Sigurður Jóhannesson, forstöðumaður Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands, býst við að meginvextir Seðlabankans hækki í 2 prósent eftir að sóttvarnaraðgerðum á landamærunum verður aflétt. Samkvæmt honum gæti skammtímaverðbólga vaxið frekar hratt á fyrstu mánauðum ársins 2022, þar sem þensla gæti myndast í efnahagslífinu sem væri erfitt að stöðva.
Þetta segir Sigurður í nýjustu hagspá Hagfræðistofnunarinnar, sem birtist í síðasta tölublaði Vísbendingar, en þar fer hann yfir vænta þróun verðlags, gengis og atvinnuleysis á næstu mánuðum.
Enn lítil eftirspurn eftir krónum
Samkvæmt Sigurði hefur Seðlabankinn verið umsvifamikill á gjaldeyrismarkaði síðan í fyrrasumar, en veiking krónunnar hefur verið lítil síðan þá. Frá ágúst í fyrra til febrúarmánaðar keypti bankinn tæplega helming allra króna sem voru til sölu á gjaldeyrismarkaði. Í febrúar sagðist bankinn svo ætla að draga úr tíðni og umfangi reglubundinnar gjaldeyrissölu, en gæti látið til sín taka á gjaldeyrismarkaði ef hann telur þörf á því.
Sigurður segir ekki víst hvort mikil stefnubreyting sé boðuð með þessari yfirlýsingu, þar sem almenn eftirspurn eftir krónum muni sennilega ekki aukast að neinu ráði fyrr en landið verði opnað aftur fyrir ferðamönnum.
Verðbólga gæti aukist aftur á næsta ári
Í hagspánni er búist við að ársverðbólga fari undir 4 prósenta mörkin í maí og lækki jafnt og þétt til ársloka. Þó segir Sigurður að miklar launahækkanir ýti verðlaginu upp, en vaxandi atvinnuleysi haldi aftur af verðhækkunum fram á sumar. Þegar landið opnast svo aftur fyrir ferðamönnum er svo búist við að krónan styrkist, sem dragi úr verðbólgu.
Hins vegar bætir Sigurður við að erfitt gæti verið að stöðva þensluna sem fer af stað þegar landið verður opnað. Skammtímaverðbólga gæti því vaxið frekar hratt á fyrstu mánuðum ársins 2022.
Náttúrulegt atvinnuleysi í nóvember
Spá Hagfræðistofnunar um þróun atvinnuleysis byggir á tölum Hagstofu. Sigurður bætir þó við að ljóst sé að Hagstofan hafi vanmetið skráð atvinnuleysi, þar sem illa gengur að ná í fólk sem hefur aðeins verið á landinu í skamma hríð. Aftur á móti segir Sigurður að Hagstofan noti sömu aðferðir og stuðst er við í flestum öðrum löndum og því sé rétt að styðjast við tölur hennar í alþjóðlegum samanburði.
Hagfræðistofnun gerir ráð fyrir auknu atvinnuleysi fram á vor, en að það minnki síðan hratt í sumar líkt og venjan er og minnki svo enn frekar eftir að ferðamenn taka aftur að streyma hingað. Ef spáin er rétt verður mælt atvinnuleysi komið niður fyrir fjögur prósent í nóvember á þessu ári, en það er stigið sem Hagfræðistofnun telur vera náttúrulegt atvinnuleysi hér á landi.
Hægt er að gerast áskrifandi að Vísbendingu með því að smella hér.