Breskur dómstóll hefur úrskurðað að vegabréf tveggja stúlkna frá Austur-Lundúnum verði haldlögð, til að koma í veg fyrir að þær ferðist til Sýrlands til að ganga til liðs við hryðjuverkastamtökin ISIS, sem kenna sig við íslamska ríkið. Fréttavefurinn Quartz greinir frá málinu.
Foreldrar stúlknanna leituðu með málið fyrir dómstóla, en þeir höfðu þungar áhyggjur af því að stúlkurnar myndu ferðast til Sýrlands í þessum tilgangi, vegna áhuga þeirra á að taka þátt í stríði ISIS.
Í síðasta mánuði tókst þremur ungum stúlkum frá Austur-Lundúnum að ferðast til Istanbul í Tyrklandi, en talið er að þær hafi gengið til liðs við ISIS-samtökin í Sýrlandi. Samkvæmt fjölmiðlum notuðu hryðjuverkasamtökin samfélagsmiðilinn Twitter til að ná til stúlknanna.
Bresk yfirvöld hafa vaxandi áhyggjur af því að róttæk íslömsk viðhorf séu að skjóta rótum á meðal þarlendra ungmenna. Til að mynda er hinn alræmdi „Jihadi John,“ sem hefur tekið fjölmarga gísla hrottalega af lífi fyrir framan myndbandsupptökuvélar ISIS, breti að nafni Mohammed Emwaz frá Vestur-Lundúnum.
Samkvæmt bresku leyniþjónustunni er talið að þúsundir Breta taki nú þátt í stríði ISIS í Írak og Sýrlandi, og áhugi á meðal breskra ungmenna að ganga til liðs við samtökin fer vaxandi, og þá sérstaklega á meðal ungra stúlkna. Þá standa sömuleiðis frönsk stjórnvöld í ströngu að koma í veg fyrir ungar stúlkur fari úr landi til að ganga í hjónaband með ISIS-liðum.