Yfirkjörstjórn í sveitarstjórnarkosningum í Hafnarfirði tók í vor ákvörðun um að mála yfir vegglistaverk eftir myndlistarmennina Libiu Castro og Ólaf Ólafsson, en staðsetning verksins, sem bar skilaboðin „Við eigum nýja stjórnarskrá“ var talin brjóta í bága við ákvæði kosningalaga um óleyfilegan kosningaáróður í næsta nágrenni kjörstaðar.
Verkið var fyrir ofan undirgöng í nágrenni Lækjarskóla, sem var annar tveggja kjörstaða í Hafnarfirði í sveitarstjórnarkosningunum í vor. Ólafur vakti fyrir rúmri viku síðan athygli á því, með færslu á Facebook, að verkið væri á bak og burt. Undirgöngin sem um ræðir blasa við þeim sem aka inn á bílastæði Lækjarskóla við Sólvangsveg, en sjást þó ekki frá sjálfum skólanum, kjörstaðnum.
Libia og Ólafur voru útnefnd myndlistarmenn ársins við afhendingu Íslensku myndlistarverðlaunanna árið 2021, fyrir sýningu sem bar heitið Í leit að töfrum – tillaga að nýrri stjórnarskrá. Var verkið sem málað var yfir í Hafnarfirði í þeim sama stíl.
Í athugasemdum undir færslu sinni sagðist Ólafur hafa heyrt af því, sem raunin er, að málað hefði verið yfir verkið skömmu fyrir sveitarstjórnarkosningarnar að kröfu kjörstjórnar og furðaði sig á þeirri ákvörðun, enda hefðu sveitarstjórnarkosningarnar í vor ekki snúist um stjórnarskrármál.
Samkvæmt svörum sem Kjarninn fékk frá Hafnarfjarðarbæ var ákvörðunin um að mála yfir verkið tekin af yfirkjörstjórn, en það er kjörstjórnarinnar að tryggja að framkvæmd kosninga í sveitarfélaginu sé í samræmi við kosningalög.
Staðsetning skilaboðanna var „talin brjóta í bága við kosningalög kafla XIV um atkvæðagreiðslu á kjörfundi,“ sem finna má í 81. grein nýrra kosningalaga. Þess er einnig getið í svari frá bænum að auglýsingar stjórnmálaflokka á strætóskýlum sem voru í sjónlínu við kjörstaði, hafi verið fjarlægðar á kjördag.
Enga skilgreiningu á kosningaáróðri að finna í nýjum kosningalögum
Lagagreinin sem vísað er til hljóðar svo: „Kjörstjórn skal sjá til þess að á kjörstað og í næsta nágrenni hans fari hvorki fram óleyfilegur kosningaáróður eða kosningaspjöll né önnur starfsemi sem truflar eða hindrar framkvæmd kosninga.“
Í nýjum kosningalögum, sem samþykkt voru árið 2021, er ekki sérstaklega skilgreint hvað teljist sem kosningaáróður og hvað ekki. Það var hins vegar útskýrt í fyrri lögum um kosningar til Alþingis, sem nú eru á brott fallin.
Í þeim lögum sagði meðal annars að óleyfilegt væri að reyna að hafa áhrif á atkvæðagreiðslu „hvort heldur er með ræðuhöldum, prentuðum eða skriflegum ávörpum eða auglýsingum, með því að bera eða hafa uppi merki stjórnmálasamtaka eða önnur auðkenni er tengjast hinum ólíku sjónarmiðum sem kosið er um á sjálfum kjörstaðnum, það er í kjörfundarstofu, kjörklefa eða annars staðar í eða á þeim húsakynnum þar sem kosning fer fram, svo og í næsta nágrenni.“
Kjörstjórnin sammála um að rétt hafi verið að mála yfir verkið
Í kjörstjórn Hafnarfjarðarbæjar sitja þær Þórdís Bjarnadóttir, sem er formaður nefndarinnar, Hildur Helga Gísladóttir og Helena Mjöll Jóhannsdóttir. Samkvæmt samtölum blaðamanns við þær er ekki annað að skilja en að þær hafi verið samstíga um að nauðsynlegt væri að mála yfir verkið.
„Í aðdraganda kosninga bárust okkur ýmsar ábendingar um kosningaáróður sem væri nálægt kjörstöðum og myndi geta haft áhrif á framkvæmd kosninga eða truflað fólk og þetta var meðal annars ein ábending,“ segir Þórdís, sem er fulltrúi Sjálfstæðisflokksins í kjörstjórninni, í samtali við Kjarnann. Hún bætir við ákvörðun hafi verið tekin um að mála yfir skilaboðin, þar sem þau voru í sjónlínu við aðkomu að kjörstaðnum.
Hildur Helga, sem er fulltrúi Framsóknarflokksins í kjörstjórninni, sagði við blaðamann að með þessari ákvörðun hefði kjörstjórnin verið að uppfylla skyldur sína og gera það sem þurft hefði að gera til að ekki væri hægt að véfengja störf kjörstjórnar. Helena Mjöll, fulltrúi Samfylkingar í kjörstjórninni, sagði að skilaboðin hefðu verið of nálægt kjörstaðnum. Því hefði þessi ákvörðun verið tekin.
Listamaður afar ósammála
Ólafur Ólafsson myndlistamaður er alls ekki á sama máli og kjörstjórnin. Hann bendir á það í svari til Kjarnans að í þeirri skilgreiningu á óleyfilegum kosningaáróðri sem skrifuð hafi verið inn í lög sé sérstaklega fjallað um að áróður „sem tengist hinum ólíku sjónarmiðum sem kosið er um á sjálfum kjörstaðnum“ og bendir á að ekki hafi verið kosið um nýja stjórnarskrá í sveitarstjórnarkosningunum 14. maí.
„Að mínu mati hefðu þær allt eins getað óskað eftir því að N1 fjarlægðu fána sína, sem blasa við frá kjörstað, því það má allt eins líta á nærveru þeirra sem áróður fyrir jarðolíu sem eldsneytisgjafa, en orka og orkugjafar eru eitt af stóru pólitísku málum dagsins í dag, á öllum stjórnunarstigum,“ segir Ólafur.
Annað stjórnarskrárverk fjarlægt af gafli í Hafnarfirði í fyrra
Þetta er ekki í fyrsta sinn sem verk eftir þau Libiu og Ólaf er látið hverfa fyrir tilstilli yfirvalda í Hafnarfirði. Í upphafi maímánaðar í fyrra var listaverk þeirra fjarlægt af gafli Hafnarborgar, menningar- og listamiðstöðvar Hafnarfjarðar, að beiðni bæjarstjórans Rósu Guðbjartsdóttur.
Það verk var hengt upp á húsið eftir að listamennirnir höfðu að eigin sögn fengið munnlegt leyfi til þess að hengja það utan á Hafnarborg, en sýning á verkum þeirra fór fram innandyra. Tveimur dögum síðar var verkið hins vegar tekið niður og því borið við að formlegt leyfi fyrir uppsetningu þess hefði skort.
Listaverkið sem um ræddi í það skiptið var nákvæm uppstækkun á einum af miðunum sem voru fylltir út af þátttakendum þjóðfundarins sem haldinn var árið 2010 í aðdraganda þess að Stjórnlagaráð tók til starfa. Á miðann hafði verið skrifað „Ekki kjafta ykkur frá niðurstöðum Stjórnlagaþings“.
Listráð Hafnarborgar sendi frá sér yfirlýsingu vegna þess máls, þar sem sagði að það teldi niðurtöku verksins „óforsvaranlegt inngrip í listræna starfsemi safnsins og það setji gott orðspor og heiður safnsins í alvarlegt uppnám.“ Bandalag íslenskra listamanna (BÍL) kallaði ákvörðun bæjarstjóra fordæmalausa og sagði „allar eftir á skýringar um leyfisveitingar“ vera „hefðbundið yfirklór og tæknilegar aðfinnslur til að réttlæta þá ritskoðun,“ í yfirlýsingu.
Löng umræða um málið fór fram á fundi bæjarstjórnar Hafnarfjarðar um miðjan maí í fyrra. Fulltrúar minnihlutans kölluðu þar eftir afsökunarbeiðni bæjarstjóra á fjarlægingu listaverks þeirra Libiu og Ólafs. Rósa bæjarstjóri sagði það hins vegar af og frá að um ritskoðun hefði verið að ræða. Hún sagði að tilskilin leyfi fyrir uppsetningu verksins hefðu einfaldlega ekki verið fyrir hendi.
Hún sagði starfsmenn bæjarins hafa leitað mikið af leyfinu sem talað hefur verið um að listamennirnir hafi fengið. „Þetta er munnlegt eitthvað á milli fólks sem að við höfum ekki verið áheyrendur að sem að stöndum í þessu máli. Það dugar ekki í stjórnsýslu Hafnarfjarðar,“ sagði Rósa.
Þessu argaþrasi lauk að endingu með því að listamennirnir hengdu verk sitt aftur upp á sama stað og gáfu lítið fyrir tillögur bæjarstjórans um að láta verkið vera frístandandi framan við Hafnarborgina.