Stjórnvöld í Bandaríkjunum eru að útbúa varnarkerfi til að fyrirbyggja árásir með drónum í einkaeigu. Alríkislögreglan í samstarfi við lögregluyfirvöld í einstaka ríki eru að undirbúa hátæknilegt öryggiskerfi til að geta betur mætt drónaárásum. Þetta hefur fréttastofan Reuters eftir heimildamönnum sínum.
Bandarísk stjórnvöld eru sögð hafa áhyggjur af árásum með drónum í einkaeigu eftir að myndbönd fóru að birtast á vefnum sem sýna dróna sem breyttir hafa verið til að bera og skjóta úr skammbyssum. Saksóknari í Connecticut hefur eitt slíkt mál til rannsóknar en í júlí er 18 ára piltur talinn hafa skotið fjórum skotum úr skammbyssu áfastri á dróna.
https://youtu.be/FI--wFfipvA
Kerfið sem lögreglan er að útbúa benir örbylgjum að drónanum sem ruglar boðin frá honum og til eigandans. Flestir drónar eru forritaðir þannig að ef samband við eiganda tapast lendir hann sjálfkrafa á fyrirfram ákveðnum hnitum.
Lögreglan í New York prófaði tæknina á Time Square á nýjársnótt, þegar torgið var fullt af fólki. Vegna þess hversu mikið af útstendingum fjölmiðla og öðrum bylgjum voru í loftinu mistókst tilraunin.
Fjöldi óleyfilegra drónafluga í Bandaríkjunum hefur margfaldast á undanförnum árum í takti við vinsældir þessara nýju tækja. Áhyggjur stjórnvalda vestra eru ekki síður byggðar á hættunni sem þessi tæki gætu skapað fyrir farþegaflug.
Vitað er um mörg dæmi þess að drónar komist í hættulegt návígi við flugvélar í flugtaki eða lendingu auk þess sem að þessi tæki hafa verið notuð til að smygla eiturlyfjum yfir landamærin frá Mexíkó og ógnað öryggi forseta Bandaríkjanna þegar einhver flaug drónanum sínum yfir lóð Hvíta hússins í Washington.
Samkvæmt drögum að nýrri reglugerð um meðferð dróna hér á landi verður bannað að fljúga drónum nærri lögreglustöðvum, fangelsum og opinberum byggingum eins og Bessastaði. Reglugerðin verður byggð á dönskum reglum um meðferð dróna en þar er bannað að fljúga drónum nærri herstöðvum og konungshöllum. Þá verður bannað að fljúga drónum í eins og hálfs kílómeters fjarlægð frá flugvöllum.