Jón Ásgeir Jóhannesson stjórnarformaður Skeljungs segir, í ávarpi í nýútkominni ársskýslu fyrirtækisins, að þrátt fyrir að ekki sé langt síðan innlendri starfsemi félagsins hafi verið skipt upp í þrjú dótturfélög megi strax finna „kraftinn sem er að leysast úr læðingi vegna hennar“.
„Ég hef oft sagt við samstarfsmenn mína í Skeljungi að ég hafi orðið syfjaður við að koma á skrifstofu félagsins árið 2019. Andinn var líkur því að mæta á fund í ríkisstofnun í gamla daga. Nú er andinn annar. Leikgleðin er allsráðandi í hópi frábærra starfsmanna sem ætla sér að skora með sínu liði á nýju ári,“ skrifar Jón Ásgeir einnig, í ávarpi sínu.
Þar fjallar hann einnig um væntanlega nafnabreytingu Skeljungs, en nafni félagsins verður að öllum líkindum breytt í SKEL fjárfestingafélag á komandi aðalfundi félagsins. „Með þessu undirstrikum við þær breytingar sem orðið hafa á rekstri félagsins,“ segir Jón Ásgeir í pistli sínum.
Nær allur hagnaðurinn vegna sölu á P/F Magn
Skeljungur hagnaðist um 6,9 milljarða króna á síðasta ári. Sá hagnaður er nær allur tilkominn vegna sölu á færeyska dótturfélaginu P/F Magn á árinu 2021, en bókfærð áhrif þeirrar sölu á tekjur Skeljungs í fyrra voru 6,7 milljarðar króna. Hluthafar ætla að greiða sér út 350 milljónir króna í arð vegna frammistöðu síðasta árs.
Í fjárfestakynningu sem birt var samhliða ársuppgjöri félagsins í febrúar kom fram að Skeljungur verði héðan í frá fjárfestingafélag og beri nafnið SKEL fjárfestingafélag. Þar með lýkur sögu olíufélagsins Skeljungs á Íslandi, en hún hófst árið 1928.
Strengur, eignarhaldsfélag sem stjórnarformaðurinn Jón Ásgeir Jóhannesson fer fyrir, á 50,1 prósent hlut í félaginu og hefur því tögl og hagldir innan þess. SKEL byrjar tilveru sínu með 12 milljarða króna í handbært fé, um 50 prósent eiginfjárhlutfall og einungis tvo milljarða króna í vaxtaberandi skuldum. Áhersla verður lögð „á þróun á nýjum tækifærum með félögum í eignasafni með langtíma verðmætasköpun að leiðarljósi.“
Stærstu eignir fjárfestingafélagsins eru 100 prósent hlutur í Orkunni, Skeljungi IS og Gallon, 48,5 prósent hlutur í Sp/f Orkufélagi í Færeyjum (sem keypti P/F Magn), 20 prósent hlutur í Kaldalóni og 50 prósent hlutur í félaginu Fasteignaþróun.
Orkan, stærsta eign félagsins, rekur 70 þjónustustöðvar með eldsneyti og átta verslanir, þrjár matvöruverslanir undir hatti Extra og þrjár þægindaverslanir undir hatti 10/11. Þá á Orkan Löður sem rekur 15 þvottastöðvar, Lyfjaval og Lyfsalann sem reka sex apótek, Brauð & Co, Gló, Sbarro og WEDO (Heimkaup, Hópkaup, Bland).