf og kröfur til eftirlitsskyldra aðila,“ segir í tilkynningunni.
Útgáfunni er ritstýrt af varaseðlabankastjórum Seðlabanka Íslands en þeir eru Gunnar Jakobsson, varaseðlabankastjóri fjármálastöðugleika, Rannveig Sigurðardóttir, varaseðlabankastjóri peningastefnu, og Unnur Gunnarsdóttir, varaseðlabankastjóri fjármálaeftirlits. Markmiðið með útgáfu Kalkofnsins er að stuðla frekar að vandaðri og upplýstri umræðu um málefnasvið Seðlabankans, auka framboð á aðgengilegu efni um starfsemi og verkefni bankans, vekja athygli á útgáfum hans og vera vettvangur fyrir stjórnendur og starfsfólk til að setja fram áhugavert efni sem tengist sérsviði þeirra innan bankans.
Nú þegar búið að birta grein í Kalkofninum
Útgáfustarfsemi bankans er nú þegar umfangsmikil, líkt og segir í tilkynningunni. Fjórum sinnum á ári gefur bankinn út Peningamál þar sem gert er grein fyrir horfum í efnahags- og peningamálum. Fjármálastöðugleiki er rit sem kemur út tvisvar á ári en þar er birt yfirlit yfir stöðu fjármálakerfisins. Einu sinni á ári kemur út ritið Fjármálaeftirlit þar sem skýrt er frá því hvernig Seðlabankinn vinnur að þeim verkefnum sem honum eru falin á sviði fjármálaeftirlits. Þá eru ótalin ýmis rit, skýrslur og erindi sem bankinn gefur út.
„Kalkofninn, sem við undirrituð höfum tekið að okkur að ritstýra, er eðlileg viðbót við útgáfuflóru Seðlabankans en greinunum sem hér birtast er ætlað að höfða til almennings, atvinnulífs, fjölmiðla og fræðasamfélags. Það er einnig von okkar að þetta muni hvetja starfsfólk Seðlabankans til að fjalla um áhugaverð efni sem tengist sérsviði þess og auðga þannig umræðu um efnahagsmál og fjármálamarkaðinn,“ segir í áðurnefndri tilkynningu sem undirrituð er af ritstjórum Kalkofnsins.
Nú þegar hefur fyrsta grein Kalkofnsins litið dagsins ljós, en hún ber heitið Sviðsmyndagreiningar vegna loftslagsáhættu. Hún er rituð af Sigurði Frey Jónatanssyni sem er sérfræðingur á sviði fjármálastöðugleika hjá Seðlabankanum.