„Gæðakopar - gulls ígildi.“ Þessa fyrirsögn mátti lesa á dönskum netmiðli fyrir nokkrum dögum. Tilefni fyrirsagnarinnar var að koparþjófar hafa að undanförnu gerst stórtækir í „störfum“ sínum. Í liðinni viku hafa þeir fimm sinnum lamað hluta danska lestakerfisins með því að klippa sundur rafmagnskapla dönsku járnbrautanna og í öll skiptin haft á brott með sér hundruð kílóa af kopar. Vandamálið er ekki nýtt af nálinni og hreint ekki bundið við Danmörku.
Í nýliðinni viku birtust daglega í dönskum fjölmiðlum fréttir af koparþjófunum, eins og þeir eru kallaðir. Með fréttunum fylgdu gjarna myndir af sundurklipptum köplum og viðgerðamönnum járnbrautanna sem keppast við að koma fyrir nýjum rafmagnsköplum í stað þeirra stolnu.
Gangverð á kopar er frá 40 til 90 krónur kílóið (ca. 800 – 1.800 íslenskar krónur) fer eftir gæðum málmsins.
Danska lestakerfið er í raun tvískipt, fyrir utan Metrokerfið í Kaupmannahöfn. Annars vegar lestir sem ganga fyrir olíu og hinsvegar hinar svonefndu S-lestir sem eru rafknúnar. S-lestirnar voru upphaflega bundnar við Kaupmannahafnarsvæðið en ná nú yfir mun stærrri hluta Sjálands. Þær eru hljóðlátari, umhverfisvænni og eyðslugrennri en dísillestirnar, raforkan er flutt með köplum sem lagðir eru í teinana. Það eru þessir kaplar sem freista hinna fingralöngu. Teinarnir liggja víða um svæði þar sem fáir eru á ferli, slík svæði og náttmyrkrið eru eftirlæti þjófanna.
Köplum stolið annan hvern dag á síðasta ári
Árið 2014 var uppgripaár hjá kaplaþjófum hér í Danmörku. Í 173 skipti beittu þeir klippunum og þótt kílóverðið á kopar sé ekki sérlega hátt (sé miðað við gull) hafa þeir haft talsvert uppúr krafsinu. Gangverð á kopar er frá 40 til 90 krónur kílóið (ca. 800 – 1.800 íslenskar krónur) fer eftir gæðum málmsins.
Starfsmenn járnbrautanna huga að sundurklipptum rafmagnsvírum.
Talsmaður dönsku járnbrautanna hefur ekki viljað upplýsa nákvæmlega hversu mikinn kopar þjófarnir hafa komist yfir en fjölmiðlar telja að andvirði koparsins nemi fimm og hálfri milljón króna (ca. 110 milljónir ísl.). Þá er ótalinn annar kostnaður, laun viðgerðamanna, strætisvagnar til að bjarga málum og svo framvegis. Tjónið er þó mest hjá farþegunum, sem ekki komast leiðar sinnar á tilsettum tíma. Starfsfólk dönsku járnbrautanna veit ekki með vissu hversu margir ekki hafa komist leiðar sinnar þegar ferðir hafa fallið niður en daglega ferðast nærri 360 þúsund manns með S-lestunum.
En af hverju er kopar í köplunum?
Ástæða þess er einfaldlega sú að kopar er sá málmur (að silfri undanskildu) sem hefur hvað besta rafleiðni. Á síðustu árum hefur reyndar orðið mikil þróun í notkun áls í rafmagnskapla og í dag eru nær allir nýir kaplar sem dönsku járnbrautirnar nota gerðir úr áli. Þegar þjófarnir klippa sundur álkapal (sem hefur margoft gerst) og sjá að hann er úr áli hraða þeir sér á brott.
Utanbæjarmenn!
Íslendingar þekkja vel úr fréttum af drykkjulátum og óspektum úti á landi að oft er sérstaklega tekið fram að „utanbæjarmaður“ hafi átt í hlut. Hér í Danmörku hefur ekki tekist að upplýsa marga þjófnaði á koparköplum. Lögreglan telur sig þó vita að í mörgum tilvikum séu það erlendir ríkisborgarar, meðal annars frá Rúmeníu, sem eigi í hlut. Fyrir nokkrum dögum handtóku laganna verðir tvo menn sem staddir voru hjá brotajárnssala (sem ekki hefur starfsleyfi) í Suðurhöfninni í Kaupmannahöfn, þeirra erinda að selja koparkapla merkta dönsku jánbrautunum. Mennirnir sem eru með rúmensk vegabréf sitja nú í grjótinu.
Ráðherrann nefndi einnig að brotajárnssalar ættu að hugsa sig vel um áður en þeir kaupi góss sem augljóslega sé illa fengið.
Koparmálið, eins og það er kallað hefur nú náð inn í danska þingið (Folketinget) og margir þingmenn krefjast þess að strangar verði tekið á koparþjófunum, en fram til þessa hefur refsing við slíku afbrotum verið nokkurra mánaða fangelsi.
Blek og DNA merki
Í viðtali við einn dönsku fjölmiðlanna sagði samgönguráðherrann Magnus Heunicke að mjög kostnaðarsamt yrði að skipta öllum rafmagnsköplum dönsku járnbrautanna út. Svo kostnaðarsamt að slíkt kæmi vart til greina. Ráðherrann sagði að lögreglan væri með ýmis konar aðgerðir í undirbúningi en vildi ekki útskýra það nánar. Hann nefndi einnig að til greina kæmi að koma fyrir DNA merkjum í köplunum, það hafa Þjóðverjar, Bretar og Hollendingar gert með góðum árangri. Bretar hafa sömuleiðis notað sérstakt blek sem klínist á þann sem kemur við kaplana.
Ráðherrann nefndi einnig að brotajárnssalar ættu að hugsa sig vel um áður en þeir kaupi góss sem augljóslega sé illa fengið. Að lokum nefndi ráðherrann að eftirlit með járnbrautarteinum S-lestanna hefði nú verið stóraukið. Hvort slíkt dugir til að koma í veg fyrir frekari þjófnaði, eða fækka þeim, verður tíminn að leiða í ljós.