Verðbólga hefur ekki verið hærri síðan í febrúar 2013. Hún mælist nú 4,6 prósent en var 4,8 prósent fyrir rúmum átta árum síðan. Frá því að kórónuveirufaraldurinn skall á hefur verðbólgan farið úr 1,7 prósent, sem er vel undir 2,5 prósent verðbólgumarkmiði Seðlabanka Íslands, og í áðurnefnd 4,6 prósent.
Þetta kemur fram í nýjum tölum frá Hagstofu Íslands.
Verðbólgan jókst um 0,3 prósentustig milli mánaða. Helstu áhrifavaldar þess eru að reiknuð húsaleiga hækkaði um 2,5 prósent og matur og drykkjarvörur hækkuðu um 1,1 prósent. Verðbólga hefur nú verið yfir verðbólgumarkmiði Seðlabanka Íslands í eitt ár.
Mælist hærri hérlendis en í flestum öðrum löndum
Allt frá byrjun heimsfaraldursins á fyrstu mánuðum síðasta árs hafa miklar verðhækkanir átt sér stað hér á landi. Verðbólgan mælir þær hækkanir. Hún er með því mesta sem mælist í allri Evrópu hérlendis og hefur hækkað hraðast af þeim öllum á tímabilinu. Verðbólga innan Evrópusambandsins mælist til að mynda 1,7 prósent og innan þeirra ríkja sem notast við evru sem gjaldmiðil er hún 1,3 prósent.
Samkvæmt Seðlabankanum stafar verðbólgan þó fyrst og fremst af veikingu krónunnar.
Krónan drifkraftur
Samkvæmt síðustu þremur heftum Peningamála Seðlabankans virðist meginþungi undanfarinna verðhækkana frekar liggja í veikara gengi krónunnar. Með veikari krónu hækkar verð vöru og þjónustu í öðrum gjaldmiðlum. Þannig leiðir gengisveiking til verðhækkunar á innfluttum vörum, en Seðlabankinn sagði þessa þróun vera meginskýringuna á aukinni verðbólgu í ágúst og í nóvember á síðasta ári.
Í síðasta riti peningamála sem birtist í janúar sagði Seðlabankinn einnig að meginþungi verðhækkana á fjórðungnum fælist í hækkun á innfluttri vöru, einkum fatnaði, ýmsum heimilisbúnaði og tómstundavörum.
Það hefur þó dregið hefði úr áhrifum gengislækkunar krónunnar að undanförnu, enda hefur gengi krónu hækkað undanfarna mánuði.
Vill tryggja lága verðbólgu og lága vexti
Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri ræddi peningastefnu bankans í nýlegu viðtali við Stundina.
Þar sagði hann að sú peningastefna sem Seðlabanki Íslands reki sé velferðarstefna og markmið hennar sé að tryggja öryggi fyrir venjulegt fólk, ekki sérhagsmunaaðila.
Stöðugleiki í gengi, sem næst með inngripum bankans á gjaldeyrismarkað, sé þar lykilbreyta. „Góð peningastefna skiptir þá tekjulægstu mestu máli; þeir tapa mestu á verðbólguskoti eða einhverri slíkri kollsteypu eða umsnúningi. Þetta skiptir mig mjög miklu máli. Ég lít á þetta sem velferðarstefnu. Ég vil tryggja lága verðbólgu og lága vexti. Þetta eru grundvallaratriði fyrir góð lífskjör á Íslandi.[...]Við erum lítil þjóð, Ísland, en ef við sýnum samstöðu og samfélagslega ábyrgð þá getum við gert ansi margt.“