Þeir Breki Karlsson og Helgi Seljan, umsjónarmenn Ferðar til fjár á RÚV, ræddu í síðasta þætti hvernig virði peninga rýrnar. Helgi rifjaði það upp hvernig hann gat einu sinni keypt stóran poka af sælgæti fyrir hundrað kall. Í dag, einhverjum tuttugu árum síðar, fær hann varla svo mikið sem karamellu fyrir sama pening. „Hvernig stendur á því að ég fæ eina karamellu núna en áður gekk ég út með brjósklos undan farginu,“ spurði hann Breka.
Sökudólgurinn er auðvitað verðbólgan. Það sem fæst fyrir sömu fjárhæð minnkar og minnkar með árunum. Með öðrum orðum þá rýrnar verðgildi peningsins – minna fæst fyrir hann en áður. Eins og Breki benti á, þá verður þó að hafa í huga að áður tók það mun lengri tíma að vinna sér inn fyrir samskonar stærð af sælgætispoka og í gamla daga. Fleiri hundrað kallar fást fyrir vinnu en þá.
„Laun hafa að meðaltali hækkað um 23 prósent umfram verðbólgu undanfarin 25 ár,“ sagði Breki. Kaupmáttur launa, það er það magn af vörum eða þjónustu sem við fáum fyrir kaupið okkar, hefur þannig aukist á þessum tíma, þótt stór poki af sælgæti kosti í dag miklu meira en hundrað krónur.
Breyting á vísitölu neysluverðs yfir tólf mánaða tímabil er jafnan kölluð verðbólga, eða verðhjöðnun ef verðlag lækkar á tímabilinu. Hagstofan mælir hundruð vara og þjónustuliða í hverjum mánuði til þess að fylgjast með verðlagsbreytingum. Þessar vörur og þjónusta vigta misþungt í vísitölunni. Eins og fram kom í síðasta þætti af Ferð til fjár þá er afar misjafnt hvernig verð hefur breyst á einstökum liðum. Þannig hefur rjómasúkkulaði hækkað um tæplega helming á síðastliðnum 15 árum á sama tíma og verð á gallabuxum hefur nærri tvöfaldast. Á þessu tímabili hækkaði verðlag í landinu um 116 prósent, samkvæmt vísitölu neysluverðs.
Verðbreyting á rjómasúkkulaði og gallabuxum frá 1999 til 2014.
Kjarninn og Stofnun um fjármálalæsi hafa tekið höndum saman og munu fjalla ítarlega um heimilisfjármál samhliða þáttunum Ferð til fjár, sem sýndir verða á RÚV næstu vikur. Markmiðið: Að stuðla að betra fjármálalæsi hjá landsmönnum! Næsti þáttur er á dagskrá fimmtudaginn 5. febrúar. Fylgstu með á Facebook-síðu Ferðar til fjár.