Verðtryggð húsnæðislán á Íslandi eru rétt um 1.200 milljarðar króna og því hækka þau um tólf milljarða króna ef verðbólga hækkar um eitt prósent. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra segir í samtali við Fréttablaðið í dag að þetta verði að hafa í huga í yfirstandandi kjaraviðræðum, en varað hefur verið við því að verðbólga fari á fullt ef gengið verður að kröfum verkalýðshreyfingarinnar um tugprósenta launahækkanir.
Sigmundur Davíð segir að húsnæðislánin séu ein af ástæðunum fyrir því að það sé mikilvægt að forðast að verðbólga fari aftur á skrið. „ „Hvað varðar svo húsnæðismálin sérstaklega, þá er það jú eitt atriði, en þar er mikilvægt að hafa í huga vegna umræðu sem hefur orðið að leiðréttingin er í raun verðtryggð líka, þeim mun meiri sem verðbólgan er, þeim mun meira munar um að leiðréttingin hafi átt sér stað. Það breytir þó ekki því að það er engu að síður stórhættulegt og mjög skaðlegt að verðbólgan fari af stað. Þess vegna hlýtur að vera mikið á sig leggjandi til að koma í veg fyrir það.“
Fréttablaðið ræðir einnig við Ásgeir Jónsson, dósent við hagfræði við Háskóla Íslands, sem segir að verðbólga éti upp skuldaniðurfærslu á verðtryggðum húsnæðislánum sem ríkisstjórnin réðst í undir lok síðasta árs. „Verðbólgan étur upp þessa niðurfærslu á lánunum. Niðurfærslan er náttúrulega verðbólgu hvetjandi, það er bara spurning um hversu mikil áhrifin verða. Allar þessar stærðir tengjast hins vegar. Um leið og laun byrja að hækka fer fasteignaverð að hækka. Það er því ekkert ólíklegt að það eigið fé sem búið var til hjá fólki með skuldaniðurfærslunni haldi sér.“
Leiðréttingin þegar farin að ýta undir verðbólgu
Skuldaniðurfellingaráætlun ríkisstjórnarinnar, sem í felst að greiða hluta þeirra sem voru með verðtryggð húsnæðislán á árunum 2008 og 2009 um 80 milljarða króna vegna verðbólgu þeirra ára, er þegar farin að valda verðbólgu samkvæmt greiningaraðilum. Vísitala neysluverðs, sem mælir verðbólgu í landinu, hækkaði til að mynda um eitt prósent milli febrúar og mars og hafði ekki hækkað svo snarpt milli mánaða síðan í febrúar 2013.
Í síðustu viku birti Greining Íslandsbanka þá greiningu sína að hröð hækkun á kaupmætti ráðstöfunartekna heimilanna og áhrif aðgerða ríkisstjórnarinnar til lækkunar á verðtryggðum lánum heimila, hin svonefnda Leiðrétting, séu undirliggjandi ástæður þess að hækkun íbúðaverðs hefur verið hröð undanfarið. Alls hefur verð íbúða hækkað um 9,4 prósent síðustu tólf mánuði að nafnvirði á landinu öllu og um 7,7 prósent að raunverði. Þessi hækkun hefur einnig valdið aukinni verðbólgu og þar með „dregið úr þeim ávinningi mælt í auknu eigin fé heimilanna sem húsnæðisverðhækkunin hefur skilað.“